14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í C-deild Alþingistíðinda. (11267)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það var vel gert af hv. 2. landsk. að minnast á þetta merkilega afmæli, sem er í dag. Ég hafði líka hugsað mér að minnast stuttlega á það. Nú er liðið eitt ár síðan ung og saklaus alþýðustúlka hitti á torgi hér í bænum táldrægan íhaldsmann, sem heillaði hug hennar, og svo komu þau sér saman um það daginn fyrir 14. apríl í fyrra að búa saman um stundarsakir í ást og eindrægni. Svo mun almennt á litið, að íhaldsbiðillinn hafi lagt til flatsængina, sem þau svo tóku sér bólfestu í og hafa síðan notað til sinna þarfa þetta ár, sem síðan er liðið.

Þegar íhaldsbiðillinn hitti þá ungu og ánægjulegu alþýðustúlku, þá hefir hann notað mjög fögur orð. Hann hafði að vísu áður haft aðra skoðun á hlutunum. Hann hafði áður verið á móti því, að niðursetningar fengju kosningarrétt og sömuleiðis andvígur því, að unga fólkið fengi að kjósa, og yfirleitt á móti flestu, sem alþýðustúlkan taldi rétt vera. En um þetta leyti fyrir einu ári síðan lýsti biðillinn því yfir, að hann væri reiðubúinn til að ganga inn á allt, sem blómarósin sjálf áliti rétt og fagurt, m. a. að sveitarlimir gætu fengið kosningarrétt, en það hafði íhaldsmönnum þótt skemmileg tilhugsun áður. Ég ætla ekki að minnast á þetta ár að svo stöddu að því er snertir sambúð þessara tveggja heiðurspersóna, en nú fyrir 3 dögum hefir alþýðustúlkan birt í hlaði flokks síns endurminningar frá þessari sambúð, og þar var líkast því, sem táldregnar manneskjur geta sagt frá. Þar var því lýst með sterkum orðum, hvernig íhaldsmaðurinn hefði hegðað sér, hann hefði aldrei verið góður, heldur fullur ranglætis, pretta og brigðmælgi þennan tíma og hefði raunar verið alveg eins og ungu stúlkuna hafði alltaf órað fyrir, ekki orðið henni til annars en óláns og armæðu. Þetta var frá hendi ungu alþýðustúlkunnar einskonar uppsögn og uppgerð við þennan íhaldsbiðil sem hún hafði verið vinveitt þetta ár.

Nú skilst mér, ef okkur endist tími til að afgr. þetta merkilega mál út úr d. í dag, að það sé vel viðeigandi, að þetta mál sé afgr. á þennan hátt, eins og það nú sýnist horfa við, nefnil. þannig, að það sé augljóst, að íhaldið og sósíalistar séu komnir í hár hver á öðrum og búnir að uppgötva, að engin brú er á milli þeirra, heldur allt svik og prettir þeirra á milli með þar til heyrandi orðbragði, sem sjá má í Morgunblaðinu og Alþýðublaðinu, ef menn vilja leggja það á sig að lesa þau.

Þetta eru merkilegir hlutir. Nú virðast aðstandendur báðumegin hafa gert sér grein fyrir því, að nú er að draga að einskonar hjúaskildaga, og að nú sé í þann veginn verið að flytja sig burt af þeirri flatsæng, sem skapaðist í fyrra út af þeim atburðum, sem gerðust í fyrravor.

Ég tel, að hv. 2. landsk. hafi gert það, sem rétt var og sjálfsagt, að minnast á þetta ársafmæli, og þykir mér þá rétt að minnast á það um leið, hvernig þetta mál stendur nú. Hv. 2. landsk., sem talaði hér síðast, vék nokkuð að því, hvílíkt voðaverk það hefði verið af forsrh. að rjúfa þingið í fyrra. Ég hygg, eftir því sem lesa má í Alþýðublaðinu, að þetta hafi borið árangur, því að þar er því ýtarlega lýst, hve mikill frelsisandi hafi komið yfir íhaldið eftir þetta, að römmustu Danasleikjurnar hefðu orðið eldheitir lýðveldismenn og hefðu sett lýðveldismerki í hnappagöt sín. Þeir hafa nú að vísu stungið þeim merkjum í vasann aftur, því að þau áttu aldrei að vera annað en kosninganúmer. Ég vil nú nota tækifærið til að spyrja hv. 1. landsk., hvort rétt sé sagt frá í Alþýðublaðinu, að flokkur hans hafi tekið upp þetta merki og borið það í hnappagatinu, eða hvort það hafi vakað fyrir þeim svipað og fyrir Írum, sem ætla nú að neita Englandskonungi um hollustueiðinn. Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann hafi ætlað sér að rjúfa eiðinn við konung eða hvort hann hafi ætlað að komast hjá því með því að fá konung hingað heim og taka hann af Dönum.

