05.04.1932
Efri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í C-deild Alþingistíðinda. (11255)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Pétur Magnússon:

Hv. 2. þm. Árn. er eins og kunnugt er einn af þremur menntamönnum á Íslandi, sem að sögn á sínum tíma varðist öllum áhrifum frá Estrup. Þetta hefir nú nýlega verið sagt hv. 2. þm. til lofs og dýrðar, eins og það líka er, ef rétt er ályktað, því sjálfsagt hefir Estrup verið versti karl. (MT: Hann var nú ekki svo galinn). — En það eru ekki aðeins hinar „reaktionæru“ skoðanir Estrups, sem eigi hafa hrinið á hv. þm., því hann virðist hafa varizt öllum áhrifum frá þeim straumum, er mótað hafa stjórnskipulag flestra menningarlanda nútímans. Hann virðist alls ófróður um það, að frumkrafan, sem gerð er til stjórnskipunar allra ríkja, er byggja á lýðræðisgrundvelli, er sú, að meiri hluti borgaranna — eins og hann er á hverjum tíma — hafi ráðin í sínum höndum. Ef hv. þm. skildi þessa eðlilegu og sjálfsögðu kröfu, veit ég, að hann mundi ekki kunna við sig í flokki, sem fer með völd í landinu á eigin spýtur, þó að hann njóti ekki stuðnings meira en rúml. 3. hvers kjósanda í landinu. Í þessum efnum búum við við nær 60 ára gamalt skipulag og höfum því dregizt aftur úr nágrannaþjóðum okkar og flestum menningarþjóðum heimsins. Ég veit, að hv. þm. er svo vel að sér í veraldarsögunni, að hann veit vel, að þessi sama saga og hér er að gerast nú hefir áður gerzt í öllum lýðfrjálsum löndum. Það stjórnarfyrirkomulag, sem upphaflega var talið réttlátt, er eftir mismunandi langan tíma orðið ranglátt, og þeir, sem fyrir ranglætinu verða, krefjast breytinga og réttarbóta. Það kostar alstaðar baráttu að öðlast þær, og sumstaðar kostar það blóðsúthellingar, en alstaðar tekst það, og hv. þm. getur verið örugglega viss um, að þannig fer einnig hér. Ég fullyrði ekki, að það verði á þessu ári eða á næsta ári, en það verður áreiðanlega áður en þetta mál verður látið niður falla hér á Alþingi.

