22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í C-deild Alþingistíðinda. (11163)

284. mál, samvinnufélög

Flm. (Hannes Jónsson):

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þau vandræði, sem framleiðsla landsmanna á nú við að stríða, og þá sérstaklega bændanna. Bændur hafa orðið hart úti frá verðlækkun þeirri, sem varð á síðastl. ári, og er því von til þess, að þeir reyni að vinna sem mest að sinni eigin framleiðslu sjálfir og kaupa sem minnstan vinnukraft að. Undanfarin ár hefir hvað eftir annað slegið í deilur milli samvinnufélaga þessara bænda og félagsskapar verkamanna í kauptúnum og kaupstöðum. Verkamennirnir í kauptúnunum hafa viljað bola bændum frá því að vinna að sinni eigin framleiðslu, til þess að geta svo setið að henni sjálfir. Það má segja, að það sé eðlilegt, að verkamenn hafi allar klær í frammi til þess að fá vinnu, en þá er það ekki síður eðlilegt, þó að bændur vilji vinna sjálfir sem mest að framleiðslu sinni, fylgja henni eins langt og þeir geta, ekki sízt þegar eins árar og nú.

Kaupfélögin á Hvammstanga og Blönduósi hafa bæði lent í deilu við verkamenn út af þessu nú ekki fyrir löngu. Þær deilur hafa hvorugum aðila orðið til gagns eða ánægju, enda eru allar slíkar verkadeilur óeðlilegar og leiða af sér tjón fyrir báða aðila, hvernig sem samkomulagið verður.

Það er í fyllsta máta óeðlilegt á þessum stöðum, sem ég nefndi, að örfáir menn geti komið á vinnustöðvun, sem ef til vill meiri hluti verkamanna kærir sig ekkert um. Slíkar deilur virðast yfirleitt ekki vera sprottnar af þörf og ættu að hverfa úr sögunni. Þetta frv. á að styðja að því, að það geti orðið sem fyrst. Ég geri ráð fyrir því, að þeir hv. þm., sem þykjast vera fulltrúar verkamanna, muni rísa með heift mikilli á móti þessu litla frv., en þetta frv. er á engan hátt árás á þá menn, sem þessir háu herrar þykjast bera sérstaklega fyrir brjósti, heldur er það varnarráðstöfun fyrir bændur, sem sjálfir eru engir ójafnaðarmenn, gegn ásælni einstaka verkalýðsleiðtoga frá Reykjavík. Ég vildi mælast til þess, að umr. um þetta mál færu aðallega fram við 2. umr., því að málið er búið að dragast allt of lengi, og vonast því til þess, að hv. dm. greiði fyrir því til nefndar.