14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í C-deild Alþingistíðinda. (11270)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson:

Ég ætlaði nú ekki að tala mikið meira í þessu máli en ég gerði í gær, en kemst þó ekki hjá því að svara nokkru því, sem vikið hefir verið að mér bæði í gær og í dag.

Hv. 1. landsk. taldi, að það, að ég hefði orðið fyrir vonbrigðum út af starfi mþn. í þessu máli, væri að kenna hæstv. forsrh. og Framsóknarfl. Þessu á ég ákaflega bágt með að trúa, vegna þess að af þeim mönnum, sem fást við stjórnmál, þekki ég hann langbezt, og ég þekki engan mann, sem er samningaþýðari, liprari og yfirleitt drengilegri í samvinnu en einmitt hæstv. forsrh.

Þá sagði hv. þm., að af hendi Sjálfstæðisfl. hefði verið fullnægt öllum kröfum Framsóknarfl. um kjördæmaskiptinguna. Mér er ljúft að játa það, að sjálfstæðismenn hafa gengið langt í þessu, enda þótt þeir hafi gengið það mikið á rétt kjördæmanna að taka af tvímenningskjördæmunum annan þm. En mér finnst, eftir því sem komið hefir fram, að Framsóknarfl. hafi líka gengið mikið í þá áttina að fullnægja kröftun, a. m. k. hv. l. landsk., a. m. k. þeim kröfum, sem hann hefir gert á síðasta vetrarþingi. Því að á síðasta þingi, í umr. um stjskrbreyt., minntist hv. 1. landsk. á fyrirkomulag kjördæmanna og segir að lokum:

„Ég sé því enga aðra leið færa til að bæta úr því misrétti, sem nú er á kjördæmaskipuninni, en þá, að leggja niður landskjörið og bæta kaupstöðunum upp með þeim sætum, er losna“.

Þetta segir hv. þm. á síðasta þingi. Já, mér er sama, hvað hv. þm. hristir höfuðið; þetta stendur svart á hvítu í Alþt., í ræðu eftir hann, þegar rætt var um stjskrbreyt. (JónÞ: Ekki á síðasta þingi).

Á síðasta vetrarþingi. (JónÞ: Það var ekki síðasta þing. — Forseti: Ekki samtal). Jæja, ég bið þá afsökunar á því mismæli, hafi ég ekki sagt síðasta vetrarþingi. Á þetta virðist mér Framsóknarfl. hafa fallizt, eftir því sem stendur á bls. 9 í þessu virðulega nál. sjálfstæðismanna, sem þeir létu fylgja stjskrfrv.; þar stendur, að á 26. fundi n. hafi „fulltrúar Framsóknarfl. borið fram svofellda tillögu:

„Landskjörið verði lagt niður. Þingmannatala Reykjavíkur verði 7–8. Gullbringu- og Kjósarsýsla og Suður-Þingeyjarsýsla verði tvímenningskjördæmi (eða t. d. G.-K. verði skipt í tvö kjördæmi). Siglufjörður verði sérstakt kjördæmi“. M. ö. o., eins og hv. 1. landsk. lagði til á síðasta vetrarþingi, að landskjörið sé lagt niður og þeim sætum, sem þannig losna, varið til þess að jafna mismuninn milli flokkanna. Mér skilst því, eftir þessu og því, sem hv. þm. hefir sagt frá, að þeir hafi báðir slakað nokkuð til; hann gengið í áttina til Framsóknarfl. með því að leggja til að halda einmenningskjördæmunum, og hæstv. forsrh. gengið í áttina til Sjálfstæðisfl. með því að leggja til það, sem ég nú las upp. Og þegar svona er mjótt á milli, skil ég ekkert í þeirri ógæfu, sem er yfir þessari blessaðri þjóð okkar, að þessir menn skuli ekki hafa getað orðið sammála um eða leyst málið á þann hátt, að öll þjóðin gæti vel við unað. Og ég held, að það sé ekki rétt að kenna hæstv. forsrh. um það, fremur en hv. 1. landsk. Ég trúi því ekki.

