07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í C-deild Alþingistíðinda. (11356)

148. mál, bann hjá opinberum starfsmönnum að taka umboðslaun

Jón Þorláksson:

Ég er sammála n. um það, að rétt sé að fella ákvæðið um starfsmenn samvinnufélaganna niður úr frv. Ekki af því, að ég álíti, að þessir starfsmenn megi, taka umboðslaun, ef það er á móti ráðningarsamning þeirra eða á móti þeirri hugsun, sem lögð var til grundvallar um ráðningu þeirra eða skipun. Það er af öðrum ástæðum, að ég álít, að ákvæðið um samvinnufélögin eigi ekki heima í þessum lögum. Í hegningarlögunum, sem að vísu eru nú orðin gömul og úrelt á mörgum sviðum, en eru hinsvegar þaulhugsuð og með rökréttum aðgreiningum, er gerður greinarmunur á refsiákvæðunum að því er snertir opinbera starfsmenn, ef þeir fremja slíkt, og öðrum starfsmönnum. Gilda strangari ákvæði um embættismenn hins opinbera, ef þeir verða brotlegir í þessum efnum, heldur en ef um er að ræða starfsmenn í þjónustu einkafyrirtækja, sem gerast brotlegir í hinu sama. Tel ég óheppilegt að taka undir eitt ákvæði það, sem þannig heyrir undir mörg ólík ákvæði í hegningarlögunum. Hegningarlögin gera og ennfremur greinarmun á starfsmönnum ríkisins og starfsmönnum sveitarfélaga, en ég legg þó ekki jafnmikla áherzlu á það, því að hvorirtveggja mega að vísu kallast opinberir starfsmenn. Þó að starfsmenn sveitarfélaganna séu því teknir upp í slíkt frv., gerir það ekki til. Ef hinsvegar þætti þörf á að breyta refsiákvæðunum að því er snertir menn, sem eru í þjónustu einkafyrirtækja og brotlegir verða um þetta, á það heima í öðru frv. en þessu. — Af þessum röklegu ástæðum mun ég greiða atkv. með till. n.

Það gæti líka staðið svo á, að félag, og þó samvinnufélag væri, beinlínis semdi svo við forstjórann, að honum skyldi launað með umboðslaunum. Það gæti hugsazt, og er ekki neitt óheiðarlegt við það. En frv. girðir fyrir það, að ríkið geti gert slíka samninga við forstjóra sinna stofnana, og það álít ég rétt, að ríkið borgi starfsmönnum sínum með beinum launum.