14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í C-deild Alþingistíðinda. (11274)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég tel mér það sjálfsagt að vera stuttorður, því mér skilst, að nú muni að mestu lokið ræðum þeirra hv. þm., sem helzt hafa staðið í málsvörn á báða bóga, og muni þeir nú flestir vera búnir með sinn ræðutíma. Þó vildi ég leiðrétta nokkur smáatriði í ræðum hv. 1. og hv. 2. landsk.

Ég býst við, að hv. 1. landsk. skilji það nú, hvað af því hefði leitt fyrir land, og þjóð, ef lagt hefði verið í þær starfsframkvæmdir, er hann og flokksbræður hans hörmuðu svo mjög, að ekki náðu samþykki á síðasta vetrarþingi, en það er virkjun Sogsins fyrir 8 milljónir. Hv. þm. veit, að sú rannsókn, sem gerð hefir verið á því verki síðan af manni, sem þm. sjálfum er miklu fremri, hefir leitt það í ljós, að virkjunin getur orðið miklum mun ódýrari eftir áætlun þessa manns heldur en áætlun hv. 1. landsk., og að það hefði verið hvorki meira né minna en þjóðarógæfa, ef fylgt hefði verið því fyrra plani, og að það var því hið mesta lán fyrir þessa þjóð, að Sogsvirkjunin var ekki samþ. á þeim grundvelli, er það mál var flutt á í fyrra.

Mig furðar mikið á minnisleysi hv. þm. um það, sem gerðist á fundinum í Ólafsvík í fyrra. Þegar presturinn þar spurði hann að því, formann Íhaldsfl., hvernig þessir bandalagsflokkar hugsuðu sér fyrirkomulag kjördæmaskipunarinnar, þá segir þessi hv. þm., að Alþýðufl. langi til þess að gera landið allt að einu kjördæmi, en að sinn flokkur vilji ekki fallast á þá till. Aftur á móti sé hann nokkurn veginn ánægður með það, að landið yrði gert að 6–7 kjördæmum, og að Alþýðufl. muni þá koma það á móti Íhaldsfl. að fallast á það fyrirkomulag. Báðir þessir flokkar hafa lýst því yfir, að þeir skoðuðu þetta sem varatill. Það er tekið fram í nál. meiri hl. í kjördæman. og í ummælum í hv. þd., svo ég sé ekki ástæðu fyrir þessa menn að vera að afneita till. nú, sem allir vita, að voru sá grundvöllur, sem sambræðsla þessara tveggja flokka byggðist á.

Þar sem hv. 2. landsk. var að tala um það, hve framsóknarmenn væru nú orðnir stórgjöfulir við Rvík, að vilja fjölga þm. hennar um helming, þá skal ég benda honum á það, að í till. okkar göngum við þó ekki lengra en það að fjölga þm. í allt um 3; það er sú breyt., sem við leggjum til, að verði. Hann talaði um, að við hefðum verið alls ófúsir í fyrra að fjölga þm. Rvíkur, en hann gleymir því, að þá átti landskjörið líka að standa óbreytt. Þá tókum við það fram, að Rvík ætti í reyndinni 8 þm., 4, er hún kysi sjálf, og 4 af 6 úr landskjörinu. Við lítum því svo á, að Rvík sé ekki neitt sérstaklega illa sett með fulltrúa á þingi.