Hv. þm. byrjaði ræðu sína með því að segja, að sínar till. væru „fyllsta fylling réttlætisins“, en öll ræða hans gekk þó í gagnstæða átt; hann reyndi eftir megni að halda fram þeirri skoðun, að engar breyt. ætti að gera á kjördæmaskipuninni. En þó flytur hann till. um breytingar á henni! Ég skal geta þess, að þær brtt. eru litaðar af flokkshagsmunum, því þær gerðu sennilega enga röskun á flokkaskipun þingsins eins og nú standa sakir. En breytingar eru það engu að síður, sem gætu í framtíðinni haft áhrif. Hv. þm. stagaðist mikið á þeirri fjarstæðu, sem hann taldi vera að „láta höfðatöluna ráða“, eins og þeir hv. framsóknarflokksmenn orða það. Einn fyndinn fyrrv. flokksbróðir hv. þm. sagði við mig í gær, að það væri einkennileg sú ótrú, sem framsóknarmenn hefðu á höfðum kjósendanna. En þessi fyrirlitning á „höfðunum“ er alveg ástæðulaus. Við kosningar verður einmitt „höfðatalan“ að ráða. Réttlátur kosningarréttur og kosningatilhögun getur hvergi miðazt við annað en það, að hver borgari hafi jafnan rétt við annan til áhrifa á val þingfulltrúanna. Í flestum lýðræðislöndum er kosningatilhögunin þegar komin í þetta horf, eins og hv. 1. landsk. og fleiri hafa sýnt fram á, en þar, sem svo er ekki, stendur barátta yfir, sem allir vita, að endar með sigri rétts málstaðar. Það hefir verið vitnað í Englendinga í þessu máli og talin hjá þeim gilda fyrirmyndar kosningatilhögun, því þar eru þm. kosnir í einmenningskjördæmum. En ég er nú hræddur um, að Englendingar sjálfir séu þar ekki allir á sömu skoðun. Margir beztu menn þjóðarinnar berjast þar fyrir hlutfallskosningum, og sú barátta hefir staðið yfir í mörg ár. Ég hefi hér í höndum blað, sem út er gefið af félagsskap þeirra manna í Englandi, er berjast fyrir hlutfallskosningum, og eru þar á meðal ýmsir af kunnustu stjórnmálamönnum landsins úr öllum flokkum. Í blaði þessu er bent á ýms eftirtektarverð dæmi frá síðustu kosningum þar í landi. Það eru alkunn úrslit þeirra kosninga, hinn mikli sigur „konservativa“ flokksins á kostnað jafnaðarmanna, sem misstu svo hrapallega fulltrúa sína, að þeir höfðu ekki eftir nema 46 þingsæti af 288 áður. Til skýringar á þessari miklu breyt. á skipan parlamentisins enska er bent á nokkur dæmi úr kosningunum 1931, sem sýna, hversu ranglátt kosningafyrirkomulagið er í Englandi. Í kosningunum þar árið 1929 fengu jafnaðarmenn 288 þingsæti, en hefðu eftir hlutfalli að greiddri atkvæðatölu átt að fá aðeins 225 sæti, en í kosningunum 1931 fengu þeir aðeins ein 46 þingsæti, en hefðu átt að fá 168 sæti eftir hlutfalli greiddra atkvæða. Íhaldsflokkurinn fékk í kosningunum 1929 nokkru fleiri sæti en honum bar að fá eftir kjósendafjölda sínum, en í síðustu kosningum hlaut hann 493 sæti, en í hlutfalli við kjósendatölu hefði hann ekki átt að fá nema 368 sæti. Ég skal nefna tvö dæmi um kosningarnar í tveimur einstökum héruðum landsins, þar sem ósamræmið er þó ennþá meira: Í öðru héraðinu fengu íhaldsmenn 472642 atkv. og hlutu 16 þingsæti, en verkamenn fengu 354277 atkv., en aðeins 2 þingsæti. Í hinu héraðinu hlutu íhaldsmenn 17 þingsæti fyrir 511700 greidd atkv., en verkamenn hlutu ekkert þingsæti og fengu þó 205707 atkv. greidd í kosningunni.

Af þessum dæmum geta hv. þdm. séð, hversu öruggur grundvöllur fyrir réttlætið felst í kosningafyrirkomulaginu í Englandi. Ég get bent á það líka í þessu sambandi, að jafnaðarmenn misstu í þessum kosningum flesta forgöngumenn sína. Flokkur jafnaðarmanna í enska þinginu er því höfuðlaus her, sem ekki getur uppfyllt þær kröfur, sem gera verður til andstöðuflokks sérhverrar stj., ef vel á að vera.

Af þessu öllu má glöggt sjá, að þetta kosningafyrirkomulag, þó notað sé af hinni merkilegu en íhaldssömu þjóð, er stórum annmörkum bundið og því ekki nema eðlilegt, að þar í landi sé óánægja með það; og hún mjög sterk.

Hv. þm. talaði um það, að þjóðin hefði með síðustu kosningum skorið úr um þá atburði, sem gerðust hér á hv. Alþingi í fyrra, en hann tók þar ekki eitt atriði til greina. Hann minntist ekki á það, hvernig stjórnarflokkurinn vann sinn sigur. Hann nefndi það ekki, að flokkurinn vann þennan „kosningasigur“ með fylgi rúmlega eins þriðja hluta þjóðarinnar og með miklu færri atkvæðum en Sjálfstæðisfl. hlaut við kosningarnar. Sigur Framsóknarfl. var ekki meiri en þetta, sigur, sem vannst vegna úrelts kjördæmaskipulags, sigur, sem byggðist á ranglátri kjördæmatilhögun, en ekki á vilja þjóðarinnar.

