08.03.1932
Efri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í C-deild Alþingistíðinda. (11312)

76. mál, fátækralög

Flm. (Magnús Torfason):

Þetta frv. er eiginlega gamall kunningi hér á þingi. Það eru nú full 30 ár síðan samskonar till. var hreyft, og síðan jafnan öðruhverju. Þegar fátækralögin voru samþ. 1927, var samskonar till. hreyft, en hún náði þá ekki fram að ganga. Það urðu nokkurskonar sættir í málinu; sveitfestistíminn var áður 10 ár, en færður niður í 4 ár, og frv. var samþ. eins og það lá fyrir, því það var mikil bót frá því, sem áður var. Hinsvegar voru menn ekki ánægðir með þetta og sögðu sem svo, að þessi ákvæði um að stytta sveitfestistímann færu langt of skammt.

Efni þessa frv. er því aðeins það að færa fátækral. að því er þetta snertir, eða 21. gr. þeirra, í það form, sem þau áttu að vera í og farið hefir verið fram á ótal sinnum.

Breyt. þær, sem hér er farið fram á, eru þær í fyrsta lagi, að sveitfestistíminn verði færður niður úr 4 árum í 2 ár, og í öðru lagi, að numið sé burt það ákvæði, að menn megi ekki hafa þegið sveitarstyrk síðustu 10 árin í dvalarsveitinni, endurkræfan eða óendurkræfan, og að þetta verði jafnt sveitfestistímanum, eins og alstaðar annarsstaðar.

Þá er þriðja brtt. sú, að aðeins endurkröfur sveitarstyrkur geti komið í veg fyrir sveitfesti, en ekki óendurkræfur sveitarstyrkur. Ég hefi aldrei skilið, hvers vegna óendurkræfur sveitarstyrkur á að vera því til fyrirstöðu, að menn vinni sér sveit; hann er byggður á ýmsum ástæðum, sem eru þess eðlis, að þeim, sem þurft hefir að þiggja slíkan styrk hefir verið það vorkunnarmál, og það er ófyrirsynju að láta þann styrk slíta sveitfesti, sem menn þiggja af ástæðum, sem þeir eiga ekki neina sök á.

Í grg. er það tekið fram, að þau sveitarfélög sérstaklega, er fólki fækkar í, verði illa úti. Á þeim 5 árum, sem nú eru liðin frá því l. komu í gildi, hefir það sannazt, að þó sveitfestistíminn með þeim ákvæðum, sem honum fylgja, hafi verið styttur, þá hefir það ekki nægt til að fyrirbyggja, að þau héruð, sem missa fólkið, fái þungar búsifjar af þeim héruðum, sem fólkið fer til.

Ég skal játa það, að þetta frv. er borið fram fyrst og fremst af því, að í mínu umdæmi eru sveitarþyngslin af utansveitarfólki orðin æðitilfinnanleg; það er blátt áfram komið fram af hinum þungu búsifjum, sem 2 hreppar í sýslunni hafa orðið fyrir, Eyrarbakkahreppur og Stokkseyrarhreppur; þangað hafa komið fleiri sendingar á hverju ári, og sumar æðiþungar, svo að sveitarframfæri

þar er orðið svo þungt, að þessir hreppar geta ekki borgað skyldugjöld sín. Þessa er líka von, því að fólkinu hefir fækkað um fullan þriðjung á síðustu 10 árum, eða síðan 1921, í áðurgreindum sveitum. Og það er ekki nóg, að vinnuaflið hafi minnkað, heldur hafa einnig farið burt menn, sem voru í góðum efnum, og því mjög mikill sveitarstyrkur að, eins og jafnan vill verða, er sveitarfélagi hrakar, svo burðarmagn þessara hreppa er nú miklu minna en nemur fækkun fólksins. Og síðustu 2 árin er svo langt komið fyrir þessum hreppum, að þeir hafa ekki getað greitt sýslusjóðsgjaldið. Það er m. ö. o. að þessar þungu búsifjar, sem sveitarþorpin austanfjalls hafa orðið fyrir, eru ekki aðeins sveitarböl, heldur eru þær einnig orðnar sýsluböl. Sýslan getur ekki gegnt þeim málum, sem fyrir liggja, þó að mörg þeirra séu aðkallandi og bráðnauðsynleg, sökum þess að hún fær ekki greidd gjöldin. En þó það megi vel vera, að fá pláss hafi orðið eins illa úti og þorpin þarna niðri frá, þá er það ekki svo að skilja, að það séu ekki margir aðrir hreppar, sem líkt stendur á með, t. d. eru 2 hreppar í sýslunni, sem að vísu hafa enn staðið í skilum með sýslusjóðsgjöldin, en eru mjög þjakaðir, en það eru Biskupstungnahreppur og Villingaholtshreppur, og það af þessum sömu ástæðum. En þó er mér nær að halda, að það séu fleiri hreppar á landinu, sem eiga um sárt að binda, án þess að ég ætli að fara lengra út í það nú, en vil þó aðeins benda á að Gerðahreppur í Gullbringusýslu mun engu betur settur en sjávarþorpin austanfjalls, nema verr sé.

Ég vænti þess, að hv. d. taki vel þessu máli, og sérstaklega þykist ég mega treysta því, að hinir landsk. þm. muni vilja miðla þessu máli af ríkdómi síns réttlætis. Að síðustu vil ég leggja það til, að málinu verði, að umr. lokinni, vísað til hv. allshn.