04.04.1932
Efri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í C-deild Alþingistíðinda. (11252)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það ber þannig að, að mér er ætlað að hafa síðastur orðið í þessum útvarpsumræðum. Ég mun því ekki nota þessa sérstöku aðstöðu mína til þess að deila á hv. andstæðinga mína, af því þeir hafa ekki tækifæri til þess að svara mér í útvarpi. Ég vil aðeins í þessari ræðu minni gera tvær aths. út af þeim ummælum, sem farið hafa fram hér um málið. Önnur þeirra er til hv. 1. landsk. út af ummælum hans um gerðir framsóknarstj., hin er almenns eðlis og snertir sjálft aðalatriði þessa stjskrfrv., sem fulltrúar sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna hafa borið hér fram.

Hv. 1. landsk., sagði, að vegna þeirra tíðinda, sem gerzt hefðu á síðastl. ári, ættum við framsóknarmenn ekki skilið að hafa aðstöðu til að taka þær ákvarðanir í kjördæmamálinu, sem okkur sýndist, því það væri sýnt, að ekki væri eigandi undir því, hvað við kynnum að gera. En ég vil aðeins benda honum á, að aðalatriðið í okkar till. framsóknarmanna er það, að tekin verði upp í stjskr. einmitt þau ákvæði, sem mestu máli skipta til þess að tryggja það, að einn þingflokkur hafi ekki aðstöðu til að hringla fram og aftur með þessi þýðingarmiklu ákvæði um kjördæmaskipunina.

Þá vil ég minnast á hitt atriðið, sem er till. andstöðuflokka Framsóknar um rétt hinna pólitísku flokka í landinu til þingsæta, þ. e. að láta flokkana vera undirstöðu undir öllu í kosningunum. Ég vil benda honum á, hvað sá grundvöllur er merkilegur, með því að rifja upp aðstöðu hans, hv. 1. landsk. sjálfs, til hinna pólitísku flokka við 5 síðustu alþingiskosningar hér á landi. Árið 1919 fara fram kosningar og þá tilheyrir hann þáv. Heimastjórnarflokki, árið 1921 kemur hann fram í svonefndu sparnaðarbandalagi og nær kosningu hér í Reykjavík. Árið 1923 er þessi hv. þm. enn í kjöri, og þá fyrir svonefndan Borgaraflokk, árið 1927 er enn kosið, og þá er þessi hv. þm. orðinn formaður Íhaldsflokksins, er svo nefnir sig, og árið 1931 heyrir hann enn til nýjum flokki, er heitir Sjálfstæðisflokkur. Þetta er nú sá grundvöllur, sem hv. 1. landsk. vill byggja á fulltrúatöluna á Alþingi. Og það er ekki nóg að benda á það, að við hverjar einustu kosningar hefir hann boðið sig fram eða veitt fylgi nýjum flokki, hverjum eftir annan, heldur hefir alltaf komið fram ný og ný stefnuskrá fyrir hvern flokk. Það er því ekki heppilegt að taka aðeins til athugunar þetta eina atriði um hinn pólitíska rétt þingflokkanna og festa það í stjskr., heldur eru það ekki síður önnur og fleiri ákvæði, sem miklu máli skipta. Ég segi ekki eins og hv. þm. sagði á þinginu 1930, að það væri eina atriðið að tryggja héruðunum rétt til þess að eiga sérstaka fulltrúa á Alþingi, heldur eigi að koma ákvæðum um sem allra flest atriði þessa máls undir stjskr., svo að skapazt geti sem öruggastur grundvöllur í kjördæmamálinu.

Ég vil svo þakka öllum þeim mörgu áheyrendum úti um byggðir landsins, sem hlýtt hafa á mál mitt. Ég vil enda það með því að segja, að höfuðstefna okkar framsóknarmanna í kjördæmamálinu er sú, að tryggja rétt hinna dreifðu byggða landsins, tryggja þeim hæfilegan rétt á Alþingi Íslendinga. Ég lít svo á, að á undanförnum áratugum hafi þær allmjög orðið útundan hvað snertir afnotarétt af aflgjafa framkvæmdanna, veltufé þjóðarinnar. Peningastofnanirnar hafa undanfarið veitt fjármagninu einhliða til bæjanna, og þá einkum Reykjavíkur. Ég vil ekki draga óhæfilegt vald þangað, ég vil skapa jafnvægi milli landshlutanna. Ég vil ekki efla til ófriðar milli þeirra, heldur skapa jafnvægi. Ég leit á þá atburði, sem gerðust fyrir ári síðan hér á Alþingi, sem tilraun til að raska jafnvæginu á skipulagsmálum þjóðarinnar, og ég taldi það pólitíska og siðferðislega skyldu mína að vara þjóðina við, með því að rjúfa Alþingi. Ég gerði það ekki af pólitískum flokkshagsmunum, heldur til þess að þjóðin sjálf gæti skorið úr þessum málum. Ég get lýst því yfir, að mér liggur það tiltölulega í léttu rúmi, hvort þessi eða hinn stjórnmálaflokkur fær betri eða verri aðstöðu; aðalatriðið fyrir mér er það, að tryggja rétt fólksins úti um byggðir landsins, hvað sem flokkshagsmunum líður. Með tilliti til þess, sem hv. 1. landsk. sagði 1930, þykist ég hafa ástæðu til að vænta góðra úrslita á þessu máli. — Ég kveð svo alla heiðraða áheyrendur og óska, að þeim megi vel farnast og að okkur takist að leiða þetta þýðingarmikla mál til farsællegra lykta.