14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í C-deild Alþingistíðinda. (11276)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson:

Mér þótti leitt að heyra, að hv. samsýslungur minn, 1. landsk., sagði, að ég hefði beitt sig rökhnupli, þar sem hann sagði, að ég hefði farið rangt með skoðanir hans frá síðasta vetrarþingi. Ég vil ekki viljandi rangfæra neins manns orð. En ég get ómögulega annan skilning lagt í þá setningu, er ég las upp, en ég gerði. Og þótt ég lesi næstu setningu, þá breytir það engu. Sú setning hljóðar svo: „Þetta er eina ástæðan fyrir því, að ég get verið með niðurlagningu landskjörsins“. Það er líka eðlilegt, að hann segi þetta, þar sem hann taldi landskjörið heldur til bóta. Hér er því ekki um neitt rökhnupl að ræða. Það, sem ég hefi haldið fram um þetta, er alveg rétt.

Þá skal ég fara fáeinum orðum um það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði. Honum fannst það einkennilegt, að ég gæti ekki skilið það, að brtt. hv. 1. og 4. landsk. yrði ósamrýmd 1. gr. stjskrfrv. á þann hátt, að minnihl.maður næði kosningu í einhverjum kjördæmum. Ég heyri að vísu þessa skýringu, en hitt get ég varla skilið, að nokkrum detti það í hug, að sá eigi að ná kosningu í kjördæmi, sem kosinn er af miklum minni hl. kjósenda þar. Mér finnst, að þá færi nú réttlætið að hallast.

Þá lagði hv. þm. út af þeim orðum Þorgeirs Ljósvetningagoða, er ég minnti á áðan vegna þeirrar hugsunar, er kom fram hjá hv. 1. landsk. um að ríkið mundi klofna í tvennt. Hv. þm. fór nú eiginlega lofsamlegum orðum um þessi orð Þorgeirs. Vona ég því, að hann breyti eftir þeim. Aðeins vildi hann kenna Framsóknarfl. um, að hann hefði valdið friðslitum, og færði til till. Framsóknar í fyrra um að afnema landskjörið. Ég get nú ekki séð, að í þeirri till. hafi falizt nein friðslit, sbr. ummæli hv. 1. landsk. þm. á vetrarþinginu í fyrra. Ég held, að sú skoðun sé nokkuð almenn meðal allra flokka, að landskjörið sé eiginlega hvorki fugl né fiskur, sem ekki svari kostnaði að halda í. Hv. þm. Snæf. o. fl. hafa flutt till. um að afnema landskjörið. Og það er ekki fyrr en þá nú, að nokkur deila hafi staðið um það.

Það er vitanlega ekkert við því að segja, þótt misjafnar skoðanir komi fram um kjördæmamálið o. fl. o. fl. En ég vil ekki, að stofnað sé til þess, að slíkar deilur leiði til áhættu fyrir þjóðfélagið einmitt í því árferði, sem nú er og áður hefir verið lýst, og sem er á þann veg, að nota þarf krafta þjóðarinnar til alls annars frekar en að standa í harðvítugum illdeilum. Ég tel það því bæði skyldu mína og allra annara að gera það, sem hægt er til að leysa þetta mál á þann hátt, sem allir megi svo vel við una sem kostur er. Leysa það á þann hátt, að forðað sá árekstri og að málalokin megi verða öllum til sæmdar.

Ég mun ekki ræða neitt við hv. 2. landsk., þar sem hann er nú ekki viðstaddur. Aðeins skal ég geta þess, að hann hélt því fram, að Framsóknarfl. vildi ekkert nema að halda í sama ástand og er. En vegna þeirra orða vil ég aðeins minna á ræðu þá, sem hæstv. forsrh. hélt í fyrravor og flaug á bylgjum útvarpsins víða um land. Í þeirri ræðu lýsti hann yfir því, að Framsóknarfl. væri fús til þess að koma með till. um endurbætur, til að lagfæra stærstu agnúana, aðeins að haldið væri fast við núv. kjördæmaskipun í aðalatriðum.

Aths. sú, er ég hafði, er nú víst búin, og skal ég því láta máli mínu lokið.