14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í C-deild Alþingistíðinda. (11272)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Torfason:

Ég get ekki hrósað hv. 1. landsk. fyrir það, að hann sé þakklátur maður. Hann lýsti því yfir, að þessar till. mínar væru einskis virði, og að síðari helmingurinn tæki allt aftur, sem lofað væri í fyrri helmingnum. Mér finnst þetta vera alveg stakasta vanþakklæti hjá honum, og satt að segja er mér þetta alveg óskiljanlegt, því þegar ég bjó til þessar síðari till., leit ég svo á, að ég hefði boðið hv. 1. landsk. upp í dans á sjálfs hans línu. Í till. um kjördæmaskipunina á þskj. 37 er sagt svo, að skipting landsins í kjördæmi haldist óbreytt sú, sem nú er. Kjördæmin utan Reykjavíkur, sem eru 26, kjósi fyrst einn þm. með meirihlutakosningu. Í þessari till. minni er sagt, að þau kjördæmi, sem ákveðin eru með stjórnarskránni, skuli ekki vera nema 25, svo ég geng jafnvel feti framar en hv. 1. landsk. Það er ákveðið í stjskr., að kjördæmin megi ekki vera færri en 25. Það er það eina, sem ákveðið er í stjskr.; hvort þau eru fleiri, ráða kosningalögin. Munurinn er aðeins sá, að ég legg til, að ákvæðin um fjölda kjördæmanna verði tekin upp í stjskr., en ekki höfð í kosningalögum. En úr því að hv. þm. hefir lagt til, að kjördæmin yrðu fleiri, þá má hann vel við una mína till., því fremur sem ég get búizt við, að hv. þm. líti svo á, að það sé ekki ómögulegt, að hans flokkur komist einhverntíma í meiri hl. og að hann þá, a. m. k. með aðstoð jafnaðarmanna, gæti breytt þessu eftir vild. Frá þessu sjónarmiði verð ég að líta svo á, að þessir báðir flokkar ættu að vera mér þakklátir fyrir till. En nú er ekki því að heilsa.

Það hefir verið talað um það, að við framsóknarmenn höfum nú með okkar till. gengið svo langt, að við gætum nú ekki lengur talað með sama valdi og áður um kjördæmamálið, þar sem við m. a. höfum nú boðið það, að Rvík skuli fá 8 þm. En ég get ekki séð, að við höfum framið hér neina goðgá í þessu efni. Við höfum aðeins lýst því yfir, að við teljum rétt, að Rvík eigi að hafa 8 þm. með þeim 4 landsk., sem ómótmælanlega eru fulltrúar Reykjavíkur. Ég held það þurfi ekki fleiri vitna við til málsvarnar fyrir framsóknarmenn í þessu efni. Hv. landsk. þm. sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna hafa jafnan, og síðast í dag, fullt og fast haldið fram málstað Reykjavíkur, og ég sé ekki, að þeir hefðu gert það betur með neinu móti, þó þeir hefðu verið kosnir af Rvík. Með 8 þm. fyrir Rvík er því ekki boðið annað en það, sem Rvík hefir haft og hefir enn á þingi.