09.03.1932
Efri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í C-deild Alþingistíðinda. (11324)

95. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Flm. (Einar Árnason):

Eins og sést á þskj. 95, er þetta frv. flutt að ósk Ólafsfirðinga.

Krafan um, að Ólafsfjörður verði sérstakt læknishérað er ekki ný, og enda ekki í fyrsta sinn nú, sem hún er borin fram hér á Alþ. Er nú liðið á annan tug ára síðan þessi krafa kom fyrst fram, en ekki hefir hún fengið byr hjá þinginu til þessa, en að vísu nokkra viðurkenningu, þar sem var sú ráðstöfun Alþingis, að Ólafsfirðingum var veittur styrkur til þess í fjárl. að halda sinn sérstaka lækni. Var þessi styrkur veittur í fyrsta sinn í fjárl. ársins 1926 og nam 2000 kr., og áttu Ólafsfirðingar sjálfir að leggja fram 2600 kr. á móti. Þessi styrkveiting fjárveitingavaldsins kom þó ekki að liði, af því að hreppsfélagið er ekki svo á vegi statt fjárhagslega, að það gæti tekið á sig þann bagga, sem slík árleg greiðsla mundi hafa í för með sér.

Í fjárl. 1929 var gerð sú breyting, að þá er framlagið, sem ríkissjóður lofaði, hækkað upp í 2600 kr., gegn 1600 kr. frá Ólafsfirðingum. Þegar málið var komið í þetta horf, þá varð það úr, að Ólafsfirðingar réðu til sín lækni og gerðu samning við hann til 5 ára. Þeir hafa þessi árin fengið 2600 kr. úr ríkissjóði, en sjálfir greitt hinn hlutann, eða 1600 kr. Þessi samningur er útrunninn 1933, og eru engar líkur til, að Ólafsfirðingar treysti sér til að gera samning aftur, svo fátækt hreppsfélag, að borga 1600 kr. á ári til læknis. Hreppsfélagið hefir einu sinni gert þennan samning og verður að reyna að standa við hann fram að þeim tíma, sem mun vera 1. júní 1933. En það má búast við því, að eftir þann tíma verði þeir læknislausir.

Nú kunna margir að líta svo á, að ekki muni vera sérstök þörf á því, að þessi hreppur fái sérstakan lækni. En ég held, að það tvennt sé sönnun fyrir því, að þarna sé virkileg þörf fyrir lækni, að ríkissjóður hefir veitt þessi hlunnindi, og í annan stað það, að sveitarfélagið leggur á sig þessa byrði. Ég vildi aðeins taka það fram fyrir þá, sem kynnu að vera ókunnugir þarna, að Ólafsfjörður er umgirtur háum, veglausum fjöllum. Á vetrum er venjulega illfært eða ófært til annara héraða, og sérstaklega þangað, sem læknis er að leita. Þarna er ákaflega brimasamt, lending slæm og oft undir hælinn lagt, að hægt sé að leggja á bát inn á Ólafsfjörð. Það getur vitanlega heppnazt í góðu veðri, en þeir tímar eru oft, að það er ófært, og þá er útilokað, að þeir geti fengið læknishjálp. Það má líkja afstöðu Ólafsfjarðarhrepps við þá afstöðu, sem Bolungavík hafði áður en settur var þar sérstakur læknir. Það var fyrir nauðsyn þeirra manna, að þingið gerði Bolungavík að sérstöku læknishéraði. Ég vildi því mega vona, að þingið liti á nauðsyn Ólafsfirðinga og veiti þeim sömu hjálp í þessu efni sem Bolungavík var veitt á sínum tíma, því hér getur ekki verið um nema örlítil aukaútgjöld að ræða fyrir ríkið, þar sem það nú greiðir hátt á þriðja þús. kr. til læknisins, en það myndi, ef það yrði sérstakt hérað, heyra undir þann flokk læknishéraða, þar sent launin eru 3500 kr. Vil ég svo leggja til, að málinu verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.