06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í C-deild Alþingistíðinda. (11176)

284. mál, samvinnufélög

Héðinn Valdimarsson:

Eins og hv. þdm. mun reka minni til, þá var það við 1. umr. um frv. til 1. um viðauka við samvinnulögin, að flm. þess frv., hv. þm. V.-Húnv., bar á mig sakir. Mér þykir óvíst, að ég fái annað betra tækifæri til að svara því, ef frv. sofnar og kemur ekki aftur á dagskrá, sem gera má ráð fyrir. Hv. þm. bar það á mig, að styrkur sá, sem verkamannafél. Dagsbrún sendi verkamannafél. á Blönduósi í vetur, kr. 200.00, hefði ekki verið greiddur í peningum, heldur með ávísun á vörur hjá kaupmanni á Blönduósi, í því skyni, að ég gæti fengið provision af upphæðinni og jafnframt greidda skuld, sem ég hefði átt hjá nefndum kaupmanni á Blönduósi. Ég lýsti hv. þm. þá lygara að þessu, og hæstv. forseti vítti mig fyrir. Ég vil nú sanna þessi ummæli mín um þm., og að forseti hafi engan rétt haft til að vita þetta réttnefni á þm. Þessi fjárupphæð var send í póstavísun, og vil ég leyfa mér að lesa hér upp kvittun frá pósthúsinu fyrir því:

„Sendandi Samrit.

Verkamannafél. Dagsbrún.

Póstkvittun.

Til Jóns Einarssonar, Blönduósi er hér í dag skilað til flutnings:

Sím.

Verð 100 kr.

Póstgjald borgað:

með álímdum frímerkjum 60 aur.

í peningum ............. 10 aur.

70 aur.

Pósthúsið á R. 10/2 1932.

Tr. M.“

Og hér er önnur samhljóða:

„Sendandi Samrit.

Verkamannafél. Dagsbrún.

Póstkvittun.

Til Verkalýðsfélags Blönduóss Blönduósi

er hér í dag skilað til flutnings:

Sím.

Verð 100 kr.

Póstgjald borgað:

með álímdum frímerkjum 60 aur.

í peningum ............. 10 aur.

70 aur.

Pósthúsið á R. 4/4 1932

Tr. Magnús.“

Ég þykist nú með þessum póstkvittunum hafa fært hér fram fullar sannanir fyrir því, sem ég áður sagði, að hv. þm. V.-Húnv. væri lygari. (Forseti hringir).