En þegar við nú gerum till. um framtíðarkosningaskipulag, þá höllumst við að því, að Reykjavík hafi áfram þá sömu 8 þm., sem hún hefir haft. Ég þykist vita, að hv. þm. muni það, að landskjörið á að falla niður eftir till. okkar framsóknarmanna, en það á nú að koma fram í annari mynd, til uppbótar fyrir aðra landshluta. Ég býst við, að hv. þm. hafi ekki munað það, að uppbótarþingsætin eiga eftir okkar till. ekki að ná til Reykjavíkur, heldur til kjördæmanna utan Reykjavíkur, til jafnaðar milli stjórnmálaflokkanna. Þetta er byggt á því, að aðrir landshlutar eigi að fá uppbót, er jafnist á móti þeim miklu áhrifum, sem Reykjavík hefir á þingið, vegna þess hvar það er, sett. Að við framsóknarþm. teljum réttmætt, að fleiri kjósendur komi á hvern þm. í Reykjavík heldur en annarsstaðar á landinu, byggist einmitt á þessum óbeinu áhrifum Reykjavíkur á Alþingi. Það eru fleiri en við Íslendingar, sem byggja á áhrifum höfuðstaðanna á þjóðþing landanna. Öll nágrannaríkin gera það. Í Noregi hefir höfuðborgin t. d. aðeins 7 fulltrúa, og er auðséð af því, að það er ekki lítið tillit tekið til hinna óbeinu áhrifa í þessu frændlandi okkar. Það, sem einkennir okkar till., er það, að við viljum byggja allar breyt. á tilhögun þessa máls á hinni sögulegu þróun; við erum á móti byltingum eins og þeirri, sem gerðist í fyrra eftir að þingið var leyst upp, þessari byltingu, sem þá stóð í fulla viku og er eftirminnileg fyrir það, hvernig hún byrjaði og endaði. Við erum þess fullvissir, að það er ekkert í framkomu þjóðarinnar, sem skaðar landið eins mikið og slík læti.

Ég minnist þess, að fyrir 3 árum, það var árið 1929, þá tók ég þátt í því að semja um bráðabirgðalán fyrir landið við einn af stærstu bönkunum í London. Þá man ég, að bankastjórinn sagði á þá leið, að ástæðan til þess, að bankinn tryði okkur vel, væri vitanlega ekki sú, að við værum efnuð þjóð, heldur hin, að við værum frændur þeirra, við værum af sama kynþætti og þeir, og hjá okkur tíðkuðust ekki byltingar fremur en hjá öðrum germönskum þjóðum. Við þurfum ekki að vera hræddir við hjá ykkur, sagði bankastjórinn, neina óeðlilega framkomu stjórnmálaflokkanna; þess vegna þorum við að trúa ykkur. Þetta var ástæðan fyrir trausti bankans, trausti, sem við hefðum áreiðanlega ekki notið, ef við hefðum verið byltingasinnuð þjóð eins og þjóðirnar í Suður-Ameríku eða öðrum þeim löndum, þar sem byltinga- og ofstopamenn vaða uppi með ólögum.

Mér þótti rétt að taka það fram, úr því farið var að minnast á þá atburði, sem gerðust hér í bænum eftir þingrofið í fyrra, að þó það útleiddist svo, að ekkert yrði úr þessum bjánaskap, er sýnilega hefir skaðað landið út á við, þá hefir þjóðin áþreifanlega sýnt með kosningunum 12. júní síðastl., að hún vill láta gilda lög og reglur og álítur, að slík læti sem þessi muni ekki auka álit okkar eða sóma meðal nábúaþjóðanna.

Þjóðin sýndi það með kosningunum síðustu, að hún vill engar byltingar, hún sýndi, að hún vill halda sín lög og sínar reglur. Hið sama viljum við framsóknarmenn sýna með okkar till. í kjördæmamálinu; við viljum engar stórbreytingar, heldur aðeins þær, sem þróunin gerir eðlilegar. Þegar gengið var frá stjskr. síðast fyrir 12 árum, þá var þm. fjölgað úr 40 upp í 42. Sú breyt., er við nú leggjum til, að gerð verði á tölu þm. úr 42 í 45, er mjög í samræmi við vöxt þjóðarinnar og aukið athafnalíf hennar. Okkar till, eru byggðar á kröfum þróunarinnar, en það er allt öðru máli að gegna með þær till., sem fela í sér svo mikla fjölgun þm., að þeir geti skipt hundruðum. Okkar till. miðast við eðlilegan vöxt, en ekki við byltingu eða stór stökk. Flokkur hv. 1. landsk. hefir nú fram á síðustu missiri algerlega fordæmt allar þær breyt. á kjördæmaskipun og kosningalögum, sem nú felast í hans frv. Og þess er að minnast, að hv. 1. landsk. tók mjög hart á einum ritstjóra sinna blaða árið 1927 fyrir að stinga upp á svo skyndilegri stefnubreyt. í þessum efnum sem hann þá gerði.

Um hinar róttæku till. íhaldsmanna er auk þess það að segja, að þær hafa ekkert verið ræddar fyrr en allra síðustu mánuðina, og þess vegna allt of lítið hugsaðar og undirbúnar til þess að forsvaranlegt geti talizt þess vegna að gera þær að lögum.

