18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

1. mál, fjárlög 1933

Af þeim umr., sem fram hafa farið að undanförnu um bannmálið, bæði hér á þingi og í útvarpinu, má ráða, að drykkjuskapur er mikill í landinu og fer stöðugt vaxandi. Hvar sem menn eru annars staddir í bann- og bindindismálum, þá kemur öllum saman um, að drykkjuskapurinn sé, þjóðfélagslega séð, til stórskaða og mikils virði sé allt, sem gert er til að draga úr þessari plágu. Hér er heldur ekki um neitt smámál að ræða, að því er áfengisnotkun landsmanna snertir, því að talið er í hundruðum þúsunda eða milljónum það fé sem velt er til áfengiskaupa; þess vegna má undarlegt heita, að á Alþingi skuli finnast menn, sem telja eftir það smáfé, sem veitt hefir verið til þess að standa svolítið á móti áfengisflóðinu og reyna að draga eitthvað úr því böli, sem drykkjuskapnum fylgir. Annars er ég hissa á, án þess ho að ég sé nokkur áhugamaður um þessi mál, hvað naumt styrkurinn til Stórstúku Íslands er skorinn, og oft hefir mig furðað á tilhneigingu hv. þm. um að færa þennan styrk niður. Mér finnst, án tillits til þess, hvort menn eru miklir vinir templara eða ekki, að þm. eigi að hugsa um, að templarar hafi nóg fé til umráða, svo að þeir geti rækt starfsemi sína eins og þarf. Það er alveg óhugsandi að rækja það starf að nokkru gagni fyrir einar 6 þús. kr. á ári, — óhugsandi, að sú starfsemi beri nokkurn verulegan árangur, nema með því að senda menn út um land til þess að flytja bindindisfyrirlestra, auk þess sem stórstúkan verður að hafa skrifstofu hér í bænum og gefa út málgagn. Þetta hefir stórstúkan líka gert eftir því, sem henni hefir verið unnt. Hún hefir sent menn í fyrirlestraferðir út um land, hún heldur uppi skrafstofu í bænum, og hún hefir gefið út blað, og nú nýlega bætt öðrun við. Ég sé ekki, að það sé neinn vegur að skera þessa fjárveitingu svo við neglur, að þessi starfsemi stórstúkunnar geti ekki notið sín; þess vegna hefi ég ár eftir ár í þessari hv. deild verið með að hækka styrkinn og flutt brtt. í þá átt, að stórstúkan fengi hann styrk, sem nauðsynlegt verður að teljast, til þess að þetta starf hennar megi fara sæmilega úr hendi. Nú hefir það orðið að samkomulagi, að hæstv. dómsmrh. taki sína till. aftur, en að við hv. þm. Borgf. flyttum brtt. við okkar till. á þskj. 418. Þessa síðari brtt. okkar er að finna á þskj. 452 og hljóðar svo:

„Til Stórstúku Íslands, til bindindisstarfsemi 10000 kr. Þar af til sambands bindindisfélaga í skólum landsins 2500 kr.

Það stendur svo á þessu, að nú fyrir skemmstu gengust nokkrir áhugamenn fyrir því að stofna bindindisfélög í skólunum hér í Reykjavík. Sá, sem hefir mest og bezt starfað að þessu, er stórtemplar Sigfús Sigurhjartarson, auk Friðrik, Brekkan rithöfundar. Það hefir ekki verið áður um neinn bindindisfélagsskap að ræða í skolunum, enda þótti ekki hentugt að byrja með að stofna þar goodtemplarastúkur. Skólafólkið kærir sig ekki um slíkan bindindisfélagsskap, en til þess að laða æskuna til fylgis við þetta goða málefni var að því ráði horfið að stofna til frjálslyndra bindindisfélaga, enda er sjálfsagt að hafa þetta eins og bezt hentar á hverjum stað. Nú hafa þessi félög gengið í samband, sem nær yfir skóla landsins, og er það þannig myndað, að félögin kjósa sér fulltrúa, sem koma á sambandsþing, en það kýs sambandsstjórnina. Það er ekki nema sjálfsagt að ætla þessum félögum styrk, svo að þau þurfi ekki undir aðra að sækja með hann. Þau kæra sig ekki um að starfa í sambandi við stórstúkuna, en vilja heldur reka sitt starf í þessa att sjálfstætt, og er ekki nema rétt og sjálfsagt að lofa þeim það. Það var í sambandi við þessa starfsemi, að hæstv. dómsmrh. bar fram till. sína, sem hann hefir nú tekið aftur, eins og ég gat um áðan, af því að samkomulag hefir orðið um að bera till. fram eins og hún er á þskj. 452. Þó að þessi félög hugsi sér að starfa sjálfstætt, þá er þó ekki um svo algerlega sjálfstæða starfsemi að ræða að kljúfa eigi þessa krafta sundur, heldur er ætlunin, að reglan og samband skólabindindisfélaganna vinni óbeinlínis saman að þessu sama áhugamáli beggja. Menn í stórstúkunni hafa komið þessari starfsemi á fót, sem getur um tíma orðið mikill kraftur í þessu starfi; en hitt er ofur eðlilegt, að templurum geti fallið illa, ef þessi nýja stofnun verður sett samhliða stórstúkunni. Þess vegna hefir orðið samkomulagstill. um það, að styrkurinn sé veittur stórstúkunni, sem forgöngu á að hafa um þessi mál, en svo er tilskilið í fjárl., að samband bindindisfélaga skólanna hafi beinan rétt til þess að fá styrk, án þess að sækja um það til annara, sem það geti notað til þess að senda menn á milli skólanna og styrkja sambandið.

