06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í C-deild Alþingistíðinda. (11382)

300. mál, kosning til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Ég veit ekki, hvort ég hefi sett það nógu greinilega fram, er ég lét í ljós undrun mína yfir því, að frv. þetta væri komið fram og gerði fyrirspurn um það, hvort Sjálfstæðisflokkurinn teldi þetta nægilega lausn í kjördæmamálinu. Ég vil því reyna að orða þetta ljósar. Það er öllum kunnugt, að frv. þetta getur ekki náð samþ. nema Framsóknarflokkurinn ljái því fylgi sitt. Því spurði ég um þetta. Ef ekki næst samkomulag við Framsóknarflokkinn, þá getur hann stöðvað það eða fellt hér í þessari deild og margdrepið það í Nd. Það kemst því ekki fram undir neinum kringumstæðum nema með samkomulagi við Framsóknarflokkinn. Því rann í huga minn, hvort slíkt samkomulag væri fengið og að sjálfstæðismenn hefðu talið þessa breyt. á kosningunum nóga til samkomulags. Nú hefir hv. 1. flm. lýst því yfir, að ekkert samkomulag hafi náðst og að þessu sé aðeins ætlað að gilda fyrir einar kosningar. Ég legg nú að vísu ekki fullan trúnað á, ef þetta verður samþ., að endilega sé víst, að það gildi ekki við nema einar kosningar. Um það stendur ekkert í frv., svo þess vegna getur það hæglega staðið lengur.

Hv. 3. landsk. talaði um, að ég væri með hótanir. Ég lít nú ekki svo á, að það séu neinar hótanir, þótt ég lýsi ástandinu eins og það í raun og veru er. Hér er háð barátta milli þriggja flokka, og hér í Ed. hafa andstöðuflokkar stj. í hendi sér að fella öll þau mál fyrir henni, er þeir vilja ekki, að gangi fram. Og þeir telja það mál svo mikilsvert, að hver kjósandi fái fullan rétt og jafnan hvar sem er á landinu, að þeir telja rétt að knýja það fram með þeim meðulum, er þeir hafa yfir að ráða. Hv. 3. landsk. veit, að þegar stjórnað er með bráðabirgðalögum og einræðisvaldi; þá er venjulega skammt til byltingar, og það er af því að hann er hræddur um, að hans flokkur geri þetta, að hann er að tala um hótanir. Einræðisstjórnir haft alltaf gert þetta, talað um, að andstæðingarnir hafi í frammi hótanir um ofbeldi, og í skjóli þess hafa svo kúganirnar farið fram. Svona var það í Rússlandi á dögum einræðisstj. Þar fóru kúganirnar fram í því skjóli, að menn væru að æsa til uppreisnar og ofbeldis, og voru þeir svo sendir í útlegð til Síberíu.