14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í C-deild Alþingistíðinda. (11277)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Einar Árnason):

Þegar þetta mál var hér til 2. umr., komu fram brtt. frá Framsóknarfl. Þær voru felldar, án þess að vera ræddar neitt verulega. Umr. fóru þá næstum alveg á snið við þær. Að þær till. voru felldar án þess að vera verulega ræddar, virtist benda á, að lítið þýddi að bera fram brtt. frá minni hl. n. nú við 3. umr. Það hefir því heldur ekki verið gert. Milli 2. og 3. umr. leið nokkur tími án þess að neinar brtt. kæmu fram. Og svo stóð, þegar málið var fyrst tekið á dagskrá til 3. umr., að þá hafði enn engin brtt. komið fram. En í það sinn kom þó málið ekki til umr. Hæstv. forseti tók það þá út af dagskrá af einhverjum ástæðum, ég veit ekki hverjum. En þegar frv. var aftur tekið á dagskrá, var komin fram brtt. frá tveimur flm. frv. Sú brtt. hefir aftur leitt til þess, að fleiri brtt. hafa komið fram, þar á meðal frá þriðja flm. frv.

Það má nú í fljótu bragði virðast undarlegt, að þessar till. eru komnar fram frá sjálfum flm. þessa máls, einkum þar sem engar brtt. voru komnar frá öðrum, þegar þeir báru sínar fram. En þetta sýnir, að ekki er allt sem hreinast bak við frv. Till. hv. l. og 4. landsk. ákveður, að tala þm. skuli aldrei fara yfir ákveðið hámark. Bindur hún enda, ef samþ. verður, á það, að tala þm. skuli vera algerlega óákveðin, sem þó var lögð sterk áherzla á í upphafi. Að þessu leyti er till. því spor í rétta átt. En sá böggull fylgir þó skammrifi, að, eftir því sem hv. flm. till. túlka hana, þá á að ná flokkslegu „réttlæti“ með því að taka af kjördæmum þá þm., sem kosnir hafa verið þar með meiri hl. atkv., og taka þann, sem færri atkv. hefir fengið, og gera hann eða þá að þm. Þar með yrði réttur þess eða þeirra kjördæma, sem fyrir þessu yrðu, til að velja sér þm. af þeim tekinn.

Þetta er svo stór og ósanngjörn breyting, að Framsóknarfl. getur ómögulega gengið inn á hana, þar sem það er stefna flokksins að vernda sjálfstæðan rétt kjördæmanna til að velja sér þm. Ég mun svo ekki blanda mér meira inn í umr. um þær brtt., sem hv. flm. frv. hafa komið fram með. Aðstaða okkar framsóknarmanna hér er sú, að við getum engar brtt. fengið samþ. En þótt flm. frv. komi fram með andstæðar till., þá látum við þá eina um það. Við munum ekki skipta okkur af vopnaskiptum þeirra flokka.

Ég vil svo greina frá því fyrir hönd flokksmanna minna, að við munum leyfa frv. að ganga til hv. Nd. En um leið vil ég taka það skýrt fram, að við erum frv. mótfallnir eins og það er nú, en við viljum ekki koma í veg fyrir, að hv. Nd. fái tækifæri til þess að breyta því í viðunandi horf, því við erum sannfærðir um, að sú hv. d. afgreiðir málið aldrei í þeirri mynd, sem það nú er.