06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í C-deild Alþingistíðinda. (11334)

95. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Frsm. (Einar Árnason):

Mér þykir það furðulegt kapp, sem hv. þm. Snæf. leggur á að koma frv. þessu fyrir kattarnef, og þó undarlegast fyrir það, að hann er sjálfur læknir. En hann sem læknir ætti einmitt að þekkja manna bezt til erfiðleika þeirra, er menn úti um sveitir landsins eiga við að stríða, er þeir þurfa að vitja læknis um langan veg og torsóttan. Hv. þm. hélt því fram, að ef þetta munaði ríkið ekki nema nokkrum hundruðum kr., þá munaði það hreppinn ekki miklu. En það er nú samt mikill munur á gjaldþoli fátæks hrepps og gjaldþoli ríkissjóðs. Ríkissjóð munar lítið um 1000 kr., en fátækan hrepp munar ákaflega mikið um þær.

Viðvíkjandi hinni rökstuddu dagskrá hefi ég það að segja, að ég tel rétt, að frv. fái að ganga til Nd. og mæta þar frv. um skipun læknishéraða, og getur þá Nd. ákveðið, hvort þetta skuli tekið þar með eða látið það ganga fram út af fyrir sig. Nd. hefir þá fulla yfirlýsingu þessarar deildar um hennar vilja í málinu.