18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

1. mál, fjárlög 1933

Björn Kristjánsson:

ég ber fram brtt. á þskj. 440, og ætla að gera grein fyrir henni með fáeinum orðum.

Á þskj. 418 hafa 4 þm. í þessari hv. d. borið fram brtt. við fjárveitingu til vegar á Holtavörðuheiði, og vilja lækka þessa fjárveitingu niður í 20 þús. kr. Og á sama þskj. eru bornar fram aðrar till. um fjárveitingu til nýrra vega, sem svarar þessari lækkun. Það hefir verið deilt nokkuð um það á þessu Alþingi, hvort væri réttara að leggja áherzluna á það að tengja saman landsfjórðungana, eins og t. d. með Holtavörðuheiðarvegi, eða að leggja skyldi aðaláherzluna á vegi í byggðum landsins, t. d. frá kauptúnum upp í sveitir. Ég segi fyrir mig, að ég hallast eindregið að því, að meiri áherzla verði lögð á vegi í byggðum en fjallvegi. Þetta á sérstaklega við, þegar er svo erfitt í ári, að ekki er hægt að veita nema litið til vega yfirleitt.

Þörfin fyrir vegi er alstaðar mikil, en ekki mun hún sízt vera fyrir hendi á Austurlandi; þar eru heil sveitarfélög, sem ennþá hafa ekkert að segja af þeirri miklu samgöngubót, sem bílarnir eru, af því að vegina vantar. Get ég því fallizt á að færa til fjárveitingarnar, þannig, að Holtavörðuheiði verði lækkuð, en þeirri fjárhæð, sem við það sparast, verði varið til annara vega, þar sem þörfin er mest. Hinsvegar þykir mér of langt gengið í þessari tilfærslu með brtt. hv. þm., sem ég gat um í upphafi ræðu minnar. Brtt. mín er því á þá leið, að draga úr þessari lækkun, þannig, að í stað 20 þús. kr. komi 30 þús. kr. til Holtavörðuheiðarvegar. Þessi till. er miðuð við það álit vegamálastjóra, að hægt sé að leggja veg norður að Hæðarsteini fyrir 60 þús. kr. Nú er það ákvörðunin, að á þessu ári verði unnið þarna fyrir 30 þús. kr. Ef brtt. mín verður samþ., þá ætti því vegurinn að komast alla leið að Hæðarsteini á sumrinu 1933. Á þessari leið, sunnantil í heiðinni, færist vegurinn til, svo að hann kemur ekki að neinu gagni í sambandi við gamla veginn, fyrr en hann kemur aftur í hann við Hæðarstein. Verður því að teljast nauðsynlegt, að lagningu þessa kafla verði lokið á næstu tveimur sumrum, svo að ekki dragist lengur, að hann komi að notum. Er því of mikið lækkað tillagið, ef farið er niður í 20 þús. Geri ég því þessa till. um að hækka liðinn um 10 þús. kr., er eftir framansögðu ætti að nægja til að ljúka þessum vegarkafla á tilsettum tíma. Ég hefi svo hugsað mér að greiða atkv. um aðrar vegatill. með hliðsjón af þessari till.

Þá skal ég rétt minnast á styrkinn til gamalmennahælanna á Seyðisfirði og Ísafirði. Í frv. stj. voru 800 kr. ætlaðar til hvors þeirra. Kom fram ósk til fjvn. um að hækka þessa liði, en var ekki sinnt. En við 2 umr. var styrkurinn til gamalmennahælisins á Seyðisfirði hækkaður um 200 kr. En nú hefir það verið upplýst, að á gamalmennahælinu á Ísafirði eru fjórum sinnum fleiri gamalmenni. Fer þá að verða einkennilegt, að Seyðisfjörður fái hærri styrk. Höfum við hv. þm. Dal. því lagt það til í brtt., að nafnaskipti verði, þannig, að Ísafjörður fái hærri styrkinn. Er þetta að vísu lítil, en þó réttmæt viðurkenning til Ísafjarðar, eftir þeim upplýsingum, sem fyrir hendi eru.