14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í C-deild Alþingistíðinda. (11268)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Torfason:

Ég heyri að menn eru komnir í hátíðaskap út af afmæli þingrofsins og þeirra atburða, er því fylgdu. Ég mun þó lítinn þátt taka í þeim afmælisfagnaði. Ég hét kjósendum mínum því í vetur, að ég skyldi ekki verða til að auka deilur á þinginu, og það mun ég reyna að efna. Ég myndi því ekki hafa staðið upp nú, ef ég hefði ekki borið fram brtt. Hygg ég þó, að hún sé svo greinileg og skýr, að ég þurfi ekki að fara um hana mörgum orðum. Hún er einkum komin fram vegna þess, að ég heyrði, að hv. 1. landsk. vildi láta líta svo út við síðustu umr., að ég væri fallinn frá núv. kjördæmaskipun. Ég vildi sýna, að svo er ekki, eins og ég tók fram í gær. Till. mín kom fram til þess að meiri sveitalykt gæti verið af málinu en ella. En mér datt ekki í hug, að Nd. samþykkti frv. þannig lagað án þess að bæta það eða fylla. Ég vildi hafa till. mína eins voðfellda og unnt væri, í þeim tilgangi að vita, hvort ekki væri hægt að skilja á milli sjálfstæðis- og jafnaðarmanna í málinu. En það hafa orðið mér full vonbrigði. Hv. 1. landsk. vildi ekki fyrir nokkurn mun láta á sjást, að hnífur gengi á milli sín og hv. 2. landsk. Ræða hans gekk í þá átt, að hann væri alveg á skoðun hv. 2. landsk. og vildi ekki hænufet þaðan víkja, og að síðustu hnykkti hann á með því að leggja ríka áherzlu á, að Reykjavík ætti að hafa fulla þingmannatölu eftir höfðatölu kjósenda. Í þeim brennipunkti mætast þessir tveir flokkar. Og það virðist útiloka að öllu vonir um samkomulag milli framsóknar- og sjálfstæðismanna um þetta mál, að hv. 1. landsk. gekk jafnvel enn harðar fram en 2. landsk. í því að verja þennan ímyndaða rétt Reykjavíkur. Hann kom jafnvel með hótanir um það, að gera Reykjavík að sérstöku ríki. Það má nú til sanns vegar færa, að Reykjavík sé sérstakt ríki að nokkru leyti nú þegar, þar sem hún er eina kjördæmið á landinu, sem hefir hlutfallskosningar. Önnur kjördæmi eru aðeins undir sömu lögum hvað landskjörið snertir. En hótun hv. 1. landsk. gekk í þá átt, að Reykjavík segði sig úr öllum lögum við landið. (JónÞ: Vorum við þá ekki báðir með hótanir?). Nei, það var nú eitthvað annað en að nokkrar hótanir fælust í ræðu minni.

Það virtist koma fram í ræðu hv. 1. landsk., að farið hefði verið með svo mikinn róg og níð um Reykjavík, að hún gæti ekki verið í lögum við aðra landsmenn. Ég veit nú ekki, hvort þessi skilnaður Reykjavíkur við aðra landshluta á líka að ná til viðskiptanna, en það vil ég minna hv. 1. landsk. á, að eins og nú er ástatt, býr Reykjavík á öllu landinu, en margir landshlutar geta komizt af án nokkurra viðskipta við Reykjavík. Hvað viðskiptin snertir virðist því ekki vera ástæða fyrir Reykjavík til að einangra sig. Og því má bæta við, að flest fríðindi, sem hið opinbera leggur til, falla í skaut Reykjavíkur, án þess að mér detti í hug að öfunda hana af því. Ég vil ennfremur neita því, að gerðar séu tilraunir til þess að koma af stað úlfúð og hatri milli Reykjavíkur og annara landshluta. Ég held þvert á móti, að sú úlfúð, sem þar var á milli fyrir 10–15 árum, sé stórum að réna og að menn séu farnir að skilja, að samvinna milli Reykjavíkur og landsins geti orðið báðum til góðs. En hitt er vorkunn, þótt landslýðurinn vilji ekki leggja sig undir ofurvald Reykjavíkur. Ríkið er sem halastjarna, þar sem Reykjavík er hnötturinn, en hinn hlutinn halinn. En halinn fer smáminnkandi, af því að hnötturinn dregur hann að sér. Þetta er náttúrulögmál, eins og sagan og staðreyndir sýna.

Mig furðar stórum á því, þegar hv. 1. landsk. fór að beita sér á móti sveitunum að óþörfu og sparka í þær, og sú spurning vaknaði hjá mér, hvort það væri í raun og veru hugsun hans að vilja með öllu forláta sveitakarlana. Mér heyrðist hv. 1. landsk. hreint og beint segja þeim stríð á hendur. En ég sá, að honum hljóp kapp í kinn, og býst því við, að hann hafi ekki meint allt, sem hann sagði í augnabliksgeðshræringu. En ef svo væri, væri gott að fá það staðfest.

Ég mun svo geta látið útrætt um þetta mál í dag. En mér dettur í hug að lokum eigi óskrítin setning eftir þýzka heimspekinginn Nietzsche í bók eftir hann, sem allir lýðir lesa. Hún er þannig: Ég trúi ekki á þann guð, sem ekki kann að dansa. Ég er ókunnugur því, hvort hv. 1. landsk. kann að dansa. En ég sé ekki betur en að hann hafi síðasta árið verið að þreyta línudans, sem er miklu erfiðari en venjulegur dans, með Alþýðuflokknum — en ekki tekizt. Og ég held, að honum takist það aldrei, því hugsunarháttur hans og skapgerð er þannig, að hann er ekki fær um að stíga slíkan dans. Ég segi þetta ekki honum til niðrunar, því að ég viðurkenni, að ýmislegt í hugsunarhætti hans og skoðunum er gott, þótt hann, vegna skaps síns, geti ekki látið það koma eins ljóst fram og æskilegt væri, og helzt því oft verr á málum sínum en ég veit, að hann vildi sjálfur vera játa.