22.04.1932
Efri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í C-deild Alþingistíðinda. (11392)

462. mál, Mið-Sámsstaðir

Frsm. (Einar Árnason:

): Allshn. flytur þetta frv. að tilmælum dómsmálaráðuneytisins. Fer frv. fram á það, að stj. verði heimilað að selja Búnaðarfélagi Íslands kirkjujörðina Mið-Sámsstaði í Fljótshlíð fyrir 4000 kr., frá fardögum 1932 að telja.

Um þessa jörð er það að segja, að Búnaðarfélagið hefir hin síðustu ár haft jörðina til árlegra nytja og rekið þar tilraunastarfsemi um grasfrærækt og kornrækt. Til þess að félaginu væri unnt að reka þessa starfsemi, hefir það orðið að gera þarna jarðabætur, sem nema yfir 4000 dagsverkum, auk bygginga, sem félagið einnig hefir orðið að reisa á jörðinni og taldar eru að hafa kostað um 21 þús. kr. — Hinsvegar er hér um fremur litla jörð að ræða. Eftir gildandi fasteignamati er jörðin virt á 3000 kr. með húsum, og má því ljóst vera, að það verðmæti, sem nú er bundið í og við jörðina, er að langmestu leyti til orðið fyrir starfsemi Búnaðarfélagsins, og enda þess eign. Nú fer félagið fram á að fá jörðina til eignar og fullra umráða, sem því og er nauðsynlegt vegna tilraunastarfsemi sinnar þar, og hefir allshn. fallizt á þessa málaleitun félagsins og mælir eindregið með því, að frv. verði samþ.