03.03.1932
Efri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í C-deild Alþingistíðinda. (11309)

53. mál, skírteini til vélstjórnar

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Ég get verið stuttorður við framsögu þessa máls, því það er tekið fram í grg., hvað hér er um að ræða. Eins og hv. þm. hafa séð, fer frv. fram á heimild handa atvmrh. til að veita þrem mönnum vélstjóraskírteini, til þess að þeir megi vera vélstjórar á skipum, sem ganga á fiskiveiðar, 1. vélstjóri á skipum allt að 200 smálesta stærð og 2. vélstjóri á öllum stærri skipum. Frv. er flutt samkv. beiðni þessara þriggja manna, sem allir eru fjölskyldumenn, búsettir í Hafnarfirði. Þeir hafa allir unnið í mörg ár að vélstjórastörfum, og þarf ég ekki að lýsa því fyrir hv. þdm., hvað það væri þeim bagalegt, ef þeir þyrftu að hætta því starfi. Samskonar frv. og þetta var afgr. á vetrarþinginu í fyrra og gekk það mjög greiðlega í gegn. Vona ég, að þetta frv. fái sömu undirtektir.

Vil ég svo mælast til, að frv. verði vísað til hv. sjútvn.