08.03.1932
Efri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í C-deild Alþingistíðinda. (11316)

76. mál, fátækralög

Guðrún Lárusdóttir:

Ég vil leyfa mér að minna á þál., er samþ. var hér á síðasta þingi. Vil ég spyrjast fyrir um, hvernig henni hafi reitt af. Till. var þessi:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstjórnina að leggja fyrir næsta þing frv. um þær breytingar á fátækralögunum, að greitt sé úr þeim fjárhagsvandræðum, er af því leiðir fyrir einstök hreppsfélög, hversu þunginn af fátækraframfærslunni kemur misjafnlega niður“.

Veit ég ekki, hvort hæstv. stj. hefir unnið nokkuð að framkvæmd þessa máls. Frv. það, sem hér er til umr., gefur mér tilefni til að minnast á þetta. Vil ég láta í ljós undrun mína yfir því, að ekkert hefir verið upplýst í málinu. Hvort þetta frv. á að bæta hér úr, er spurning, sem hv. flm. geta víst svarað. Mér finnst reyndar sú bót vera lítil. Er hér oft talað um það vandræðaástand, að fólk streymi úr sveitum í kaupstaðina. Er það álitið ranghverfa mikil. Sveitirnar eru hálftómar að fólki, en það leitar til kaupstaðanna í von um þægindi og betri launakjör, svo að þeir eru ofhlaðnir fólki, sem ekkert hefir að vinna, og þá stundum heldur ekkert að borða og þarf því að flýja á náðir þess opinbera. Virðist mér frv. þetta alls ekki koma í veg fyrir slíkt, heldur miklu fremur ýta undir fólkið að flytja í kaupstaðina. Eru og sveitarþyngsli mest í kaupstöðum landsins.

Mér finnst því hreppapólitík í þessu frv. hjá hv. 2. þm. Árn., því að hann talar hér fyrst og fremst fyrir hönd síns hrepps. Ég vil ekki, að hreppapólitík ráði í slíkum málum, heldur landsheill. Bezta úrlausn þessa máls væri sú, að gera landið allt að einu framfærsluhéraði. Með því yrði komizt hjá miklu rifrildi og hreppapólitík við umr. um fátækramál. Þetta frv. bætir ekkert um, heldur ýtir undir fólk um að fara þangað, sem það vill vera og eiga sveit. Er ekkert auðveldara en að aðstoða fólk í 2 ár til að fá sveitarréttindi, og síðan kemur þurfafólkið á samri stund til þess að fá styrk. Sá, sem hefir starfað að fátækramálum, kemst fljótt að raun um þetta. Önnur ráð munu vera betri í þessum málum en það að stytta sveitarvinnslutímann, því að það er vissulega ekkert annað en að leggja nýja bót á gamalt fat.