Ég get ekki endað mál mitt nema að minnast dálítið á þær hótanir, sem a. m. k. hv. 1. landsk. hefir haft í frammi í sambandi við þetta mál, um það, að ef ekki yrði samþ. frv. hans í þessu máli, þá skyldi hann og hans flokkur vinna á móti því, að stj. fengi framlengda venjulega tekjustofna ríkisins til þess að geta staðið straum af lögmæltum gjöldum.

Þetta er alveg ný aðferð og áður óþekkt hér á Alþingi, og ég ætla, að þeir, sem hafa nú fundið hana upp, hafi ekki gert sér það ljóst, hvaða afleiðingar það hefir fyrir þjóðina, ef slík hótun verður framkvæmd, og að ekki sízt munu afleiðingarnar koma fram á þeim stéttum, er kosið hafa þá menn, er að hótununum standa. Ef svo færi, að sá þingflokkur, sem mestra tekna ríkissjóðs vill afla með tollum og segir, að tollarnir séu sín stefna, snýst allt í einu öfugur gegn sinni eigin skattamálastefnu, eins og hv. 1. landsk. hefir lýst yfir, að hans flokkur mundi gera, ef frv. nær ekki fram að ganga; ef hann ætlar að falla frá þessari sinni stefnu, tollastefnunni, til þess að geta skapað erfiðleika fyrir þjóðfélagið, þá er þessi flokkur áreiðanlega að stofna til þeirra afleiðinga, sem telja má víst, að ekki sízt mörgum af hans flokksmönnum þyki ekki fýsilegar. Afleiðingarnar yrðu sýnilega þær, að starfsmönnum ríkisins yrði ekki hægt að greiða laun sín, og það mundu safnast fyrir þessi ógreiddu laun, sem að líkindum yrðu þó greidd einhverntíma seinna, en þessi óákveðni dráttur mundi þó áreiðanlega skapa erfiðleika fyrir embættismennina. Og það mætti hugsa sér, að þeir mundu þá segja: Ef við eigum ekki að fá þau laun, sem okkur ber, þá erum við heldur ekki skyldugir til þess að vinna fullkomna vinnu. Verkfallið mundi eðlilega færast yfir á starfssvið ríkisins. og gæti þá leitt af sér fulla upplausn þjóðfélagsins. Ef dómararnir hættu að dæma, ef læknarnir hættu að lækna og hjúkrunarkonurnar hættu að hjúkra þeim sjúku, þá mundi skapast það ástand, sem öllum yrði óþægilegt. En þegar svo á að fara að leita að þeim, sem ábyrgðina bera á öllum þessum óþægindum, þá verður ekki erfitt að finna þá; það eru mennirnir, sem neituðu ríkinu um þá skatta, sem til þurfti að greiða þær kröfur, er þeir höfðu lagt ríkinu á herðar. Það eru mennirnir, sem vildu vinna það til að leysa upp þjóðfélagið til þess að koma fram sinni hefndarpólitík. En hverjir hafa nú mestan óhag af þessari byltingu? Það eru ekki framsóknarmenn. Ef hv. 1. landsk. athugar það, að fylgi Framsóknarfl. er einmitt mest í þeim hlutum landsins, sem fyrir minnstum óþægindum yrðu af því, ef ríkissjóður yrði þess ekki megnugur að standast sínar skyldur, þá hlýtur hann að sjá, að þetta verður framsóknarmönnum ekki til tjóns öðrum fremur, heldur alveg öfugt. Erfiðleikarnir, sem af því mundi leiða, að verkbann legðist á ríkið, mundu langtum harðar koma niður á íbúum kaupstaðanna heldur en sveitanna. Ríkissjóðurinn yrði ekki eingöngu að hætta að greiða sínum föstu starfsmönnum laun, heldur mundi hann verða alveg að hætta að leggja nokkuð fram til verklegra framkvæmda eða til atvinnubóta, eins og dálítið hefir verið gert að síðastl. vetur. Allt slíkt væri með öllu útilokað, hver svo sem með völdin færi, því þetta væri bein afleiðing af því, að ríkið ætti enga peninga. Og þegar svo við þetta bættist, að helmingur þjóðarinnar stæði að þessu verkfalli, þá mundi traust og álit ríkisins út á við fljótt rýrna, samkvæmt ummælum enska bankastjórans, og það er ekki ólíklegt, að þeim mönnum, er slíkum atburðum ætla að valda, takist að brjóta niður þá trú, sem aðrar þjóðir hafa fengið á okkur og skapazt hefir fyrir skilamennsku Íslendinga.