Ég vil ekki neita því, að það hefði máske hæft betur þessum frelsishetjum að flytja konung hingað heim, enda benda gögn til þess, að það hafi verið tilgangurinn, en þá sé ég ekki, hvernig sjálfstæðið hefði átt að nota þennan mann, nema að hann hefði átt að vera forseti lýðveldisins.

Ég veit, að hv. 2. landsk. sér það, að þetta gagn hefir hlotizt af þingrofinu. Það varð til þess, að eindregnustu innlimunarmennirnir urðu allt í einu að frelsishetjum. Það varð nú reyndar ekki nema um stundarsakir, því að innlimunarandinn kom von bráðar yfir þá aftur.

Hv. 2. landsk. segir, að það hafi verið sérstaklega óheppilegt fyrir þjóðfélagið, að þingið var rofið, því að vegna þess hafi ekki verið hægt að afgr. merkileg atvinnubótamál, t. d. Sogsmálið. Út af þessu vil ég segja það, að hér hefir að líkindum aldrei verið annað eins hneykslismál, sem hefir verið sótt af jafnmiklu ofurkappi eins og þetta Sogsvirkjunarmál í fyrra. Íhaldsmenn og sósíalistar héldu því þá fram, að frá þessari Sogsrafstöð ætti að leiða rafmagnið vestur í Stykkishólm og Ólafsvík og vestur á Sand, út í Vestmannaeyjar, suður í Grindavík, Keflavík, Garð og Sandgerði. Og samhliða þessu játuðu forgangsmenn málsins það, að í Reykjavík, þar sem langmest yrði notað af rafmagninu og þangað sem langódýrast er að leiða það, þar yrði rafmagnið of dýrt til að hita hús með því.

Þetta er nú samt ekki nema partur af því, sem þessir hv. þm. höfðu fram að bera í þessu prýðilega máli. Nú hefir flokksbróðir hv. 2. landsk., Sigurður Jónasson, upplýst — sem reyndar var vitað löngu áður —, að allur undirbúningur sjálfs málsins var svo fráleitur sem mest mátti verða. Sigurður Jónasson hefir látið gera rannsókn í þessu máli, og var hún framkvæmd af heimsfrægu þýzku rafmagnsfirma, og kom þá í ljós, að allur sá undirbúningur þessa máls, sem hv. 1. landsk. hafði byggt á, var tóm vitleysa. Samkv. þessari rannsókn lítur út fyrir, að hægt sé að fá þetta rafmagn með helmingi minni tilkostnaði en hv. 1. landsk. gerði ráð fyrir í sambandi við Sogsvirkjunina, aðeins að taka það á öðrum stað, svo að í staðinn fyrir 8 millj. kr. má hér tala um 4 millj., bara ef skynsamlega er farið að. Þetta sýnir, á hvaða stigi íslenzk verkfræði og íslenzk pólitík stendur; sérstaklega verður það áberandi, þegar þessi lélega verkfræði og lélega pólitík sameinast hjá hv. l. landsk. og lendir svo í einni flatsæng með sósíalistum. (JónÞ: En ef léleg heilsa bætist þar við). Já, ég veit, að hv. 1. landsk. hefir lélega heilsu, enda játaði hann vestur í Barðastrandarsýslu vorið 1931, að hann væri undir læknishendi hjá geðveikralækni. En ég veit ekki, hvort þessi staðreynd afsakar vitleysur hans í Sogsmálinu. En hv. þm. hefir hér sjálfur opinberað sinn innri mann. Tölurnar tala. Hv. 1. og 2. landsk. er kunnugt um það, að mesta axarskaftið, sem þekkist, jafnvel í allri sorgarsögu ísl. verkfræði, átti að smíða í fyrra í þessu Sogsmáli. Það er alveg víst, að hvenær sem verður snúið sér að því að virkja Sogið fyrir Reykjavík og Hafnarfjörð, þá verður aldrei litið við þeim grundvelli, sem þeir vildu byggja á í fyrra, vegna hins gífurlega þekkingarleysis, sem lýsir sér þar í öllum undirbúningi þess máls. Það er þess vegna merkilegt, að hv. 2. landsk. skuli minnast á þetta mál nú, því að einmitt í allri málsmeðferð þessa frv. sýndi það sig, hversu frámunalega grunnhugsaðar þeirra till. og aðgerðir voru, eins og kom líka fram í þeirri „revolution“, sem þeir ætluðu að gera í fyrra. þegar frelsi og framtíð þessara flokka í sameiningu átti að vera komið undir því, að einn utanflokkamaður bjargaði þeim úr þeim vandræðum, sem þeir höfðu komið sér í, og mun það rétt vera, að íhaldið hafi beðið hann að gera þetta nú fyrir sig til þess að forða sér frá ennþá meira hneyksli. Ég held þess vegna, að hv. 2. landsk. geti aldrei fært það fram, að þingrofið hafi verið óheppilegt fyrir Sogsmálið. Það hefir orðið nokkurra millj. kr. sparnaður fyrir Reykjavík, að horfið var frá því vanhugsaða ráði, sem þeir hv. 1. og 2. landsk. höfðu gert þar um.

