08.03.1932
Efri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í C-deild Alþingistíðinda. (11313)

76. mál, fátækralög

Jakob Möller [óyfirl.]:

Á þessu stigi málsins er náttúrlega ekki ástæða til að hafa langar umr. um þetta frv., en ég vil þó láta þá skoðun í ljós, að mér skilst, að það muni ekki vera rétt að vera að setja svona bætur á þetta gamla fat, því að það er bersýnilega nauðsyn á því að taka fátækralöggjöfina til rækilegrar athugunar og endurskoða hana gersamlega. Fátækramálin hafa meira og meira færzt í það horf, að ýms ákvæði fátækralaganna eru nú orðin alveg þýðingarlaus. Þannig er t. d. um ákvæðið um greiðslu framfærslukostnaðarins; það lendir meira og meira á dvalarsveitinni að greiða hann, af því blátt áfram, að það reynist ókleift að ná meðlaginu inn hjá framfærslusveitinni. Þetta er orðið hreint vandræðamál, a. m. k. þar, sem ég þekki til, sem er nú náttúrlega sérstaklega hér í Rvík, en ég hygg þó, að það muni vera jafnvel ennþá verra í sumum öðrum kaupstöðum, t. d. í Hafnarfirði.

Sérstaklega vil ég vekja athygli hv. d. og n. á því ákvæði frv., að aðeins endurkræfur styrkur geti slitið framfærslurétti. Það hefir lengi verið svo, að ýms sveitarfélög hafa reynt að koma mönnum af sér yfir á önnur sveitarfélög, hjálpað þeim til að vinna þar sveit, af ótta við það, að þeir myndu þurfa á sveitarstyrk að halda. Hafa verið notuð til þess hverskonar brögð að koma mönnum af sér á þennan hátt, og hefir það stundum komizt upp síðar og verið leiðrétt, en stundum aldrei. Með þessu ákvæði, að einungis endurkræfur sveitarstyrkur hafi þýðingu í þessu sambandi, er sveitarfélögunum gefið tækifæri til að koma af sér ómögum, því að framfærslusveit sker úr um það, hvort styrkurinn skuli teljast endurkræfur eða ekki. Geta þau þannig losað sig við aðra styrkþega líka með því að úrskurða, að þeirra styrkur sé einnig óendurkræfur. Sé ég ekki ástæðu til að gera sveitarfélögum auðveldara um þetta og skil ekki, hví hv. flm. kom fram með þetta ákvæði. Sérstaklega vil ég þó beina því til hv. n., að hún taki þetta rækilega til athugunar.