12.04.1932
Efri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í C-deild Alþingistíðinda. (11388)

363. mál, verkakaupsveð

Flm. (Jón Baldvinsson):

Eins og hv. dm. er kunnugt, hefir það verið ákveðið að nema úr gildi alla löggjöf um Síldareinkasölu Íslands, og verða lög um það bráðlega samþ. Er þá engin löggjöf til um síldarrekstur, a. m. k. ekki á sama hátt og verið hefir, og því fremur litlar tryggingar fyrir því fyrir verkafólk í landi, sem síldarvinnu stundar, að það fái kaup sitt goldið; en fyrir því voru talsvert miklar tryggingar meðan sala síldarinnar var í höndum einkasölunnar. Næsta sumar verður síldarútgerðin rekin upp á gamla mátann, og munu þá að líkindum ýmsir útgerðarmenn; sem fengizt höfðu við þessa atvinnu áður en einkasalan hófst, og reyndar sumir þeirra einnig á meðan, setjast að á Norðurlandi, hafa með sér vörur frá væntanlegum norskum og sænskum kaupendum og í skjóli þeirra salta alla þá síld, sem þessir kaupendur þurfa að fá saltaða. En þá er engin trygging fyrir það fólk, sem vinnur við síldarútveginn á landi, að það fái kaup sitt greitt, því það mætti gera ráð fyrir, eftir þeirri venju, sem verið hefir, að það gæti orðið erfitt fyrir það að ná kaupi sínu hjá þeim, sem þennan útveg reka, ef varan er flutt út áður en það er goldið. En ef varan fer og fólkið hefir engin tök á að ná kaupi sínu af andvirði hennar, þá er hætt við, a$ það sé tapað, því margir af þessum mönnum, sem síldarútgerð reka, með undantekningum náttúrlega, eru ekki færir um að inna þessar greiðslur af hendi, ef þeir hafa ekki greitt áður en varan fer.

Nú sýnist mér, að það muni ekki vera nema um tvennt að gera fyrir verkalýðinn til að innheimta kaup sitt, annaðhvort að láta verklýðsfélögin taka sig saman og hafa menn á söltunarstöðvunum til þess að verkafólkið geti tryggt sér, að síldin væri ekki flutt út fyrr en verkakaupið væri borgað. En það mundi þýða miklar tafir við útskipun síldarinnar og stöðugar vinnudeilur, sem enginn óskar eftir, en gætu þó verið nauðsynlegar til að tryggja rétt fólksins. Annað er hitt, að verkafólkið fái löglegt veð í síldinni, svo að það geti tekið kaup sitt af söluverði veiddrar síldar, eða m. ö. o. að tekið verði upp það fyrirkomulag, sem frv. ræðir um. Þá leið álít ég hreinlegasta og heppilegasta.

Með þetta óvissa útlit um rekstur síldarútvegsins í sumar fyrir augum er þetta frv. nú komið fram aftur. Það var borið fram á þinginu 1928, en þá var einkasala á síld lögleidd, og mun þá ekki hafa þótt þörf á að setja lög um þetta efni. Nú vildi ég mælast til, að hv. d. vildi taka þetta mál til umr. í n., að þessari umr. lokinni, og sýnist mér, að þar sem þetta er eingöngu fjárhagsatriði, þá ætti það helzt heima í fjhn. d. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta, þar sem nokkuð ýtarleg grg. fyrir frv., en legg til, að því sé vísað til fjhn.