25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í C-deild Alþingistíðinda. (11145)

268. mál, áfengislög

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Við, sem flytjum þetta frv., erum sammála um aðalstefnu þess, afnám þeirra litlu leifa, sem eftir eru af vínbannslögunum, svo og það, að affarasælla sé fyrir þjóðfélagið að hafa skynsamlega áfengislöggjöf heldur en bannlög. Hinsvegar áskilja flm. sér rétt til að koma fram með smærri breyt. við einstök atriði frv., sem ekki hagga grundvelli þess, eða fylgja slíkum breyt., ef fram koma frá öðrum hv. dm. undir meðferð málsins.

Um ástæður fyrir því, að við flytjum frv., vísast að mestu til grg., en ég vil þó bæta þar við nokkrum orðum.

Ég býst ekki við, að neinn verði til að halda því fram, að tilgangi þeim, sem menn hugðust að ná með samþykkt bannlaganna frá 1909, hafi orðið náð. Ég var einn þeirra manna, sem við þjóðaratkvæðagreiðslu óskaði eftir, að bannlög yrðu sett. Ég skal játa, að það var eingöngu fyrir það, að ég vildi gjarnan gera vínnautn landræka. Hinsvegar verð ég að játa, að ég hafði alls ekki kynnt mér málið svo, að ég hafi hugsað um þær afleiðingar, sem slík lagasetning hefði í för með sér. Ég hugsaði sem svo: Forgöngumenn málsins hljóta að hafa athugað allar afleiðingar, og ég treysti þeim í þessu máli. Líkt þessu hygg ég, að ástatt hafi verið fyrir öllum þorra þeirra manna, sem óskuðu eftir vínbannslögum.

Ekki leið á löngu, þar til ég fór að sjá ókosti laganna. Fyrst þann, að ekki var unnt að hefta innflutninginn. Annað, að sumir öfgamenn notuðu málið til pólitískrar rógstarfsemi. Í þriðja lagi þann, að almenningur bar ekki virðingu fyrir lögunum, þvert á móti þótt það „sport“ að brjóta lögin.

Lögreglustjórar gátu ekki kæft niður lögbrotin, einkum af því, að lögin höfðu ekki stoð í hugsunarhætti þjóðarinnar og af þeim sökum hlífðust menn við að kæra þá, sem brotlegir voru. Í því efni minnist ég þess, að ég var þráfaldlega sjónarvottur að því, að æstustu bannmenn leiddu drukkna menn um göturnar á Ísafirði og hlógu að skrafi þeirra og drykkjulátum og skutu þeim undan lögreglunni. Með örfáum undantekningum horfðu bannmenn svo til daglega upp á lögbrotin án þess að kæra. Ástæðan auðvitað sú, að almenningsálitið var andstætt lögunum. Af öllum þessum sökum varð lögreglan máttlaus í eftirlitsstarfseminni. Æstir bannmenn ásökuðu lögreglustjóra og lögregluna almennt fyrir eftirlitsleysið. Þessi tvöfeldni dró enn meir en annars hefði orðið úr starfsemi lögreglunnar. Þá var gripið til þess ráðsins að herða mjög öll refsiákvæði laganna. Það var hið mesta Lokaráð, eins og á stóð, því þá urðu enn færri til að kæra yfir lögbrotunum. Þeir fáu, sem kært höfðu áður, skirrðust við að kæra samborgara sína, þegar sektirnar voru þyngdar og fangelsisvist lögð við að auki. Almenningsálitið varð enn andstæðara lögunum. Loks var reynt að senda út sérstaka löggæzlumenn, hina svonefndu „þefara“. Var því bráðlega hætt, því það jók enn meir á andúðina gegn lögunum.

