22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í C-deild Alþingistíðinda. (11173)

284. mál, samvinnufélög

Flm. (Hannes Jónsson):

Hv. þm. Seyðf. taldi það óskaplega afturför, ef nú ætti að hverfa að því ráði, að bændur gætu verið sjálfum sér nógir. Og til þess að svo verði ekki, vill hann koma á meiri verkaskiptingu um störf bænda en tíðkazt hefir hingað til. Hann vill koma á þeirri verkaskiptingu hjá bændum, að einn vinni þetta, en annar hitt. Hann vill láta bóndann binda heyið, en hann má ekki reiða það heim; til þess á hann að taka mann og annan, sem hlaða á úr heyinu. Bóndanum er máske leyfilegt að hirða sauðfe sitt eða hestana, en algerlega meinað að koma nálægt hirðingu kúnna. Til þess verður hann að taka annan mann. Og til þess að verkaskiptingin færist sem víðast út, má konan ekki mjólka kýrnar eða fara á engjar til að raka og hirða um hey. Þannig á verkaskiptingin að vera að dómi hv. þm. Seyðf., af því að það er heimska að láta sama mann vinna allt.

Það er nú svona samt, þar sem fólkið hefir orðið að leggja fyrir sig margháttuð störf, að undravert hefir þótt, hvað það getur afkastað. En einmitt þörf bænda að vinna mörg störf skapast af fátækt þeirra og getuleysi að taka daglaunamenn. Og þessi þörf er því meiri sem búskapurinn gengur verr og minna fæst fyrir afurðirnar. Það er enginn skilsmunur þar á milli, hvort bóndi, sem rekur fé sitt í kaupstað, og úr því að þangað er komið, vinni að sláturstörfum á sínu eigin fé eða skipi út afurðum þessum. En ef bóndanum er bægt frá að gera þetta, þá er hann beittur órétti með því að banna honum að vinna það, sem hann getur að rekstri búsins og afsetningu afurðanna. Og það er einmitt til að halda þessum rétti og vernda bændur, að frv. þetta er fram borið.

Úr því að hv. þm. minntist á sjávarútveginn, þá vil ég benda á út frá verkaskiptingu þeirri, er hann vill koma á, að menn, sem stunda veiðar á smábátum, verða, þegar þeir koma að landi, að afhenda verkamönnum fiskinn og borga fyrir að gera voru úr honum. Þeir mega hvorki slægja fiskinn sjálfir, fletja hann eða salta, og verður þá afleiðingin sú, að vegna þess að greiða hátt kaup fyrir verk, sem þeir gátu sjálfir unnið, verða þeir varla matvinnungar sjálfir og leggja árar í bát, í stað þess að hafa sæmilega afkomu, ef þeir fengju óáreittir að starfa að fiski sínum, þó róðrarnir yrðu eitthvað færri. (HV: Hvar er þetta, að menn geti ekki unnið að sínum eigin fiski?). Og þetta getur orðið hvar sem er, þegar farið er að útfæra verkaskiptingu hv. þm. Seyðf. (HV: Ég vil fá að vita, hvar þetta er). Ef hv. 3. þm. Reykv. er alvara að fræðast um þetta, þá skal ég fúslega verða við því að taka hann í tíma, en ekki hér í hv. deild.