15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í C-deild Alþingistíðinda. (11345)

147. mál, jöfnunarsjóður ríkisins

Flm. (Jón Baldvinsson):

Frv. til. 1. um jöfnunarsjóð ríkisins hefir verið flutt á tveimur undanförnum þingum. Á síðasta þingi var málið borið fram í Nd.; komst það hingað til Ed., en sofnaði hér. Í meðferð Nd. á frv. þá tók það gagngerðri breyt. frá því, sem það var flutt. Í stað þess, að frv. var upphaflega ætlað að vera til þess að jafna árlegar framkvæmdir ríkisins á verklegum sviðum, þá var því breytt í það horf, að markmið þess væri að jafna tekjuhalla ríkissjóðs á fjárlögum. En þetta var ekki tilætlun flm. frv., og er heldur ekki gert þar, sem lík ákvæði eru erlendis. Fyrirmyndin að þessu frv. er frá Svíþjóð. Þar var þessi regla tekin upp fyrir nokkrum árum og notuð á sama hátt og lagt var til í frv., að leggja til hliðar á góðu árunum og geyma það til framkvæmda þegar verr árar.

Það hefir sýnt sig, að ef slík lög hefðu verið til fyrir 1930, þá hefðu samkv. þeim runnið 4 millj. kr. í jöfnunarsjóð það ár. Hefði sú upphæð verið kærkomin nú, á þessum miklu erfiðleikatímum. Og þótt ekki þýði nú að sakast um orðinn hlut, þá verður maður þó að lifa í þeirri von, að betur ári síðar. Er þá heppilegt, að til séu lög, svo sem frv. þetta gerir ráð fyrir, svo ríkið verði betur undir búið að taka á móti næstu erfiðu tímum. Þegar vinnu brestur, lendir fólk í vandræðum og verður að leita á náðir sveitar- og bæjarsjóða eða þá til ríkisins um hjálp. Á síðasta þingi kom nú það undarlega fyrir, að stóru flokkarnir tóku höndum saman um að gera úr frv. jöfnunarsjóð fyrir tekjuhalla ríkisins. Ég ber þó frv. fram nú í þess upphaflegu mynd, í trausti þess, að hv. deild geti aðhyllzt það frekar svo en að það veiði eins og það var gert í sumar, til að jafna skuldir ríkisins. Á þennan hátt, sem hér er lagt til, verður þetta til öryggis fyrir atvinnuvegina í landinu og ríkissjóðinn líka á erfiðum tímum. Ef slíkur sjóður er til, sparar hann lántökur til atvinnubóta á slíkum tímum. Sé ég eigi, að hann geti orðið þjóðinni til meira gagns á annan hátt.

Verið getur, að upphæð fjárlaga breytist, svo að nauðsynlegt sé að breyta ákvæðum frv. samkv. því. Sennilegt er, að tekjur ríkissjóðs verði ekki jafnmiklar þetta ár og hið næsta eins og þær voru á árunum frá 1928–1931. Má þá breyta tekjuhámarki því, sem um getur í frv., í samræmi við það, þegar séð er, að tekjur lækka.

Óska ég, að frv. verði að lokinni umr. látið ganga til fjhn. Ég vil jafnframt vænta þess, að andstöðuflokkarnir vilji endurskaða aðstöðu sína til frv. frá því í fyrra, og vona, að þeir geti breytt skoðun sinni og vilji fallast á það, sem er aðaltilgangur frv., en geri ekki þá breyt., sem gerð var á því, þegar það lá fyrir Ed. í sumar, þar sem ekkert var eftir nema helmingur af fyrirsögninni.