Hv. þm. ætti bezt að vita, hvílíkt tjón slíkt væri hans sterkustu pólitísku fylgismönnum, að missa traust erlendra viðskiptamanna og lánardrottna. Tiltrúin minnkar alveg eins og í ríkjunum í Suður-Ameríku, vegna stjórnleysis þess, sem þar ríkir.

Ég henti á það, hve grunnfær hugsunarháttur þeirra manna væri, sem halda það, að þeir geti hefnt sín á einum stjórnmálaflokki með þeim aðgerðum, sem setur allan landslýð, verkamenn, vinnuveitendur, kaupsýslumenn og yfir höfuð alla í hin mestu vandræði, og það eingöngu í hefndarskyni. Ég hefi viljað sýna fram á þetta, „því ekki veldur sá, er varir“. — En hitt get ég fullvissað hv. 1. landsk. um, og það ætti honum að vera kunnugt, þar sem hann er alinn upp í sveit, að það verður ekki sveitafólkið, sem fyrst gefst upp. Það er vant meira harðrétti og hefir auk þess betri aðstöðu til þess að verjast, vegna framleiðslu sinnar. Það er því víst, að þau brögð, er hv. 1. landsk. beitir í þessu máli, bitna fyrst og fremst á hans eigin mönnum.

Ég hygg því, að hann muni ekki meiri gleði af þessu hljóta heldur en svo mörgu öðru, sem hann hefir átt þátt í eða verið höfundur að. Þetta mun ekki verða honum né flokki hans til meiri framdráttar heldur en þegar hann átti sinn þátt í því að senda flugumann til pólitísks andstæðings, sem varð honum og flokki hans hvorki til fremdar né framdráttar. Ekki hefir heldur sá bræðingur, sem hann stofnaði til fyrir ári síðan, ennþá veitt honum gleði né gæfu. Og ef hann leiddi nú yfir þjóðina alla og einkum þó þá stétt, sem hann og flokkur hans styðst við, sérstök vandræði, sem ósýnt er um, hve lengi myndu vara, er mér ekki grunlaust um, að fara myndi á sömu leið sú áætlun hans að gera Framsóknarfl. óleik með því eins og hans fyrri pólitísku áætlanir hafa farið. En þær minna aftur á hinar verkfræðilegu áætlanir hans, svo sem eins og 8 millj. kr. áætlun hans um Sogsvirkjunina í fyrra. Ég held, að hv. 1. landsk. ætti að vera búinn að læra svo mikið af reynslunni, að hann ætti að vera farinn að taka það með í reikninginn, hve oft honum hefir skjátlazt í verkfræðinni. Það er nærri sama, hvar farið er um landið, þá eru alltaf fyrir augum manna „verk, sem tala“: Gljúfurárbrúin. Kveldúlfsbúkkinn, rafveita Reykjavíkur, síldarverksmiðjan, þar sem fram kom, að hv. þm. hafði gleymt margföldunartöflunni, Sogsáætlunin nú síðast, og svona mætti lengi telja. Alstaðar hefir hv. 1. landsk. sýnt, að honum er hætt við að gera bagalegar skekkjur í útreikningi sínum. Þessar skekkjur vill hann nú fára að vefa inn í þjóðlíf okkar Íslendinga. Gagnvart hinum verkfræðilegu skekkjum hafa náttúruöflin stundum risið og tekið í taumana. Þau hafa þar orðið honum ofurefli. En ég er þess eins fullviss, að þetta, sem hann hótar nú að gera, mun koma honum sjálfum í koll og hans nánustu. Og þótt það kunni að gera mörgum skaða, þá skaði það þó engan meir en upphafsmanninn sjálfan. Og í sambandi við þetta má minna á, að hv. 1. landsk. hefir ekki haft meiri hótanir í frammi nú en hann hafði fyrir ári síðan. Og áhrif þau, sem þær hótanir höfðu, mættu enn vera honum og flokki hans í fersku minni.