19.02.1932
Neðri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

25. mál, opinber greinargerð starfsmanna ríkisins

Flm. (Jónas Þorbergsson):

ég get í raun og veru verið hv. 4. þm. Reykv. þakklátur fyrir undirtektir hans í þessu máli. Hann er samþykkur meginhugsun frv. En út af heim aths., sem hann gerði við frv., vil ég benda honun á, að ég hefi litið svo á, að í 2. gr. frv. feldust einmitt þær takmarkanir, sem hann er að tala um, að þyrfti að gera á frv. Ég get verið hv. þm. algerlega sammála um það, að ýmislegt mælir á móti því, að allir menn, sem starfa fyrir ríkið, færu að flytja árlega 1–2 erindi um störf sín í útvarpið, enda er slíkt ekki tilætlun frv. þess vegna er í 2. gr. frv. gert ráð fyrir því, að útvarpsráðið skuli velja þau erindi, sem flutt yrðu, og er því vitanlega lögð sú skylda á herðar að velja aðeins úr það, sem er frambærilegt. Er slíkt nú þegar einn liður í starfi útvarpsráðsins. Útvarpsráðið hefir aðgang að þessum erindum og mundi vitanlega ráðfæra sig við þá, er þau flyttu, og lesa yfir erindin.

Hvort þetta fyrirkomulag er frá formlegu sjónarmiði rétt, er annað mál, en það er atriði, sem liggur fyrir væntanlegri n. að athuga. Hún hefir aðstöðu til þess að færa hugsun frv. til betra forms, ef henni þykir við þurfa. En þó talað sé um almenna skyldu embættis- og sýslunarmanna í þessu efni, þá skilst það í sambandi við 2. gr. frv., að skyldan kemur aðeins til framkvæmda þar, sem útvarpsráðið ákveður í þeirri skrá, sem því er ætlað að semja yfir erindin árlega.

Sú kvöð, sem með þessu er lögð á menn, er ekki mikil, þar sem efnið takmarkast jafnan við starfssvið hvers eins. Því mætti álíta, að starfsmönnunum yrði það létt verk að semja þessi erindi, og það verður að álita það ljúft verk að lofa þjóðinni að heyra um störf þau, sem fyrir hana eru unnin, og þær stofnanir, er hún rekur. Og þess vegna er langt frá því, að of langt sé gengið í þá átt að gera kröfur til þegnskapar manna.