15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í C-deild Alþingistíðinda. (11350)

148. mál, bann hjá opinberum starfsmönnum að taka umboðslaun

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta sama atriði og hv. l. landsk. minntist á, var einnig til umr. á síðasta þingi. Það má vera, að rétt sé, að ákvæði hegningarlaganna taki til ýmissa þeirra embættis- og starfsmanna ríkisins, sem hér eru taldir upp. En mér þótti réttara, fyrst slíkt frv. kom fram á annað borð, að taka með alla meiri háttar starfsmenn og forstöðumenn ríkisins.

Annað, sem hv. 1. landsk. sagði, hefi ég ekkert við að athuga. Ég hefi ekkert á móti því, ef betra þætti að samræma þessi refsiákvæði við þau ákvæði, sem nú gilda. Mér finnst eðlilegt, að allir þessir embættis- og starfsmenn falli undir sömu ákvæði. Það væri þá ekki annað en að taka upp þau ákvæði, sem hv. 1. landsk. heldur, að gildi í þessu efni, en allt þetta athugar n., þegar þar að kemur.