18.03.1932
Neðri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í C-deild Alþingistíðinda. (11216)

172. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni yfir því, hve glöggt hefir komið fram í ræðum þeirra flm., hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. N.- Ísf., að þessi ráðstöfun myndi auka nautn áfengis í landinu, og þó einkum í skýrslu hv. þm. Ísaf., þar sem hann sýndi fram á, að öldrykkja hefir ávallt í för með sér aukna vínnautn, og vínnautn aukna nautn sterkari drykkja. Öldrykkjan er grundvöllurinn undir drykkjuskapnum, einkum hjá verkamannastéttinni og yngstu kynslóðinni, eins og hv. þm. Ísaf. sagði. Ég vil undirstrika það, að þetta er grundvallaratriðið í málinu.

Fyrst ég er staðinn upp, þá vildi ég víkja að tveimur atriðum í ræðu hv. þm. N.-Ísf. Hann lét svo um mælt um hv. þm. Borgf. og mig, að við værum svo ánægðir með ástandið eins og það er. Við höfum ekki sagt eitt einasta orð í þá átt. Við vildum sjálfsagt allir, að það væri betra en það er nú, en það, sem við viljum ekki, er, að ástandið verði verra en það er nú. Við erum sannfærðir um, að hér fari með öldrykkjuna eins og hv. þm. Ísaf. hefir sýnt fram á, að farið hefir annarsstaðar, að hún býður heim aukinni notkun annara tegunda áfengra drykkja. Það, sem um er að ræða fyrir okkur, er það, að við viljum ekki fá ástandið verra, en það erum við sannfærðir um, að af þessum ráðstofunum muni leiða.

Hv. þm. N.-Ísf. er oft að vitna í það, sem er í öðrum löndum, og það þá eftir sögusögn þessa og hins, allt ónafngreint. Ég vildi biðja hv. þdm. að bera svo saman, hvernig hv. þm. Ísaf, hefir birt opinberar tölur úr vísindaritum um þetta mál og það, sem hv. þm. N.-Ísf. segir. Það er merkara en að taka sögusagnir úr andbanningablöðum úti um heim. Í því sambandi vil ég koma inn á einstakt dæmi, af því að hv. þm. var að vitna í það, hvernig bannið hefði gefizt á Norðurlöndum, og þá sérstaklega í Finnlandi. Ég hefi það fyrir satt og hefi ekki ástæðu til að rengja það, að Finnar hafi afnumið bannið af svipuðum ástæðum og við Íslendingar á okkar tíma. Þá stóð okkur til boða að velja á milli vínsins og geipilegra tolla. En ég hefi fyrir satt, að Finnum hafi staðið til boða 100 millj. marka lán með sérstaklega góðum kjörum, ef þeir afnymdu bannið. Um þetta land, verður alltaf andstæðingum bannstefnunnar tíðrætt, hvað ástandið sé þar slæmt, og hv. þm. vitnaði líka í það. En ég vildi leyfa mér að spyrja hv. þm., hvað hann viti um það. Hefir hann komið til Finnlands? — Ég vildi enda orð mín með því að segja, að ég hefi komið þangað og verið þar um nokkurn tíma, an þess að sjá einn einasta mann undir áhrifum víns. Þykir mér um þetta sem annað sjón sögu ríkari.