Hv. þm. tók undir það, sem ég sagði í gær, að nú væru mjög greinilegir alvörufimar í okkar landi og að þjóðin stæði nú gagnvart meiri erfiðleikum en nokkru sinni fyrr um okkar daga, og mér skildist hann í raun og veru ganga inn á það með mér, að það væri nauðsynlegt, að landsmálaflokkarnir legðu nú deilurnar til hliðar og beindu heldur bökum saman til sameiginlegra átaka fyrir heill fósturjarðarinnar. En hann færði fram þær málsbætur — og það er náttúrlega alltaf hægt að koma með einhverjar málsbætur —, að þessi leið væri alveg lokuð vegna þingrofsins í fyrra — hún hefði alveg lokazt þá. Ég skil nú ekki þessa röksemdaleiðslu. En látum nú svo vera, sem ég nú reyndar vil ekki fallast á. en segjum það í bili, að hann hafi rétt fyrir sér, þegar hann vill telja, að þingrofið hafi ekki verið réttmætt gagnvart sínum flokki og að þjóðinni hafi verið misboðið með því. Þá get ég þó ekki séð, að þó einhver flokkur hafi gert eitthvað slíkt af ófullnægjandi ástæðum, að það losi annan flokk við að haga svo starfi sínu, að það stofni ekki þjóðfélaginu í beinan háska. Og hv. þm. hefir ekki borið á móti því, að þarfir þjóðarinnar eru nú þær, að hana vanhagar um samstarf allra flokka til að ráð bót á yfirstandandi og yfirvofandi vandræðum og slíkum málum sem þessu á því að slá á frest, en ekki að vera að varpa nú fyrir þjóðina viðkvæmum deilumálum. Mér dettur auðvitað ekki í hug, að hann fari að falla frá sínum kröfum, úr því það er sannfæring hans, að þær séu réttar. En hvað bíður síns tíma. Og mér finnst það sannarlega vera skylda að draga ekki slík mál sem þetta inn í deilur fyrr en eitthvað rofaði til eða upp stytti í því ástandi, sem nú gengur yfir þjóðina.

Og ég vil í því sambandi, að hv. 1. landsk. var að halda því fram, að það væri ekki réttmætt að kalla alla þjóðina — og átti hann þar við sinn flokk — til að gera skyldu sína, nema þeirra kröfum væri fullnægt, segja það, að ég álít, að allir séu skyldir til að vinna þjóðinni allt það gagn, sem þeir mega, og alveg jafnt fyrir því, þó einhverjum hugsanlegum réttlætiskröfum þeirra sé ekki fullnægt á þeim tíma. Og að hv. þm. hefir látið slíka skoðun uppi sem þá, er ég gat um, vil ég skoða sem vott þess, að hv. þm. sé búinn að hugsa sig upp í æsing í þessu máli og að það sé orðið honum að „principi“, sem allt eigi að lúta, jafnvel sjálf þjóðfélagsvelferðin. Mér þykir þetta mjög leitt og vona, að hv. þm. átti sig á, að þetta er ekki rétt, því að öðru leyti met ég hann mjög mikils á ýmsum sviðum.

Annað er það, sem mér þótti mjög leiðinlegt að heyra hv. þm. vera að ympra á, og það var það, að þetta kotungsríki okkar, þetta veslings fátæka og fámenna land ætti nú að fara að skipta sér upp í tvö ríki. Mér finnst það alveg óskaplegt, að maður í svo ábyrgðarmikilli stöðu sem hann er í þar sem hann er flokksforingi í stórum flokki, skuli hafa látið þetta út úr sér, því það spor væri stigið beint til glötunar. Af því mundu báðir aðilar hafa eintóma mæðu og böl. Á í því sambandi vel við að minna á orð, sem töluð voru á Alþ. Íslendinga af einum okkar vitrasta manni fyrir 900 árum, þar sem svo var komizt að orði: „Þykir mér það ráð, að við játum eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo máli, að hvorir hafi nokkuð til síns máls og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun og satt verða, er við slítum sundur lögin, að vér munum og slíta friðinn“. Þjóðin skildi þá þessi djúpvitru orð, sem töluð voru á alvörutímum. Og ég hygg, að það eigi enn við, að „ef við slítum sundur lögin“, ef landið á að skiptast í fleiri ríki, „að vér munum og slíta friðinn“. Ég hygg, að hitt sé enn ráð, að við játum þá eigi ráða, er mest vilja í gegn gangast, heldur miðlum svo málum, að hvorir hafi nokkuð, þó enginn fái sínum kröfum framgengt til fullnaðar.