Ég er fyrir löngu orðinn þess fullviss, að ekki verður með neinu móti haldið uppi bannlögum hér í landinu. Ekki einu sinni svo að dragi úr nautn þeirra vína — hinna brenndu drykkja —, sem enn er óheimilt að flytja inn í landið. Þegar jafnframt er vitað, að óleyfileg bruggun sterkra drykkja fer hraðvaxandi í landinu svo að segja daglega, þá er það hreint óráð fyrir þá, sem vilja hafa einhvern hemil á áfengisnautn þjóðarinnar, að halda lengur í bannlögin. Fram að árinu 1930 var áfengisneyzla mjög lítil í sveitunum, en á tveim síðustu árum hefir hún margfaldazt og sýnilegt, að með aukinni áfengisbruggun þar vex neyzlan og flóð heimabruggaðs áfengis steypist inn í kaupstaði og kauptún, og er fyrirsjáanleg hin hræðilegasta brennivínsöld í landinu, ef ekkert er að gert. Bruggun í sveitunum er óhugsandi að útrýma meðan bannlögin eru í gildi.

Nú munu andstæðingar frv. spyrja: Á hverju er sú skoðun byggð, að brugguninni verði fremur útrýmt án bannlaga en með þeim? — Mín skoðun er sú, að hugsunarháttur þjóðarinnar sé ennþá ekki svo spilltur, að með örfáum undantekningum muni menn hvorki flytja inn vín óleyfilega né heldur brugga það óleyfilega, þegar innflutningur er frjáls og ríkissjóðurinn, þ. e. þjóðarbúskapurinn, fær tekjur af víninu. Aðalviðkvæðið, þegar vínsmyglun hefir borið á góma, hefir verið: Þeir, sem smygla inn víni, skaða ekki ríkissjóðinn, því hann getur engar tekjur fengið af því áfengi, sem ekki er leyfður innflutningur á. Að þetta sé almennur hugsunarháttur og að smyglun og brugg mundi brátt hverfa, má m. a. marka á því, að aldrei mun hafa verið smyglað inn samskonar vínum sem þeim, er Áfengisverzlun ríkisins flytur inn og selur. Þó eru þessi vín seld svo þau verði, að fjárhagslega séð væri full ástæða til að óttast smyglun. Af þessu dreg ég þá ályktun, að menn sái almennt, að það er sviksemi við þjóðfélagið að skaða ríkissjóðinn um lögmæltar tekjur. Það er og víst, að almenningsálitið mundi fordæma þá menn, sem gerðu sér atvinnu að smyglun eða bruggun, þegar hagsmunir ríkissjóðsins, þ. e. almennings, væru annarsvegar.

Má vera, að fyrst í stað verði áfengislögin brotin, en almenningsálitið mun bráðlega hefta smyglun og bruggun, og þá fyrst og fremst af þeim ástæðum, sem ég þegar hefi drepið á.

Mér þykir líklegt, að þá er bannlögin verða afnumin, verði neyzla áfengis fyrst í stað meiri en nú. Það er reynsla annara þjóða. Hitt er líka víst, að það styðst einnig við reynslu annara þjóða, að bráðlega minnkar neyzlan og verður minni en þá er bannlög, sem alstaðar eru illa haldin, voru í gildi. Hinu mega menn ekki gleyma, að við stöndum nú á hættulegum tímamótum. Innlend áfengisbruggun er nýlega byrjuð og hefir aukizt ótrúlega fljótt, og það er fullvíst, að hún margfaldast á næstu árum. Það er af þeim orsökum sjáanlegt, að áfengisneyzla þjóðarinnar, og þá sérstaklega í sterkari drykkjum, hlýtur að aukast mjög mikið á allra næstu árum.

Hvaða ráð eru til þess að koma í veg fyrir flóð hins heimabruggaða áfengis? Við flm. álítum skynsamlega áfengislöggjöf einustu vörnina. Það hefir sýnt sig bæði hér á landi og annarsstaðar, þar sem vínbann hefir verið lögleitt, að bindindisstarfseminnar hefir lítt eða ekki gætt. Hér á landi höfum við fengið órækar sannanir fyrir þessu. Á árunum 1900 til 1909 hafði bindindisstarfsemin unnið ótrúlega mikið og gott starf, og þá ekki sízt með því að breyta hugsunarhætti þjóðarinnar. Áður fyrr var það talið sjálfsagt, að menn væru ölvaðir, jafnvel ósjálfbjarga á almanna færi. Árin 1905–1909 var það talin vansæmd að vera áberandi ölvaður á mannamótum.

