18.03.1932
Neðri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í C-deild Alþingistíðinda. (11215)

172. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Pétur Ottesen:

Það hefir nú margt fróðlegt komið fram í ræðum þeirra hv. þm., sem að þessu frv. standa. Það er auðsætt af öllu, að þeir hafa einkum haft í huga þá nauðsyn, er þeir telja, að á því sé að afnema áfengislöggjöfina, því að þeim hefir orðið miklu tíðræddara um hana en sitt eigið frv. Margt bendir til þess, að þeir hafi villzt um á frv. Ég hefi séð, að undanfarið hefir gengið á milli manna stór lagabálkur um afnám áfengislaganna, en fáa hefir þó enn sem komið er fyrst að gerast flm. Ég býst við, að það sé með tilliti til þessa, að þessir menn þykjast hafa tvöföldu hlutverki að gegna, að auka tekjur ríkissjóðs og afnema áfengislöggjöfina. Allt bendir í þá átt.

Hv. þm. N.-Ísf. þótti við andstæðingar frv. taka öðruvísi á móti þessari útréttu hönd en hann hafði búizt við. Dró hann af því þá ályktun, að við værum ánægðir með núv. ástand. Við höfum þó alls ekki farið út í þá sálma og ekki látið í ljós neina ánægju, enda gefur ástandið ekki tilefni til þess, en við viljum ekki rétta flm. frv. hendina til að gera ástandið verra en það er. Ég býst við, að þeim fari að verða aðstaða okkar skiljanleg eftir þessar upplýsingar og aðrar, sem fram hafa komið.

Hv. þm. N.-Ísf. var drjúgur yfir því, hve kunnugur hann væri því, hvernig menn höguðu drykkjuskap sínum í Englandi og Noregi og víðar, að þar drykkju menn stundum meira af öli og stundum meira af whisky. Ég efast nú um kunnugleika hv. þm. N.-Ísf. í þessum efnum. Til þess að vera vel kunnugur þessum málum þar hefði hann þurft að vera tíður gestur í kjöllurum og á knæpum í utanferðum sínum, en ég veit, að hv. þm. hefir haft alvarlegri störfum að gegna en svo, að hann hafi haft tíma afgangs til að heimsækja slíka staði. Annars hefir hv. þm. Ísaf. tekið af skarið í þessu efni með skýrslum sínum. Þær sýna, að öldrykkja leiðir af sér aukna vínnautn, svo að það er þveröfugt við það, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, að „stout“ — svo trúi ég, að hann kallaði það — hefði dregið úr whiskydrykkju í Englandi. Skýrslur hv. þm. Ísaf. sýna, að þetta er ekki til að státa af.

Hv. flm. þessa frv. hafa haldið því fram, að þeir, sem vildu drekka öl, gerðu það ekki til að verða drukknir, heldur til að gleðja sig, og því vilja þeir haga styrkleika ölsins þannig, að menn geti „glatt“ sig, þ. e. a. s. komizt undir þau áhrif, að þeir „finni á sér“. En nú er það sá sorglegi sannleikur, að þeir, sem byrja að drekka, byrja allir með þessu hugarfari, en lenda þó síðar að meira eða minna leyti í klóm ofdrykkjunnar og glata manngildi sínu og velfarnan. Hættan við frv. liggur einmitt í því, að fleiri byrji að drekka en áður með þessum skammgóða ásetningi, enda kom það glögglega í ljós í ræðu hv. þm. V.-Húnv., að hann gerði ráð fyrir, að öldrykkjan yrði mikil og almenn.

Hv. þm. N.- Ísf. talaði um árangurslausa bindindisstarfsemi. Þessi ummæli hans eru röng og ómakleg með öllu, þótt bindindisstarfsemin hafi ekki komið að fullu haldi, m. a. af því, að fjarveitingarvaldið hefir ávallt skorið styrk til hennar allt um of við neglur sér. Hv. þm. N.-Ísf. er einn af þeim, sem stuðlað hafa að því að draga úr þessum styrk, og má hann því sjálfum sér kenna um „árangursleysi“ bindindisstarfseminnar að nokkru leyti.

Þá sagði hv. þm. N.-Ísf., að hann hefði engar raddir heyrt, sem ekki hefðu látið fyllstu samúð í ljós með hinu svokallaða Borgarhneyksli. Ég hefi aftur á móti engar raddir heyrt, sem ekki hafa talið, að um argasta hneyksli væri þar að ræða, enda er um allt land litið á þetta hneykslismál með fyrirlitningu. Þetta er því gripið úr lausu lofti hjá hv. þm.

Hv. þm. N.-Ísf. var að brigzla mér og hæstv. forsrh. um, að við hefðum litla þekkingu á þessum málum. Það mun vera rétt, að við þekkjum lítið persónulega bragð og áhrif þessara vökva, en við vitum, að þeir renna ljúflega ofan í allt of mikinn hóp manna í þessu landi og höfum seð mörg og átakanleg dæmi þess, hver háski stafar af vínnautninni, og því viljum við hindra, að þær ráðstafanir séu gerðar, sem auka þennan voða. Hv. þm. sagði einnig, að bezt væri að búa að sínu. Ég hefi nú haldið þessu sama fram, þegar um hefir verið að ræða framleiðslu góðra hluta og nauðsynlegra, og það hefir verið mér sorgarefni, hve lítt hv. þm. N.-Ísf. hefir þá tekið undir með mér. En þessi skoðun mín nær ekki lengra en til góðra og gagnlegra hluta, því að ég er ekki sá bókstafsþræll, að ég vilji fara að stofna til eiturbyrlunar, þó að hún sé innlend.

Hv. þm. V.-Húnv. bar fram spurningu til hv. þm. Ísaf., sem ég veit, að hann er maður til að svara, og læt hana því afskiptalausa. En ég vil víkja að öðru atriði í ræðu hv. flm. Hann sagði, að einn af ráðh. hefði sagt það vel og drengilega, að það þyrfti að kenna þjóðinni að drekka. Þessi sami ráðh. sagði, að Íslendingar væru ekki samkvæmishæfir nema undir áhrifum víns. Fræðslan til að bæta úr þessu átti að vera fólgin í því, að menn lærðu að drekka vín eins og kaffi. Mér skildist á hv. þm., að tilgangurinn með frv. væri sá, „að kenna þjóðinni að drekka“, svo að þeir, sem ekki vilja eða geta veitt sér Spánarvín eða önnur sterkari, geti lært það á ölinu, þótt það kosti þá síðar að verða ofdrykkjunni að bráð. Ég þakka hv. þm. fyrir hreinskilnina, þótt hann að öðru leyti reyndi að fara kringum kjarna málsins eins og köttur kringum heitan soðpott.

Ég vil svo að lokum láta þá ósk í ljós, að hv. deild taki þeim tökum á þessu máli sem vera ber og er við hæfi þeirra tíma, sem yfir standa, að byggja út erfiðleikunum í staðinn fyrir að leiða þá inn.