Þá kem ég að hv. 2. landsk. Hann hélt hér geysilanga ræðu í dag, og man ég fæst af því nú orðið, sem hann sagði. Hann spurði um það, til hvers mþn. hefði verið sett, hvort það hefði ekki verið til þess að leysa málið. Ég get svarað því frá mínum bæjardyrum, að minn tilgangur með að samþ. n. var sá, að hún ætti að leysa málið. Og ég efast ekki um, að allir hafi samþ. hana með þeim hug. Hann sagði það sama og hv. 1. landsk., að það væri hæstv. forsrh. og flokki hans að kenna, að hún hefði ekki leyst málið. En eins og ég hefi áður sagt, þykir mér þetta mjög ósennilegt og held, að okkur verði ekki um það kennt, heldur sé það að kenna bráðlæti andstæðinga okkar, sem hafi heimtað þetta hrist af, þannig, að n. hafi ekki unnizt tími til að hugsa málið svo til þrautar, að hún gæti fundið þá lausn á málinu, sem öll þjóðin gæti vel við unað.

Þá var hv. þm. hissa á því, að ég skyldi undrast kappið, sem lagt væri á þetta mál, þar sem ég væri hverjum manni kappsamari í málum. Já, en það var nú ekki annað en það, sem ég hafði lagt þetta ógnar kapp á, að ég hafði haldið nokkuð fast á því máli, að kjördagurinn yrði færður á þann tíma ársins, að sveifa fólkinu yrði gert mögulegt að nota kosningarrétt sinn, en það var alltaf undir hælinn lagt áður, að það gæti það. Um hitt, að ég hafi lagzt á móti því, að kaupstaðirnir fengju annan kjördag, er það að segja, að brtt. um það kom fram á síðustu stundu, undir þinglausnir, svo að aðalástæðan fyrir því, að ég sá mér ekki fært að vera með henni, var ekki sú, að ég væri á móti því máli, heldur hin, að með því að samþ. hana var málinu stefnt í þá hættu, að það næði ekki fram að ganga vegna þess, að ekki hefði unnizt tími til að afgr. það. En hv. þm. hefir nú ekki haft meiri áhuga fyrir því máli en það, að hann hefir ekki borið við að bera það fram síðan. Ég held þó, að ég hafi látið orð falla um það, þegar þessi brtt. kom fram, að við gættun talað um það mál á næsta þingi, þegar engu væri stefnt í hættu með því. Það er því ólíku saman að jafna, kappinu, sem ég lagði á það mál, eða kappinu, sem nú er lagt á þetta mál. Eins og allir geta séð, stafaði enginn háski af því fyrir þjóðfélagið, þó kjördagurinn væri fluttur. Og í því efni hefir einmitt sérstaklega verið hlynnt að þeirri stétt, sem hv. þm. telur sig fulltrúa fyrir, sjómönnunum, sem geta kosið um borð í sínu skipi. En hér eru látin falla orð um að drepa öll tekjuaukalög, og jafnvel fjárl. og annað þess háttar, svo það sé fyrirmunað að reka ríkið forsvaranlega. Þetta er svo miklu meira kapp, að það er ekki hikað við að gera þá hluti, sem beinlínis leiða til ófarnaðar fyrir land og lýð, en ekkert slíkt átti sér stað, þó kjördagurinn væri færður. Það er því ólíku saman að jafna.