Nú hefir aftur sótt í gamla horfið, einkum meðal ungu kynslóðarinnar. Þvingun sú, sem ávallt er samfara bannlögum, hefir vakið mótþróa. Fólkið er yfirleitt á móti allri þvingun, en þó sérstaklega þeirri, sem það finnur, að er ekki byggð á nauðsyn meðborgaranna. Sjálfræði er eitt af einkennum frelsisþrárinnar, og það má ekki skerða nema almenningshagur heimti. Flestum gengur illa að skilja, að það geti verið skaðlegt nágrannanum, hvers maður neytir í mat og drykk. Unga fólkið þolir þvingunina verst; þess sjást daglega merki í því máli, sem hér er rætt.

Vegna þess að búast má við nokkurri aukningu áfengisneyzlunnar fyrst um sinn eftir að bannlögin eru afnumin, þá er ástæða til að velja réttan tíma til að leysa höftin, og sá tími er einmitt nú yfirstandandi. Kaupgetan er óvenjulítil og því er minna um kaup á munaðarvöru en á þeim tímum, þegar fólk hefir mikið fé handa milli. Bæði af þessum ástæðum, svo og vegna heimabruggunarhættunnar, sem áður er lýst, er einmitt nú hinn rétti tími til breytinga.

Ég geng þess ekki dulinn, að við, sem flytjum þetta frv., verðum affluttir við landsfólkið. Æstir bannmenn munu reyna að eigna okkur aðrar og verri hvatir en þær, sem raða gerðum okkar í málinu. Hinsvegar býst ég við, að kjósendur reyni að mynda sér sjálfstæðar skoðanir á þessu máli ekki síður en öðrum og ræði það og íhugi yfirleitt æsingalaust. Hér er um alvarlegra viðfangsefni að fást en margur hyggur.

Við treystum því, að frelsið geri þjóðina færari um að halda áfengisnautninni innan skynsamlegra takmarka heldur en þvingunin — bannið — hefir megnað. Ég ætla ekki að þessu sinni að fara út í fjárhagshlið málsins, þó sú hliðin sé ekki einskisverð.

Þó svo verði, að hv. þd. vilji ekki samþ. þetta frv. án undangengins þjóðaratkvæðis, þá er flutningur þess nauðsynlegur. Þjóðin sér á frv., hvers hún má vænta í stað bannlaganna, a. m. k. af hálfu okkar flm.

Að endingu nokkur orð um sérstök ákvæði frv.

Það hefir þótt rétt að setja takmarkanir og hömlur á sölu og veitingar hinna sterkari drykkja, með því m. a. 1) að leyfa ekki veitingar eða sölu um borð í skipum. 2) að veita bæjarstjórnum og íbúum kauptúna ákvörðunarrétt um það, hvort útsala þessara vínfanga skuli þar leyfð eða ekki. Ég skal játa, að reynsla Norðmanna í þessu efni — local option — hefir ekki gefið góða raun. Hinsvegar virðist sú reynsla, sem við höfðum frá því 1890 til 1909, gefa ástæðu til að ætla, að þessar hömlur muni reynast sæmilega hér.

Refsingar eru víðast færðar niður frá því, sem verið hefir hin síðari árin, þó ekki að því er snertir ólöglegan innflutning til sölu og heldur ekki misnotkun lyfsala og lækna á áfengisútlátum. Það þykir sýnt, að hin óvenju ströngu refsiákvæði, sem sett hafa verið í bannlögunum, hafi ekki dregið úr brotum á þeim; þvert á móti gert eftirlitið örðugra. ástæður fyrir því hefi ég fært áður í ræðu minni.

Að öðru leyti finn ég ekki ástæðu til að ræða hin einstöku ákvæði frv. við þessa umr.

Það, sem ég hefi sagt í þessari stuttu framsöguræðu er fyrir minn eiginn reikning. Má vera, að einhverjir hv. meðflm. minna séu mér ekki sammála í einstökum atriðum.