06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í C-deild Alþingistíðinda. (11332)

95. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Bjarni Snæbjörnsson:

Það, sem komu mér til að standa upp, var það umtal, sem fram hefir farið um hin fámennu og litlu læknishéruð og um lækna þá, er settust þar að. Ég játa það með hv. þm. Snæf., að það er ekkert gaman að því að vera að mynda ný, fámenn læknishéruð. En hinsvegar er ég sammála því, að varhugavert er að standa á móti því, að læknir sé settur í svo afskekkta staði sem þessi er. Þar getur oft verið svo, að um líf og dauða sé að tefla, ef ekki er hægt að ná í sæmilegan lækni á hverjum tíma sem er. En svo ég víki að þungamiðju þessa máls, sem er sú, hvort rétt er að stofna slík læknishéruð, sem vegna fámennis eru svo, að búast má við því, að þeir læknar, sem þangað fara, verði andlega og líkamlega volaðir, þá þarf að taka það til athugunar, að sá „tendens“ hefir nú unt hríð verið hjá veitingarvaldinu, að þeir læknar, sem hafa glæpzt á því að fara í þessi útkjálkahéruð, í von um að fá betri héruð síðar, og hafa gefið kost á sér einmitt þess vegna, hafa orðið fyrir vonbrigðum. Þeir hafa orðið innlyksa í þess um héruðum og orðið þar máske eða verða andlega og líkamlega volaðir. En það, sem kom fram hjá hv. frsm., virtist mér benda til þess, að hv. allshn. ætlaðist ekki til, að haldið væri fram á þeirri braut, að t. d. héraðsbúar eigi sjálfir að ráða, hver fái læknisembætti, þegar það losnar, og að veitingarvaldið hyllist ekki til þess að láta menn, sem ekkert hafa starfað í þjónustu ríkisins áður, eða þá menn, sem koma beint frá prófborðinu, fá hin feitustu embætti, heldur að láta þá ganga fyrir, sem gerzt hafa læknar afskekktra héraðsbúa og nú í seinni tíð hafa sjálfir orðið að líða fyrir það, að þeir gáfu kost á sér í þessi afskekktu hérað. Ég hygg, að þetta muni vera aðalástæðan fyrir því, að hv. þm. Snæf. er á móti frv., þótt hitt sé líka ástæða hans fyrir því, að vera á móti, að stofnuð séu ný embætti á erfiðum tímum.

Ég vil vona, að bæði hér á þingi í sambandi við löggjöf og annarsstaðar þar, sem góðir menn ráða, verði fullt tillit tekið til þeirra, er í slík vandræðahéruð setjast og hjálpa hinum afskekktu og fáu, sem þar búa. Það mundi verða til að tryggja þeim héruðum góða lækna, að þeir, sem setjast þar að, eigi vissu fyrir því að fá önnur betri læknishéruð, þegar tækifæri býðst. Annars er hætt við, að þessi héruð standi tóm, eða þá skipuð lélegum mönnum og lítt nothæfum. Ég vil fyrir mitt leyti, í þeirri von, að þetta muni breytast og lagast í framtíðinni og að ekki haldi áfram það óréttlæti í embættaveitingu lækna, sem ríkt hefir um skeið nú undanfarið, greiða atkv. með því, að þetta læknishérað verði sett á stofn.