08.03.1932
Efri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í C-deild Alþingistíðinda. (11300)

43. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. (Einar Árnason):

Efni þessa frv. er það, að bætt verði inn í 1. um lokunartíma sölubúða heimild handa bæjarstjórnum um að gera samþykktir um takmörkun á vinnutíma sendisveina hjá verzlunum, skrifstofum og öðrum fyrirtækjum, sem sendisveina nota. Ástæðan til þess, að frv. er flutt, er sú, að það mun æðimikið hafa tíðkazt, að vinnutími sendisveina drægist fram eftir kvöldi, svo að þeir hafi ekki losnað fyrr en framorðið hefir verið og löngu eftir þann tíma, sem aðrir hafa verið hættir störfum. Eftir frv. á ekki að mega senda frá búðum lengur en að það sé í seinasta lagi klukkutíma áður en lokunartími kemur.

Í fljótu bragði má svo virðast, að þvílíkar takmarkanir geti orðið kaupendum til óþæginda, en við nánari athugun virðist ekki eiga að þurfa að verða nein óþægindi að þessu. Þeir menn, sem ætla sér að fá vörur sendar heim, þurfa þá aðeins að gera ráðstafanir til þess svo tímanlega, að sendiferðinni geti verið lokið nokkru fyrir lokunartíma. Allshn. hefir haft þetta mál til meðferðar og fallizt á frv. og orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. N. flytur brtt. á þskj. 99, en sú breyt. er engin efnisbreyt., heldur aðeins orðabreyt., sem hefir engin áhrif á málið sjálft.