19.02.1932
Neðri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

25. mál, opinber greinargerð starfsmanna ríkisins

Flm. (Jónas Þorbergsson):

Þetta litla frv. var borið fram í hv. Ed. á vetrarþinginu í fyrra og var þar afgr. af n. þeirri, er fékk það til meðferðar, með einróma meðmælum um það, að hv. d. samþ. Það með einni lítilsháttar brtt., sem n. gerði og mestmegnis var formlegs eðlis. Málið er í sjálfu sér einfalt, og ætla ég því ekki að þessu sinni að flytja um það langa ræðu, því að ég vona, að það mæti ekki mikilli mótspyrnu í hv. þd.

Eins og hv. þdm. er ljóst, er það viðtekin venja, að allmargir af embættis- og sýslunarmönnum ríkisins gera árlega skýrslur um starfsemi sína og þeirra ríkisstofnana, er þeir veita forstöðu. En þessi grg. nær venjulega ekki lengra en til stjórnarinnar eða þá hagstofunnar. En þessar grg. ættu ekki aðeins að vera um fjárskil, heldur einnig einskonar andleg skil til þjóðarinnar.

Þetta frv. fer fram á það, að gera þessa sjálfsögðu kvöð þessara manna viðtækari en áður, þannig, að færa hana inn á nýjan vettvang, til þess að þjóðinni verði færara en ella að fylgjast með í sínu eigin lífi og starfi atvinnuveganna. Það mun mega taka svo til orða, að fátt muni vera þjóðinni hugleiknara en eigin kjör sín, starf sitt og fyrirætlanir.

Í sambandi við slíka opinbera grg. í útvarpi mætti benda á líkur fyrir því, að trúnaðar- og starfsmenn ríkisins, sem ákvæði þessa frv. ná til, mundu vegna þeirrar kvaðar öðlast hvöt til meiri umhugsunar, meiri samvizkusemi og meiri hugkvæmni í starfi sínu, og að frv. þannig mætti verða til þess að setja nýjan svip á opinbera starfrækslu trúnaðarmanna þjóðarinnar.

Vil ég svo að lokum láta í ljós þá von, að hv. þd. taki þessu litla máli vel og að henni megi, eins og mér, sýnast, að frv. þetta hafi nokkra þýðingu fyrir þjóðina og ríkið. Óska ég svo, að frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til allshn.