19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í C-deild Alþingistíðinda. (11210)

689. mál, náttúrufriðun, friðun sögustaða o.fl.

Flm. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki tefja með langri inngangsræðu um þetta mál. Eins og öllum er kunnugt, sem kunnugir eru hér á landi, þá eru hér ýmsir staðir, sem skaði væri að raska og því þörf að vernda. Þar til má nefna ýmsa sögustaði, t. d. þar sem vorþing voru háð. Það gæti komið fyrir, að menn vildu t. d. reisa á þeim hús og spilla þeim þar með. Einnig eru til merkir staðir frá jarðfræðilegu sjónarmiði. Slík löggjöf, sem hér er farið fram á að setja, kvað vera til hjá flestum þjóðum, og er hún talin nauðsynleg, svo að hægt sé að grípa til hennar til verndar þessum frægu stöðum, ef á þarf að halda.

Það eru nokkur félög hér, sem gengizt hafa fyrir því að reyna að fá þessa löggjöf, og eftir óskum þeirra hefi ég flutt frv. þetta. Það er og samið af þeim, en ég hefi vikið nokkru við og fært til betra forms.

Þar sem frv. er borið svona seint fram, að það kemur ekki til umr. fyrr en síðustu daga þingsins, dettur mér ekki í hug, að það nái fram að ganga nú, en þar sem í því felst nýmæli, þótti mér rétt, að því yrði útbýtt nú, svo það kæmist í skjalapart þessa þings, svo menn yrðu kunnugri því þegar það kemur fram næst.

Vildi ég svo óska, að hv. þdm. vildu leyfa því að ganga til 2. umr., en til n. sé ég enga ástæðu að vísa því nú.