22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í C-deild Alþingistíðinda. (11174)

284. mál, samvinnufélög

Haraldur Guðmundsson:

Út af óráðshjali hv. þm. V.-Húnv. hefi ég ekki margt að segja. Hann segir langar sögur hér, sem eru tómt bull og vitleysa. Hann segir, að ég hafi haldið fram, að banna ætti bændum að binda hey sitt, reiða það heim og hirða skepnur sínar. Ég hefi aldrei sagt neitt um þetta, eins og hv. þdm. hljóta að hafa heyrt, enda getur engum dottið slík fjarstæða í hug nema hv. þm. V.-Húnv. Sama er að segja um, að útgerðarmönnum sé bannað að hausa og slægja fiskinn. Það hlýtur að vera svo, að eitthvað sé farið að ruglast fyrir hv. þm. V.-Húnv., þegar hann getur ekki varið málstað sinn án þess að grípa til slíkra raka.