08.03.1932
Efri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í C-deild Alþingistíðinda. (11320)

76. mál, fátækralög

Guðrún Lárusdóttir:

Ég hefi fyrir ýmsra hluta sakir gaman af að tala við hv. 2. þm. Árn. Hann hafði uppi ýmsa spádóma um það, að endurskoðun fátækralöggjafarinnar ætti langt í land. En ég held, að það sé ekki mikið leggjandi upp úr hv. þm. sem spámanni. Ég skal aðeins minna hann á, að við hittumst ekki fyrir alllöngu á landsmálafundi við Ölfusárbrú, og þá spáði hann því t. d., já, fullyrti jafnvel, að við myndum alls ekki eiga það eftir að hittast hér innan vébanda þingsins. Þessi spádómur hefir ekki rætzt, og mér kæmi ekki á óvart, að svo færi einnig um þennan spádóm hv. þm. um gagngerða breyt. fátækralaganna.

Ég kannast ekki við það að hafa flutt mál mitt með offorsi, eins og hv. 2. þm. Árn. lét í veðri vaka. (MT: Það hefi ég aldrei sagt). Og því síður kannast ég við að hafa hagað orðum mínum þannig, að þau yrðu skilin svo, sem ég héldi því fram, að menn segðu sig almennt til sveitar strax og tvö árin væru liðin. Ég átti vitanlega við það, að þess eru mörg dæmi, að menn, sem síðar verða styrktar þurfar, reyna mjög til að halda sér frá sveit þau árin hér í bænum, sem til þess þarf að vinna sér inn sveitfesti hér, og komi svo strax að þeim tíma liðnum og biðji um styrk, þótt þeir þættust alls ekki þurfa hans með áður. En hitt er alveg fjarstætt, að ég hafi viljað halda því fram, að slíkt væri almennt um fólk, sem hingað flyttist til bæjarins, og ég skil ekki í hv. yfirvaldi Árnesinga að hafa í frammi slíkar rangfærslur. Annars gæti ég sagt hv. þm. ýmislegt þessu viðvíkjandi, máli mínu til sönnunar, en hirði ekki um það að svo stöddu.

Hv. þm. sagði, að ég vildi láta 10 ára ákvæðið haldast, líkt og áður var. Þetta er einnig rangfærsla, en hitt get ég játað, að meira samræmi væri í því að hafa sveitfestistímann hinn sama og þann tíma, sem viðkomandi má ekki þiggja af sveit, enda er slíkt venjulegt erlendis.

Ég vil einmitt sérstaklega sem landsk. þm. taka tillit til allra landshluta hvað þessi málefni snertir, og ég vil þess vegna ekki halla sérstaklega á kaupstaðina, heldur reyna að gera öllum landshlutum jafnt undir höfði. Ég hefi átt tal við ýmsa fróða menn, sem hafa ótvírætt látið það í ljós, að stytting sveitfestistímans hafi valdið auknum flutningi fólks frá sveitum til kaupstaða. Mér hefir nú jafnan fundizt flokkur og málgagn hv. 2. þm. Árn. gera helzt til mikið úr „spillingunni“ í Rvík, og mikið talað um „Reykjavíkurskríl“, og þess vegna finnst mér það nú koma úr allra hörðustu átt, er hv. 2. þm. Árn. beitir sér fyrir frv., sem óhjákvæmilega yrði til að auka „Reykjavíkurskrílinn“. Hv. þm. verður að viðurkenna, að af samþykkt þessa frv. hlyti að leiða aukið los á fólkinu og aukið ráp landshornanna á milli. — Annars hefi ég ekkert um þetta frv. að segja frekar við þessa umr., en vænti þess, að n. geri sitt til að lagfæra það og koma í veg fyrir þá rangsleitni, sem í því felst. Í þeirri mynd, sem það er flutt nú, verð ég að leggjast á móti því af þeim ástæðum, sem ég þegar hefi látið uppi.