04.04.1932
Efri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í C-deild Alþingistíðinda. (11247)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. af hálfu Sjálfstfl. (Jón Þorláksson):

Það er leiðinlegt að þurfa að segja, að hæstv. forsrh. fór ekki rétt með allt það, er hann skýrði frá um liðna atburði. Það má teljast lítilfjörlegt atriði, að hann sagði, að ég hefði verið formaður Íhaldsfl. árið 1930. Þetta er ekki rétt; Sjálfstæðisfl. er eldri en það. Verra var, að hæstv. forsrh. rangfærði kafla úr ræðu, sem ég hélt um skylt mál á þinginu 1930, og tók þó a. m. k. einu. sinni fram, að hann hefði orðrétt eftir mér, að höfðatölureglan ætti ekki að vera einráð. Ég held, að ég verði því að nota nokkrar þessara dýrmætu mínútna til þess að lesa upp það, sem ég sagði um þetta á þinginu 1930. Þá var til umr. till. til þál. um undirbúning breyt. á kjördæmaskipuninni, en ekki eins og nú frv. til l. um breyt. á stjskr., til þess að tryggja landsbúum fullkominn kjósendarétt, hvar sem er á landinu. Ég ætla þá, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp hluta af því, sem ég sagði 1930:

„En að því er snertir till. á þskj. 468, þá er hún ákaflega einstrengingslega orðuð. Það er allhörð krafa, þetta, að kjördæmaskipunin skuli tryggja kjósendunum jafnan rétt, hvar sem þeir búa.

Í raun og veru er ekki hægt að fullnægja þeirri kröfu nema með fyrstu aðferðinni, sem hv. flm. nefndi, að þm. séu allir kosnir á sama hátt og landsk. þm. nú, með hlutfallskosningum í einu lagi fyrir land allt. Það mun vera stefnuskráratriði Alþýðuflokksins. En það er alls ekki svo, að þetta, að allir kjósendur hafi jöfn áhrif á skipun Alþingis, sé eina atriðið, sem horfa þarf á í þessu máli. Við verðum líka vissulega að horfa á hitt atriðið, að fámennum, afskekktum landshlutum er líka nauðsynlegt að eiga á þingi fulltrúa, sem er kunnugur þeirra hagsmunum og staðháttum og getur beitt sér fyrir þeirra málum. Þetta er atriði, sem taka verður til greina, þegar kjördæmaskipunin er endurskoðuð, en þáltill. gengur alveg framhjá því“.

Ég get ekki séð neitt ósamræmi milli þessara ummæla og till. sjálfstæðismanna nú. Í þeim er ætlazt til þess, að kjördæmaskipuninni sé haldið óbreyttri, en mönnum tryggt flokkslegt jafnrétti við þingkosningar. Ég segi í þessari ræðu frá 1930, að það sé allhörð krafa, ef ætti að tryggja kjósendum jafnan rétt, hvar sem þeir búa á landinu. Og ég sagði í fyrstu ræðu minni í dag, að við sjálfstæðismenn hefðum ekki séð okkur fært að tryggja kjósendum fullkomið staðarlegt jafnrétti í till. okkar í ár, og er það í fyllsta samræmi við þessi ummæli mín frá 1930. Hæstv. forsrh. sagði í upphafi ræðu sinnar, að í þessu stjórnarskrárfrv., sem hér liggur fyrir, væri farið fram á ákveðna kjördæmaskipun, helzt þá, að landið allt yrði eitt kjördæmi. En sannleikurinn er sá, að kjördæmaskipuninni er alveg haldið utan við þetta frv.

Þá sagði hæstv. forsrh. ennfremur, að þetta stjskrfrv. feldi það í sér, að það eina, sem taka ætti tillit til, væri höfðatölureglan. Þetta er vægast sagt tilbúningur. Það segir sig sjálft, að þetta frv. þegir um öll þau mörgu atriði viðvíkjandi skipun þingsins og ætlast ekki til, að slíkt verði tekið upp í stjórnarskrána. Það er svo hjá okkur sem flestum öðrum þjóðum, að viðvíkjandi skipun þingsins eru aðeins örfá grundvallaratriði tekin upp í stjórnarskrána.

Hæstv. ráðh. hamraði stöðugt á því, að við sjálfstæðismenn vildum láta höfðatöluna eina öllu ráða. Till. okkar í kjördæmaskipunarmálinu sýna bezt, hvílík fjarstæða þetta er.