Þá var hv. þm. eitthvað að minnast á ársafmæli þingrofsins. Hæstv. dómsmrh. hefir nú svarað því; ég skal því leiða það hjá mér. Þá var hann að benda á stjskrtill., sem varð þess valdandi, að þingrofið varð, og sagði, að hún hefði verið meinlausari en það, sem við værum búnir að samþ. nú. En hún var nú ekki meinlausari en það, að hefði hún verið samþ., þá var þar leikur á borði að leggja niður öll gömlu kjördæmin, ef framsóknarmenn hefðu komizt í minni hl. við kosningarnar. Það var nú ekki betur tryggður réttur héraðanna en þetta. Og það var því ekkert gerræði, sem gert var til að sporna við þessu. Og við framsóknarmenn munum ekki, eins og við höfum lýst yfir, samþykkja neitt stjskrfrv. nema réttur gömlu kjördæmanna sé þar tryggður, og þess vegna fluttum við brtt. um það að taka héraðakjördæmin upp í stjskr., og þá væru þau heldur betur tryggð en nú er.

Hv. þm. sagði, að það hefði þó unnizt á, að þetta mál yrði aldrei framar kosningamál. (JBald: Ekki á sama hátt og í fyrra). Já, það er nú svo. En ég býst nú við, að það mundi nú ekki spilla fyrir Framsóknarfl., ef till. hv. 2. landsk. yrðu samþ. Ég býst við, að dalakarlarnir mundu þá ekki telja á sig sporin á kjörfund til þess, ef verða mætti, að spyrna ofurlítið fótum við því, að kjördæmin þeirra yrðu látin hverfa úr sögunni. Ég skal ekki fullyrða neitt um, hvernig þá færi, en ekki er það víst, að hann sé úr allri hættu af því máli, ef hann ætlar að fara að brúka sig svoleiðis.

Hv. andstæðingar eru alltaf að tala um að við viljum, að réttur Reykjavíkur sé minni en réttur annara héraða, og hv. 2. landsk. var líka að tala um, að hún borgaði svo ógnar mikið til opinberra þarfa. Já, þeir eru nú alltaf að tala um þetta, að Reykjavík borgi svo og svo mikið í ríkissjóðinn, og ég skal ekki neita því, að það er náttúrlega mikið. En ég verð þó að halda því fram, að það sé alls ekki gert upp, hvað Reykvíkingar borga mikið til ríkisins þarfa. Því það er víst, að töluvert mikið af því, sem þeir telja sig borga í ríkissjóð, greiða þeir þangað ekki, vegna þess að töluvert mikill hluti af því er greiddur af vörum, sem fara út um allt land, og vegna opinberrar starfrækslu í bænum. Hversu miklu það nemur, er ekki gott að segja; það er hlutur, sem alls ekki er búið að gera upp, en það er víst, að það, sem Reykvíkingar greiða til ríkisþarfa, er miklu minna en þessir hv. þm. vilja nú láta á bera.

Þá var hann að víkja að því, að það væri skylda mín að fylgja þessu máli, til þess að tryggja öllum landsmönnum jafnan rétt til áhrifa á þingið. Ég sagði, að ég vildi stuðla að því að jafna áhrifarétt fólks á þingið. En að þetta frv. geri það á sæmilegan hátt, því vil ég eindregið mótmæla, því þar kemur fleira til greina en höfðatalan ein, og því er það, eins og ég benti á í gær, að ég álít Reykjavík hafa of mikinn rétt, ef hún hefir sömu fulltrúatölu í hlutfalli við kjósendatölu og fámennu héruðin. En ég vil leggja því lið, að málið verði til áframhaldandi meðferðar í þinginu, ef það mætti verða til þess, að það leystist. Og ég vil vona, að það takist, jafnvel á þessu þingi, og því greiði ég því atkv., að málið fari til Nd. Ég treysti því, að hún lifi frekar en við höfum gert eftir ráðleggingum Þorgeirs Ljósvetningagoða.

Get ég svo látið máli mínu lokið að þessu sinni.