Að því leyti, sem hv. þm. minntist á stjórnarskrármálið og að þingrofið hefði verið óheppilegt fyrir það mál, þá er honum kunnugt, að þar hefir orðið allt annar endir á en hann bjóst við. Þeir gerðu ráð fyrir því, að þeir gætu myndað stjórn þá strax og gætu samþ. stjskrbreyt., sem gerði það mögulegt að gerbreyta kjördæmaskipuninni. Þetta játaði líka hv. 1. landsk. á fundi vestur í Ólafsvík, þar sem einnig voru staddir fulltrúar frá Alþýðufl. Hann sagði þar, að Alþýðufl. hefði haldið því fram sem sinni aðaltill., að landið yrði eitt kjördæmi, en því hefði íhaldið ekki viljað ganga að, heldur viljað hafa landið 6–7 kjördæmi, og að því hefði Alþýðufl. gengið, og um þetta hefði samstarfið staðið. Það er því ein brigðmælgi íhaldsbiðilsins, ef hann vill nú ekki styðja varatill. hv. 2. landsk., að landið verði 6 kjördæmi, því að um það varð samkomulagið og samstarfið í fyrra.

Þá eru það ein rök, sem hv. 2. landsk. og hans bandamenn hafa haldið fram, en eru með öllu röng. Hann segir, að allir þeir kjósendur, sem hafa gefið íhaldinu eða sósíalistum atkv. sitt, hafi þar með samþ., að landið yrði 6 kjördæmi, eða þá eitt kjördæmi. M. ö. o., að þessi 65% kjósenda, sem kusu íhalds- og jafnaðarmenn, hafi viljað gerbylta kjördæmaskipuninni. Úr þessu verður vitanlega ekki skorið nema með alþjóðaratkvæði. Það er alveg fullvíst, að mikill fjöldi manna víðsvegar um land kaus íhaldsmenn af því að þeir reyndu að breiða yfir afstöðu sína til þessa máls. Þeir afneituðu þessari gerbyltingu, sem hv. 1. og 2. landsk. játuðu vestur í Ólafsvík, að þeir hefðu ætlað að koma á. Þannig blekktu íhaldsmenn og sósíalistar kjósendur sína. Vegna þessa máls fóru menn úr báðum þessum flokkum yfir í Framsóknarfl., en þeir, sem eftir voru, trúðu því ekki, að þessi vélræði væru í spilinu. Ég get sagt hv. 2. landsk. dæmi um þetta. Merkur íhaldsbóndi austur í Mýrdal sagði nú fyrir kosningarnar: „Ég trúi því ekki, að það sé meining minna flokksmanna að steypa Vestur-Skaftafellssýslu saman við öll hin kjördæmin á Suðurlandi og láta allt vera eitt kjördæmi. Ég kýs Gísla Sveinsson, því að ég veit, að hann gengur ekki að þessu. En verði Gísli kosinn, og ef hann fylgir þessum breytingum á kjördæmaskipuninni, þá verð ég á móti honum við næstu kosningar, því að ég vil ekki þessa kjördæmaskipun“. Þetta er sannleikurinn í málinu. Mikill fjöldi sósíalista og íhaldsmanna er algerlega á móti því, að landið sé gert að einu kjördæmi eða skipt niður í fáein stór kjördæmi.