En enginn kemst framhjá þeirri reglu, hvaða tilhögun sem hann svo hugsar sér, að tala gildra, greiddra atkv. við kosningar hlýtur alltaf að ráða úrslitum, hversu ranglátt sem fyrirkomulag kosninganna kann að vera. En við förum ekki fram á annað með þessum till. okkar, að þegar atkv. eru talin, þá séu þau öll metin jafnhátt, þegar skorið skal úr því, hvað hver flokkur á að fá marga þm. — Ef hæstv. forsrh. þykir þetta einstrengingslegt og þykir það benda eitthvað um of á byltingastjórnarskrár, þá vil ég geta þess, að nærri því samskonar ákvæði er að finna í stjskr. Danmerkur. sem á þó enga byltingu að baki sér. Þar er mjög svipað ákvæði þessu um kosningarnar til þjóðþingsins, sem er hin eiginlega þjóðfulltrúasamkoma.

Þá held ég, að óþarfi sé að svara hæstv. forsrh. fleiri orðum, en vil minnast á það, sem mér finnst athugavert við till. Alþýðufl., þá, að gera allt landið að einu kjördæmi, og er það aðallega tvennt.

Í fyrsta lagi ber að gæta þess, að þótt sú tilhögun líti einfalt út á pappírnum, yrði hún mjög erfið í framkvæmd, ef haldið er við þá kröfu, að kjósendur þekki yfirleitt frambjóðendurna. — Í öðru lagi er þetta algerlega óreynt skipulag og hefir hvergi verið tekið upp, þótt hinsvegar margar þjóðir hafi lögleitt hlutfallskosningar.

Um till. Framsóknarfl., sem hér birtast í fyrsta skipti, er það að segja, að þar er landinu skipt í 2 kjördæmi. Öðrumegin er Rvík, með 8 þm., kosna með hlutfallskosningum, hinsvegar allt landið utan Rvíkur, með 32 þm., sem ekki má kjósa með hlutfallskosningum, og er það ákvæði vafalaust einsdæmi, hvað vítt sem væri leitað. Og svo má með lögum veita 5 uppbótarþingsæti í því kjördæmi, en þau má alltaf afnema með lögum, ef meiri hl. þingsins þykir þægilegra að hafa þau ekki. Annars álít ég ekki ástæðu til þess að ræða þessar till. meira nú, enda er grundvöllurinn, sem þær eru byggðar á, fjarstæða tóm.

Hæstv. forsrh. er tamt að bera okkar litla land saman við hið mikla Bretaveldi; í því sambandi læt ég þess getið, að ég álít, að við séum svo fámenn þjóð, þessar 100 þús. sálir, að við megum ekki við því að stofna til þess innanlands ófriðar, sem gæti komið af því að skipta landinu í tvo hluta og íbúar annars hlutans væru rétthærri, þegar um sameiginleg mál er að ræða. Við verðum að leggja allt kapp á að sameina sem flesta okkar krafta, og ég veit enga óbótamenn verri en þá, sem með blaðaskrifum og æsingafundum sá hatri og óvild milli sveita og kaupstaða. Kaupstaðirnir eru einmitt vaxnir upp af holdi sveitanna, og nú er komið svo, að sveitirnar geta ekki lifað án kaupstaðanna. — Í stjórnarskránni og í allri annari löggjöf er öllum jafnt gert að skyldu að leggja þrek sitt fram í þjónustu þjóðfélagsins. Þess vegna má ekki undir nokkrum kringumstæðum neita þegnunum um sjálfsögðustu réttindi þeirra. — Ég held, að ég þurfi ekki að taka fleira fram viðvíkjandi umr. Þær hafa að mestu snúizt um smáatriði, sem ekki liggja hér fyrir til atkvgr.

Um stjskr.frv., sem hér á að ræða um, er það að segja, að ég held, að allir geti samþ. 1. gr. þess, hvaða óskir sem þeir kunna að hafa um kjördæmaskipunina. Allir ættu að geta sætt sig við, að það mál yrði áfram hins almenna löggjafarvalds.

Það andaði heldur kalt í garð sjálfstæðismanna í ræðu hæstv. forsrh., og þó berum við einmitt fram till. um að vernda rétt kjördæmanna úti á landi. — Ég vona það, að þegar þessi hæstv. ráðh. er kominn í hóp sinna flokksbræðra og hættur að tala til kjósendanna á landinu, verði honum ljósari sú ábyrgð, er hvílir á flokki hans, heldur en nú virðist vera. Hann er hér fjölmennur á Alþingi, án þess að hafa meiri hl. þjóðarinnar á bak við sig, og á honum hvílir sú ábyrgð, að leysa úr þessu máli, sem hæstv. forsrh. hleypti meiri ófriðaröldu í en hér hefir þekkzt í mörg ár, með þingrofinu 14. apríl 1931. Ég sagði við hann á sumarþinginu, að ég vildi hafa vopnahlé við hann um þetta mál, þar til mþn. hefði haft það til athugunar. En ég vona, að bæði hann og flokkur hans sjái, að það er þeim fyrir beztu og þjóðinni sem heild, að þetta vopnahlé endi friðsamlega. — En það getur ekki orðið, ef á að skipta landinu í tvo flokka og skerða mannréttindi annars, en láta hins óskert.