05.04.1932
Efri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í C-deild Alþingistíðinda. (11256)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Einar Árnason):

Ég hafði gert ráð fyrir, að það yrði að mestu látið sitja við þær umr., sem fram fóru hér í gær, áður en gengið væri til atkv., og hefði ég vel getað sætt mig við að láta vera að taka til máls við þessa 2. umr. málsins og tala um þær till., sem fyrir liggja, ef svo hefði þá getað orðið, að atkvgr. færi fram strax. Ég hafði ekki búizt við, að fram færu almennar umr. um málið í dag, því þingsköpin gera ráð fyrir, að við 2. umr. séu rædd einstök atriði málanna, en almennar umr. um þau fari fram við 1. og 3. umr. Þær umr., sem mest hefir borið á hér í dag, hefðu því vel getað beðið til 3. umr.

Ég ætla ekki að blanda mér inn í þessar almennu umr., sem fram hafa farið hér í gær og í dag um þetta mál. En vegna þessarar framhaldsumræðu sé ég mig þó til neyddan að gera nokkra grein fyrir till. minni hl. stjskrn., því það er fyrst og fremst verkefni þessa fundar að gera út um þær brtt., sem fyrir liggja.

Eins og nál. á þskj. 292 ber með sér, höfum við hv. 2. þm. S.-M. ekki getað orðið meðnm. okkar sammála um stjskrfrv. Ágreiningurinn liggur í því, að okkur getur ekki komið saman um ákvæði þau, sem felast í 1. gr. frv. Um aðrar gr. frv. er lítill eða enginn ágreiningur. Að við getum ekki fallizt á ákvæði 1. gr., er vegna þess, að okkur finnst það of einhliða og einskorðað, en þó um leið of óákveðið. Einhliða að því leyti, að eftir því virðist eiga að byggja skipun Alþingis einungis á höfðatölunni án tillits til nokkurs annars, en aftur á móti of óákveðið að því leyti, að eftir á, þegar þetta ákvæði er komið inn í stjskr., er hægt að skapa það kosningaskipulag sem hverjum þingmeirihluta sýnist á hverjum tíma með einföldum lögum, auk þess sem engin takmörk eru sett fyrir því, að tala þm. geti ekki orðið óhæfilega há. Til þess að festa þetta frekar og fyrirbyggja öll eftirkaup um þetta mál, höfum við í minni hl. n. borið fram brtt. í þremur stafl. við fyrstu gr. frv., og skal ég þá minnast á hvern staflið fyrir sig.

Í A-lið er það ákveðið, að það kjördæmaskipulag, sem nú er, skuli haldast, Ég held mér sé óhætt að segja, að það sé aðalkrafa fólksins úti um landið, að það geti haldið núv. rétti til íhlutunar um, hverjir verði í kjöri við kosningar til Alþingis, og að kjördæmaskipuninni verði ekki breytt nema sem minnst. Hitt mun ekki eins ákveðið, hvort ekki megi rýma eitthvað til á öðrum sviðum, ef þetta helzt. Þess vegna höfum við lagt til, að kjördæmaskipunin sé tekin upp í stjskr., til þess að það sé alveg víst, að eftir á sé ekki hægt að taka af fólkinu úti um landið þann rétt, sem það nú hefir og vill ekki missa.

Um B-lið er það að segja, að þar er gert ráð fyrir, að þm. Rvíkur sé fjölgað úr fjórum upp í átta. Það hafa legið fyrir áskoranir um að fjölga þm. Rvíkur, og ég fyrir mitt leyti álít, að þær kröfur hafi við nokkurn rétt að styðjast. Ég minnist þess, að þegar fram komu óskir um að fjölga þm. Rvíkur úr tveimur upp í fjóra, þá sá ég strax, að það var réttmæt krafa og lýsti þá yfir, að ég væri þeirri breyt. fylgjandi. Eins þykir mér rétt nú, þegar hreyft er við þessum málum á annað borð, að verða við þeim kröfum að fjölga enn þm. Rvíkur, svo að hún sé sæmilega sett samanborið við önnur kjördæmi landsins. Aftur á móti dreg ég enga dul á það, að ég tel engri ósanngirni beitt við Rvík, þótt hún hafi ekki fulltrúa fullkomlega í samræmi við önnur kjördæmi landsins, miðað við kjósendatölu, af því hún hefir að ýmsu leyti betri aðstöðu, til áhrifa á þingi heldur en aðrir landshlutar. Það hefir verið svo og mun verða, að mjög margir af þm. eru búsettir hér í Rvík, þó þeir séu fulltrúar fyrir kjördæmi úti á landi, og vegna þess að þingið situr hér hafa áhrifamenn bæjarins alltaf aðstöðu til að beita áhrifum sínum á þingið, sem ekki verður neitað, að eru nokkur.

Þá kem ég að C-lið brtt. okkar, og er það heimild um það, að bæta megi við fimm landsk. þm., og eiga það að vera uppbótarþingsæti handa þeim flokkum, sem harðast verða úti við kosningar og ná ekki þingmannatölu í samræmi við atkvæðamagn sitt, borið saman við aðra flokka. Að við köllum þessa þm. landsk., stafar af því, að þeir eiga að vera kosnir með samansöfnuðum atkv. um allt landið utan Rvíkur. Gert er ráð fyrir, að tekin séu í þessi þingsæti þeir frambjóðendur, sem flest atkv. hafa fengið án þess að komast að, innan þeirra flokka, sem eftir útreikningi eiga að hljóta uppbótarþm., og varamenn á að taka eftir sömu reglum.

Það stendur í brtt., að það megi bæta við allt að fimm landsk. þm., því við gerum ráð fyrir, að það geti vel staðið svo á, að ekki þurfi að nota svo mörg sæti til þess að fylla upp þann mismun, sem verða kann á þingmannatölu flokkanna í hlutfalli við atkvæðafjölda þeirra. Hinsvegar getur þessi mismunur orðið svo mikill, að fimm sæti nægi ekki til að jafna hann fyllilega. En mér hefir skilizt jafnvel á flm. stjskrfrv., að það gæti vel komið til mála og samrýmzt þeirra till. að takmarka tölu þingmanna, og þá skilst mér, að af því geti leitt, að ekki náist heldur fyllilega það samræmi milli þingmannatölu flokkanna, sem þeir ætlast til, að heimtað sé í stjskr. eftir orðalagi 1. gr. frv.

Það, sem við viljum reyna að ná með till. okkar, er fyrst og fremst það, að hinn forni réttur fólksins úti um landið verði ekki skertur, en að það sé hinsvegar bætt úr þeim misrétti, sem fram getur komið milli flokka við kosningar, a. m. k. að nokkuð miklu leyti, og í mörgum tilfellum alveg.

Við, sem erum í minni hl. stjskrn. leggjum þessar brtt. okkar fram sem samkomulagsgrundvöll hér í hv. d., og verður það að ráðast, hvernig með þær verður farið, En ég fyrir mitt leyti get sagt það, að hvernig sem um þær fer, mun ég ekki beita atkv. mínu til að koma í veg fyrir, að frv. fari til 3. umr., því ég vil ekki útiloka fyrr en í síðustu lög, að samkomulag geti tekizt. Ég geri ráð fyrir, að við 3. umr. geti hafizt umr. um málið aftur og þá komi e. t. v. til úrslitabaráttunnar.

Ég vil taka það fram, að ég teldi það mjög vel farið, ef samkomulag gæti náðst um þetta mál. En hinsvegar verð ég að segja það, að ef flm. frv. vilja ekkert þoka til, þá fer ég að verða vonlítill um það.