Það þýðir ekki um það að deila hér, hvort okkar kæra þjóð hefir næmari réttlætistilfinningu en aðrar þjóðir, eins og hv. 2. þm. Árn. hélt fram, þó rétt sé það að vísu, að mikill meiri hl. þjóðarinnar hefir greitt réttlátum málstað atkv. við síðustu kosningar; en ýmislegt í stjórnmálasögu síðustu ára sýnir hinsvegar, að nokkur vafi getur á því leikið, hvort þessi þjóð er næmari í þessum efnum en aðrar þjóðir.

Ég get ekki látið vera að benda á það, að mér fannst tal hv. þm. um réttlætið koma eins og skollinn úr sauðarleggnum, því hann sagði einmitt, að það væri ekki mjög brýn ástæða til að byggja svo mjög á réttlætistilfinningum manna í þessu efni.

Þá talaði hv. þm. um það, að sú aðferð hefði verið notuð hér á landi að bæta þm. við þau kjördæmi, sem urðu illa sett. Þetta er að nokkru leyti rétt. Hinsvegar var það, að þegar kaupstaðirnir fengu sína þm., þá var litið á það aðeins sem bráðabirgðaráðstöfun. Það var gert ráð fyrir því, að kosningalögin yrðu þá bráðlega endurskoðuð, og tilraunir voru til þess gerðar á þingunum bæði 1905 og 1907, sem þó ekki báru árangur. Þessi lögsagnarumdæmi héldu svo fulltrúunum áfram og höfðu sum eðlilegan rétt til þeirra, en önnur ekki. Það var ekki til þess að bæta úr ranglæti, að kaupstaðirnir fengu þessa þingmenn; það hafði verið ákveðið í lögum að fjölga þm. um fjóra, og það þótti þá heppilegast eftir atvikum að láta kaupstaðina fá þá, en jafnframt var gengið út frá, að allri kjördæmaskipuninni yrði bráðlega breytt. Sú lagfæring, sem gerð var í þessum efnum árið 1921, þegar þm. Rvíkur var fjölgað úr 2 upp í 4, má teljast gerð til þess að nálgast réttlæti. Að öðru leyti minnist ég ekki, að gerð hafi verið nokkur önnur breyt. á kosningatilhöguninni í slíkum tilgangi síðan lögin voru sett árið 1877, nema ef telja á landskjörið. Sú lagfæring á þessum efnum, sem till. hv. framsóknarmanna fela í sér, er ekki í því falin að leiðrétta ósamræmið milli kjördæmanna, nema ef hv. þm. vili stefna í þá átt að gera breytingar á sjálfri kjördæmaskipuninni þannig að steypa saman kjördæmum og skipta svo aftur eftir fjölmenni, en ég hygg, að hv. þm. muni ekki vilja gerast talsmaður slíkrar stefnu.

Ég man nú ekki eftir því, að það kæmu nokkur rök fram í ræðu hv. þm., sem ég þarf að svara, en úr því ég stóð upp, þá kann ég ekki við annað en að drepa á þá skýringu, sem hv. þm. gaf um upphaf þeirrar deilu, sem nú stendur yfir um kjördæmamálið. Hv. þm. skýrði svo frá, að tveir flokkar þingsins, Sjálfstæðisfl. og Alþýðufl., hefðu ekki getað unnað Framsóknarfl. þess að vera við völd og því hafi þeir tekið höndum saman til þess að berjast fyrir þeirri breyt. í þessu efni, er gæfi þeim meirihlutavald í þinginu. Því var í gær lýst yfir af hv. 3. þm. Reykv. — og skoraði hann á hæstv. forsrh. að mótmæla því, ef rangt væri farið með —, að tildrögin hafi verið þau, að þegar Alþýðufl. á árinu 1930 hafi verið farinn að þreytast í sambúðinni við Framsóknarfl., þá hafi verið fyrir áramótin 1930–1931 hafizt handa um samninga milli Framsóknarfl. og Alþýðufl. um að gera breyt. á kjördæmaskipuninni, og þar hafi verið kosin n. úr báðum flokkum til þess að leita samninga. (MT: Var það ekki eftir landskjörið?). Jú, það var eftir það. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að hæstv. stj. hefði boðið að bæta við einum þm. fyrir Siglufjarðarkaupstað og öðrum fyrir Neskaupstað í Norðfirði, og að þessu hafi verið ákveðið lýst yfir. Ennfremur hefði skinið í það hjá hv. framsóknarmönnum, að bætt yrði ef til vill við einu þingsæti fyrir Suður-Þingeyjarsýslu, með því að gera hana að tvímenningskjördæmi, og ennfremur einum þm. bætt við í Reykjavík. Hv. 3. þm. Reykv. lýsti þessu yfir og forsrh. neitaði því ekki í gær. (JónJ: Því var margneitað í gær). Ég Held, að hv. framsóknarmönnum gangi hálfilla að neita því, að þetta hafi verið í ráðum, hvort sem það hefir verið með vitund og vilja allra flokksmanna eða ekki. Þeim þýðir heldur ekki að ætla að verja sig með því, að þarna hafi engin formleg tilboð verið gerð. Það skiptir litlu máli, ef það hefir komið skýrt fram, að flokkur stj. væri tilleiðanlegur til slíkra samninga.

