06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í C-deild Alþingistíðinda. (11381)

300. mál, kosning til Alþingis

Flm. (Jón Þorláksson):

Ég skal játa það, að ef samkomulag verður um afgreiðslu stjórnarskrármálsins á þessu þingi, þá eru ekki miklar líkur til, að við leggjum verulega áherzlu á, að þetta frv. verði lögfest. En enn er þó hugsanlegt, að stjórnarskrárbreyt. gangi ekki fram, og þá verður baráttan í kosningunum hörð. Er þá ekki þýðingarlaust að hafa getað veitt fylgismönnum frv. betri aðstöðu en þeir hafa nú, með því að ná möguleikum til að fá fleiri þingsæti. Ég veit, að þetta lagfærir hvergi nærri það ranglæti, sem nú ríkir, en aðstaða er ekki til að komast nær réttu hlutfalli í þessu efni en á þann hátt, er frv. þetta gerir ráð fyrir. Ég áleit því rétt, að frv. þetta kæmi fram áður en óhæfilega langt væri liðið á þingtímann. Vona ég, að hv. d. geti fallizt á að láta það ganga til 2. umr. og n. Það fer svo eftir horfunum um það, hvort samkomulagskosningar eða baráttukosningar fara fram næst, hvaða áherzlu við leggjum á það, að frv. þetta verði að lögum.