Nú hefir hv. 1. landsk. borið fram brtt., sem hv. 2. landsk. hefir notað sem átyllu til að losna úr flatsænginni. Hún er sem kunnugt er á þá leið, að þingmannatala skuli vera takmörkuð og ekki fara fram úr 50. Hinsvegar hafði komið ljóst fram í mþn., að það, sem hv. 1. landsk. lagði ríka áherzlu á, var ótakmörkuð tala uppbótarsæta, og þá taldi hann það fjarstæðu eina, er framsóknarmenn fóru fram á, að talan yrði takmörkuð. Svo kemur það fyrir í vetur, að íhaldsmenn halda hér flokksþing, að vísu fámennt, en þó svo skipað, að vilji flokksmanna úti um landið gat komið í ljós. Á þessu þingi var því slegið föstu, að flokkurinn kærði sig ekki um nokkur hundruð þingmenn. eins og hv. 1. landsk., heldur var þar gerð sú samþykkt, að tala þm. skyldi ekki fara fram úr 50. Þetta var vitanlega ákaflega óþægilegt fyrir hv. 1. landsk. En svo var að honum þjarmað, bæði utan þings og innan, að nú hefir hann neyðzt til að eta hina fyrri skoðun sína ofan í sig. (JakM: Hæstv. ráðh. veit ekki nokkurn skapaðan hlut, hvað hann er að segja). Hv. l. þm. Reykv. er nú svo nýr í Íhaldsflokknum, að hann ætti ekki að vera að koma með skýringar til afsökunar hv. 1. landsk., enda er kunnugt, að þeir hafa til skamms tíma haft alveg réttar skoðanir á gagnkvæmu manngildi þeirra. Sú staðreynd liggur fyrir, að hv. 1. landsk. hefir verið látinn ganga undir jarðarmen og sleppa sinni einu skoðun í kjördæmamálinu. Þetta sýnir ljósast, hvílíka óbeit flokksfólk hans úti um land hefir á byltingarbrölti hans.

Ég leyfi mér að telja sannað, að samanlögð atkv.tala íhaldsmanna og sósíalista í vor sanni ekkert um afstöðu þjóðarinnar í kjördæmamálinu. Í fyrsta lagi voru kjósendur leyndir því, sem þá vakti fyrir forsprökkunum, að landið ætti að verða eitt kjördæmi, eða 6 stór, og gömlu kjördæmin að hverfa úr sögunni, og í öðru lagi töluðu báðir flokkarnir talsverðu fylgi til Framsóknar frá því, sem áður hafði verið, og þá einkum vegna afstöðunnar til kjördæmamálsins.

Ég býst við, að hv. 2. landsk. hafi séð, að þingrofið og kjördæmamálið hafi haft eftirminnileg áhrif á Íhaldið. Tilætlun hv. 1. landsk. var, að kosningar færu fram í vor, á þann hátt að gömlu kjördæmin væru lögð niður, en landið allt gert að einu kjördæmi eða 6 stórum. (JakM: Þetta er ósatt). Hv. 1. þm. Reykv. hefir skilyrðislaust gefizt upp fyrir íhaldinu, gengið því á hönd og lofað að gera þess vilja í öllu, gegn því að hann fengi að eiga sæti á þingi. Vitnisburður hans um þjóðmál verður að metast eftir þessari staðreynd. Íhaldsmenn treysta því kannske, að borgarar úr Ólafsvík séu ekki hér viðstaddir, en þeir kunna að geta borið vitni síðar. Ef þingið hefði ekki verið rofið, hefði kjördæmabreyt. verið samþ. í fyrra og því næst á haustþinginu og kosningar átt að fara fram með hinu nýja fyrirkomulagi í vor. En eftir kosningarnar sér hv. l. landsk., að ekki muni vera vænlegt til vinsælda að leggja gömlu kjördæmin niður, því að hann hafði séð, hve tæpt íhaldið stóð í Snæfellsnessýslu, Skagafjarðarsýslu og víðar. Því kemur hann með þá till. úr mþn., að gömlu kjördæmin skuli haldast. Þar gekk hann undir sitt fyrsta jarðarmen. Þá átti að taka annan þm. af tvímenningskjördæmunum, og má vel vera, að hv. 1. landsk. eigi eftir að skera upp góða ávexti af þeirri till. síðar í tvímenningskjördæmunum. En til þess að gera tilveru gömlu kjördæmanna gagnslausa heimtar hann ótakmarkaða uppbót. Það hefir verið reiknað út, að við kosninguna á Seyðisfirði hefði Alþýðufl. getað fengið 60 þingsæti. Auðvitað hefðu gömlu kjördæmin einskis mátt sín með slíkri útþynningu. En fólk kærir sig ekki um 400 þm., og því hefir hv. 1. landsk. verið látinn ganga undir annað jarðarmen sitt af flokksþinginu og ýmsum öðrum, svo sem hv. 2. þm. Skagf., sem langar ekki til að koma með þann boðskap norður í Skagafjörð, að gömlu kjördæmin skuli þurrkuð út. Því ber hv. 1. landsk. nú fram brtt., að þingsæti skuli ekki fara fram úr 50. Það er hæsta tala, sem hans flokksmenn þora að bjóða landsfólkinu, og eru áhrif gömlu kjördæmanna þó stórum útþynnt á þennan hátt.

Mér finnst, að þetta yfirlit eigi vel við á ársafmæli þingrofsins og byltingarinnar og ekki síður vegna þess, að einmitt þennan sama dag virðast hjónaleysin í flatsænginni ætla að fara að skilja samvistir eftir 12 mánaða ástúðlegt tilhugalíf.