Ég veit, að hér í deildinni er nokkur Skoðanamunur, sem komið hefir fram í atkvgr., um það, hvort veita eigi Stórstúku Íslands lægri eða hærri upphæð til starfsemi sinnar. Ég vona nú samt, að till. okkar hv. þm. Borgf. á þskj. 452 finni náð fyrir augum hv. þdm. og að þeir viðurkenni, að ekki megi draga af því fé, sem stórstúkunni er veitt til sinnar miklu og góðu starfsemi.

Fleiri till. eru það ekki, sem ég er við riðinn í þetta sinn, en ég vil nota tækifærið að lýsa yfir, að ég er algerlega andstæður þeirri till. samþm. míns, hv. 2. þm. Reykv., að fella niður aths. um að bókmenntafélagið haldi áfram að gefa út fornbréfasafnið. Mér þótti mjög leiðinlegt, er ég frétti, að stjórn bókmenntafélagsins hefði afraðið að hætta við útgáfuna. Hinsvegar vonaði ég, að ef styrkurinn fengi að standa með aths., þá mundi félagið ekki skorast undan því að halda útgáfunni áfram. Það skal að vísu játað, að fornbréfasafnið er enginn skemmtilestur fyrir allan fjölda manna, og eflaust margir menn, sem leggja það á hilluna eða henda því frá sér ólesnu. En samt sem áður er fornbréfasafnið langmerkilegasta heimildin um sögu Íslands og hjálpar mjög til um alla söguþekkingu. Þó að menn lesi ekki fornbréfasafnið, lesa menn þó þau verk, sem á því byggjast. Og svo merkilegt er það, að þegar er um einhver vafaatriði að ræða, þá er jafnan haft það sem þar stendur, og á þann hátt hefir tekizt að leiðrétta margvíslegan misskilning, sem komizt hefir inn í sögu lands og þjóðar. Fornbréfasafnið er því nauðsynlegt og ómissandi þeim, sem öðlast vilja staðgóða þekkingu á sögunni. En hitt er líka vitanlegt, að það er enginn vegur að gefa þetta safn út, nema að félag, sem tekur það að sér, njóti til þess styrks af almannafé. Bókmenntafélagið hefir nú haft með höndum þessa útgáfu um langan tíma og þokað henni áfram smátt og smátt, svo að nú eru komin út 11 bindi, og þannig vildi ég að væri haldið áfram. Það þýðir ekki að tala um, að það sé svo mikill sægur af þessum bréfum, að þau muni seint þrjóta; því meiri þolinmæði þarf til þess að koma þeim út.

Mín skoðun — að svo komnu — á útgáfu fornbréfasafnsins er sú, að aldrei eigi að hætta henni; það á alltaf að halda áfram að gefa út, stundum kannske lítið hefti, en aldrei að gefast upp. Á þann hátt hefir verið komið út stórum verkum; það hefir tekið 100 og jafnvel 200 ar annarsstaðar, en bara að halda áfram, gefast ekki upp; það er fyrir öllu. Mér finnst, að stj. bókmenntafélagsins sýni þolleysi, er hún vill henda frá sér þessu verki. Ég vil, að félagið sjái sig um hönd og haldi útgáfunni áfram, eins og það hefir byrjað a. Og engum stendur heldur nær að gera það en Bókmenntafélagi Íslands. En það er satt, að það má taka upp aðra aðferð um útgáfu fornbréfasafnsins en verið hefir, t. d. að prenta ekki eins stórt upplag af því eins og tíðkazt hefir að undanförnu, auk þess að ekkert væri á móti, að þeir félagsmenn, sem vildu sérstaklega fá það, borguðu eitthvað örlítið meira fyrir það, og á ég þá við, að í stað þess að prenta kannske 2000 eintök væri aðeins lagt upp með 400–500 handa þeim, sem leggja stund á þessi fræði. Ég vil, að Alþingi verði á engan hátt þess valdandi, að útgáfa fornbréfasafnsins falli niður, enda er það að öllu leyti ósæmilegt fyrir Bókmenntafélag Íslands, að láta slíka hluti frá sér. Mesta sómastrik, sem bókmenntafélagið hefir gert, er að hafa gefið út af fornbréfasafninu það, sem komið er, en ég vil líka, að því sómastriki verði ekki lokið, heldur að haldið verði áfram útgáfunni, og ekki mun vegur félagsins minnka við það. Þau andmæli, sem ég hefi hér borið fram gegn því, að hætt verði við að halda áfram útgáfu fornbréfasafnsins, vil ég ekki, að verði til þess að draga úr því, að við eignumst nýjar ævisögur. Að vísu veit ég, að hér er undir högg að sækja, en við verðum að finna upp eitthvert annað ráð til þess að gefa ævisögurnar út en að fella niður annað verk, sem er nauðsynlegt, að haldið sé áfram með þeirri þrautseigju, sem þjóðin á. Þess vegna mælist ég til, að till. hv. 2. þm. Reykv. verði felld og að reynt verði að finna einhver ráð til þess að koma á legg þessu nýja verki, án þess að leggja niður við trogið eitthvert merkilegasta verk, sem bókmenntafélagið hefir unnið að.