19.02.1932
Neðri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

25. mál, opinber greinargerð starfsmanna ríkisins

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég þykist heyra það á svari hv. flm., að hann ætlast til, að 2. gr. frv. verði skilin á þá leið, sem ég taldi nauðsynlegt, en þá held ég, að þurfi að breyta formi 2. gr. eitthvað, ef það á að vera nægilega ljóst, að þar sé útvarpsráði gefið vald til að útiloka erindi, og verður hv. n. að taka þetta til athugunar.

En með þessum skilningi á 2. gr. kemur annað atriði til greina, og það er það, að útvarpsráðið fengi hér talsvert vald, sem gæti gert sumum mönnum dálítið gramt í geði og jafnvel sáð óánægjufræum. Það má hugsa sér starfsmann, sem er góður og gegn á sínu sviði, en ekki laginn að semja slík erindi sem þessi. Gæti það verið dálítið hart fyrir hann að sækja mikið undir náð útvarpsráðs. Aftur gætu aðrir, sem væru eftirsóttir, orðið fyrir ónæði af þessum sökum.

Sum störf eru þannig vaxin, að þau eru svo að segja ný hvert ár, svo sem störf vegamálastjóra og vitamálastjóra, er áður voru hér nefnd; en önnur störf — ég tek til dæmis mitt starf — eru aftur hin sömu ár eftir ár. Ég gæti náttúrlega samið svona 1 til 2 erindi um mitt starf, en ef ég ætti að flytja slík erindi á hverju ári, kannske í ein 20 ár, þá mundi fljótt skorta umræðuefni, því þó að ég fari að segja frá því, ef ég breytti eitthvað til um kennsluaðferðir eða kennslubækur, eða þó ég tæki upp þann hátt að halda samræðufundi með nemendum, þá væri það ekki efni, sem hægt er að semja skemmtilegt útvarpserindi um. En svo mætti hæglega líta þannig á af almenningi, að sá embættismaður eða starfsmaður, sem þannig flytti 1 eða 2 erindi, en hætti síðan, að nú væri þessi maður orðinn stirður steingerfingur, sem ekki væri lengur hægt að hafa til þessa. Í þessu efni tel ég ekki lítinn vanda lagðan á herðar útvarpsráðs; en það er oft ekki lítill vandi jafnvel á leið smárra mála. Með nokkurri endurbót á þessu frv. get ég fallizt á, að eitthvað gott gæti upp af því sprottið.