En það eru ekki breytingar slíkar sem þessar, er Sjálfstæðisfl. vill fá á kjördæmaskipun landsins. Þessar breyt. voru eigi til þess ætlaðar að bæta úr ranglæti kjördæmaskipunarinnar, heldur áttu þær að styrkja aðstöðu tveggja ákveðinna stjórnmálaflokka. En þetta mál má sízt af öllu gera að flokkshagsmunamáli. Það verður að metast eingöngu með hagsmuni þjóðfélagsins fyrir augum. Og það höfum við sjálfstæðismenn viljað gera. Við viljum gera þær breyt., sem tryggja það, að enginn flokkur geti fengið meirihlutavald á Alþingi nema hann hafi líka meiri hl. þjóðarinnar að baki sér. Ég játa það, að Sjálfstæðisfl. hefði fyrr átt að koma auga á nauðsynina á þessum breytingum. Hann hefði átt að sjá það löngu fyrr, hver hætta gat af því stafað að láta núv. kosningafyrirkomulag haldast. En honum hefir farið eins og mörgum öðrum stjórnmálaflokkum víðsvegar um heim. Það er fyrst að gefnu tilefni, þegar reynslan hefir sýnt, hvað hlotizt getur af ríkjandi fyrirkomulagi, að menn koma auga á þörfina á breytingum.

Þetta hygg ég, að hv. 2. þm. Árn. viti vel, að er hin raunverulega ástæða til þess, að þetta mál varð einmitt nú að því dagskrármáli, sem það er orðið, enda þó hann vilji reyna að gefa því annan svip.

Hv. þm. var mikið að tala um byltingar og byltingaflokka í þessu sambandi. Mér er ekki vel ljóst, hvað hann á við með þessu tali, hvort hann kallar það byltingu, að tveir flokkar taka á stefnuskrá sína og berjast fyrir því, að borgarar landsins fái þau almennu mannréttindi óskert, sem hver maður á siðferðislega heimtingu á að fá. Hvort hann kallar það byltingu, að tveir flokkar reyna sameiginlega að berjast fyrir þessu máli á þinglegan og drengilegan hátt, án nokkurrar undirhyggju eða fals. Sé þetta bylting, verð ég að segja, að það fer ekki að verða mikið ámæli að heita byltingamaður. En ef leggja á þá merkingu í það orð, sem venjulegt hefir verið, þá er það aðeins einn flokkur, sem hægt er að segja um, að hafi reynt að gera byltingu í sambandi við þetta mál, og það er flokkur hv. þm. sjálfs. Hvort það hefir verið gert með hans ráði; veit ég ekki, en hitt veit hann, að framferði ríkisstj. 14. apríl í fyrra var ekki annað en bylting. Þegar stjórnarskrá landsins er brotin til þess að koma í veg fyrir, að máli sé hrundið fram á löglegar, hátt, þá er það bylting.