23.03.1932
Efri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í C-deild Alþingistíðinda. (11369)

235. mál, sala Kollaleiru

Flm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er flutt eftir beiðni hreppsnefndarinnar í Reyðarfjarðarhreppi, og er að nokkru leyti tekið fram í grg., hver ástæðan er. Þess þarf ekki með að lýsa því frekar á þessum stað en öðrum, hver nauðsyn það er kauptúnum að eiga nokkurt land til ræktunar. Þessi jörð er fast við kauptúnið og nokkur hluti kauptúnsins er byggður í landi jarðarinnar, og jörðin hefir mjög mikil og góð skilyrði til ræktunar. Hinsvegar er erfitt að fá annað ræktunarland þarna, og þó það fengist, þá vantar beitiland, og yrðu því kauptúnsbúar að leigja það annarsstaðar fyrir gripi sína.

Ég geri ráð fyrir, að hv. Alþ. sjái, að hér er um nauðsynjamál að ræða fyrir íbúa þessa kauptúns, enda hefir það jafnan áður tekið slíkum málum vel, og sé ég ekki neina ástæðu til, að það geri undantekningu um þetta mál.

Hvað snertir upplýsingar um þessa jörð og aðstöðu, þá eru fyrir hendi allgóð skilyrði fyrir væntanlega n. til að kynna sér það. þar sem hér á sæti á Alþ. umboðsmaður Múlaumboðs, sem er allra manna kunnugastur öllu því, er snertir þessa jörð, sem hér er farið fram á að fá heimild til að selja; þar sem hann er umboðsmaður jarðarinnar.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé ástæða fyrir mig að fjölyrða um mál þetta; það má draga af líkum, að þó n. kynni að sjá ástæðu til að breyta frvgr. að einhverju leyti, þá hafi ég ekkert við það að athuga, ef aðeins er opnaður möguleiki fyrir viðkomandi hreppsfélag til að eignast jörðina. Það gæti t. d. komið til mála, og er fordæmi fyrir því, að kaupverðið væri ákveðið í l. sjálfum. Tel ég, að það sé enginn galli fyrir kaupandann, því það væri þó til þess að fyrirbyggja hugsanlega misklíð síðar um það atriði. Ég bendi aðeins á þetta, ef athugun í n. skyldi leiða til þess, að það yrði gert. Sjálfur hefi ég ekki viljað setja þetta í frv., því mig brast næga þekkingu til að ákveða verðið.

Ég legg svo til, að frv. verði. að umr. lokinni, vísað tjl allshn.