19.02.1932
Neðri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

25. mál, opinber greinargerð starfsmanna ríkisins

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér skilst á ræðu hv. flm., að það sé aðallega tvennt, sem ná á með þessu litla frv. Annað atriðið er það, sem hann lagði mikla áherzlu á, að með því að gera öllum embættismönnum ríkisins skylt að flytja á ári hverju 1–2 útvarpserindi um starf sitt, mundu opinber störf verða betur af hendi leyst en verið hefir. Ég skal náttúrlega ekkert um það fullyrða, að einhverjir starfsmenn ríkisins kunni ekki að vera þannig innrættir, að slík ákvæði hefðu áhrif á þá í starfi þeirra, þótt ég hinsvegar hafi litla trú á því, að svo sé. En ég vil í þessu sambandi benda alvarlega á það, að með þessum ákvæðum er allgreinilega gert upp á milli hinna ýmsu embættis- og starfsmanna ríkisins. Því er þannig farið með sum störf, að þau eru vel til þess fallin að gera um þau erindi fyrir alþýðu, svo sem störf vegamálastjóra, vitamálastjóra og fleiri þessháttar, og mér virtist einmitt, að hv. flm. hafa þau fyrir augum. En það er fjöldi annara starfa og embætta, sem ég veit ekki, hvernig ætti að gera að viðunandi útvarpsefni. Það er að vísu svo, að einstöku hugkvæmir menn geta samið erindi um allt mögulegt, svo sem reyk eða göturyk og þess háttar, en slíkt nær ekki tilgangi frv. Ég vil taka til dæmis starfsmann hér á pósthúsinu, eða margan kennarann, sem situr við sama skólann ár eftir ár og alltaf er skipað að taka við nýjum og nýjum nemendum, skipað að hamra í þá sama fróðleiknum ár eftir ár. Ég veit ekki, hvernig þessir menn eiga að fara að því að flytja um þessi störf sín tvö skemmtileg útvarpserindi á ári. Auk þessa getur því verið svo farið með marga ágætis starfsmenn, að þeir hafi litla hæfileika til þess að semja og flytja boðleg útvarpserindi. Maður gæti hugsað sér mann, sem væri kannske afbragðs læknir, en að honum væri það ekki gefið að flytja erindi, sem þjóðinni væri boðlegt. Og ég verð að segja það, að mér finnst það dálítið ósanngjarnt að krefjast þess af öllum starfsmönnum ríkisins, að þeir hafi slíka hæfileika. Það er ekki tilgangur minn að amast við þessu frv. vildi ég aðeins vekja athygli þeirrar n., sem væntanlega fær það til meðferðar, á því, hvort ekki væri ástæða til þess að gera einhverjar takmarkanir á þessum ákvæðum frv. og t. d. breyta skyldunni til þess að flytja 2 útvarpserindi á ári í heimild.

Hitt atriðið, sem vinna á með þessu frv., er að útvega útvarpinu dagskrárefni ókeypis. Það má náttúrlega um leið og mönnum eru veitt embætti og störf fyrir ríkið leggja þeim ýmsar kvaðir á herðar, en það er líka auðséð, að hér er um dálitla kvöð að ræða. Ég veit um það, að allmargir menn, sérstaklega hér í Rvík, auka tekjur sínar dálítið með því að flytja erindi fyrir útvarpið eða að semja ritgerðir í tímarit, og þeir eru vel að því komnir. Ég vil benda á það, að þegar á að skylda alla þessa menn til þess að flytja útvarpserindi, þá er það gefinn hlutur, að þessi erindi hljóta að verða mjög mismunandi útvarpsefni. Ég veit, að til eru einstöku efni, sem gætu verið mjög tilvalin, og einstöku menn, sem væru mjög vel hæfir til þess að inna þessa kvöð af hendi, en meiri hlutinn af þessu efni hlyti að verða alveg óþolandi. Ég skal að lokum taka það fram, að þessar tvær hugsanir, sem standa að baki frv., eru mér heldur geðfelldar, en ég vil hinsvegar benda væntanlegri n. á það, hvort ekki muni heppilegt að gera einhverjar takmarkanir á frv.