29.04.1932
Efri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í C-deild Alþingistíðinda. (11407)

512. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Þorláksson:

Ég tel rétt, að það komi fram nú við þessa 1. umr. málsins, hvers vegna þetta mál er fram borið. Það virðist dálitið undarlegt, að tveir af þm. skuli ganga fram fyrir skjöldu og flytja frv. um skattaálögur, sem eru svo gífurlegar, að vitanlega getur enginn ætlazt til, að slíkur skattur verði greiddur. Þeir lýsa yfir því, að þeir geri þetta ekki að tilhlutun þeirrar stj., sem þeir sjálfir hafa valið, til þess m. a. að bera ábyrgð á fjármálum ríkisins, ekki heldur af hálfu neinna þeirra nefnda, sem þingið kýs sérstaklega til þess að fara með slík mál. Nei, við vitum, hvernig þessu vikur við. Þetta frv. er beint áframhald af þeim fyrirætlunum, sem fram komu í ræðu hæstv. dómsmrh. við 3. umr. stjórnarskrármálsins hér í d. Hann lýsti yfir því þá, út af því, að sjálfstæðismenn höfðu sett á oddinn kröfuna um borgaralegt jafnrétti allra landsmanna, að ef við, minni hl. á þinginu, grípum til þeirra ráða, sem við eigum kost á, til að þvinga þetta fram, þá myndi Framsóknarflokkurinn svara með því að nálægjast stefnu Alþýðuflokksins í skattamálum. Hann gerði m. ö. o. ráð fyrir því, að reynt yrði að koma á löggjöf um hækkun tekju- og eignarskatts, svo sem í refsingarskyni við þá, sem gerðust svo djarfir að bera fram jafnréttiskröfurnar. Nú er þetta frv. fram komið. Tveir af þm. Austfirðingafjórðungs hafa gefið sig í að bera það fram, og ljóst er orðið, hvert stefnir. Hér er reiddur vöndur á loft að þeim Reykvíkingum, sem dirfast að krefjast borgaralegs jafnréttis við aðra landsmenn. Ég hefi alltaf búizt við, frá upphafi stjórnarskrárdeilunnar, að eitthvað slíkt myndi koma fram. Og mér hefir frá upphafi verið það ljóst, hvernig slíku yrði tekið. Mér hefir frá upphafi verið það ljóst, að ef skerast á í odda með skattamálin, vegna þverúðar þingmeirihl. gegn jafnréttiskröfunum, þá verður ekki úr fjárþurrð ríkissjóðs bætt með hækkun á tekju- og eignarskatti, og það fyrst og fremst af því, að nú er svo ástatt með tekjur manna og eignir, að allar áætlanir og vonir um tekjur af slíkum sköttum bregðast. Reynsla liðna tímans hefir sýnt, að tekjuskattur er misjafn frá ári til árs á tekjuhlið ríkissjóðs og fer mjög langt niður í óhagstæðu árunum. því lægri sem skattstiginn er, því meiri von er um tekjur. Mér hefir verið sagt, að þetta hafi borið á góma við umr. í Nd. á þessu þingi og hæstv. fjmrh., sem hér situr, hafi þá látið skynsamlega og skilmerkilega í ljós þessa sömu skoðun. Það þýðir ekki að ætla sér að bjarga erfiðum fjárhag ríkisins með hækkun tekju- og eignarskatts, þegar tekjur allra fyrirtækja eru niðri í lágmarki og margir, sem í venjulegum árum hafa tekjuafgang, eru í tapi. Ég veit vel, að hv. flm. er þetta einnig ljóst. Engin björgun er það fyrir ríkissjóð á þessum kreppuárum, að slíkar ráðstafanir séu gerðar. Ég get fullkomlega sagt, að að því leyti sem þetta frv. er líkamningur á fyrirætlunum hæstv. dómsmrh. í baráttunni gegn mannréttindamálunum, þá munu Reykvíkingar kunna ákaflega góð og gild svör gagnvart refsiskatti, sem á þá er lagður sérstaklega — til þess að kúga þá fyrir það, að þeir beiðast jafns borgaralegs réttar við aðra landsmenn. Ég þarf ekki að útlista hér, hvernig þessu verður tekið af Reykvíkingum, en ég veit, að það þarf harðgerðari menn en hv. flm. þessa frv. til þess að ná refsiskatti frá Reykvíkingum út af þessu máli.

Ég áleit rétt, að þetta kæmi fram við þessa umr. málsins, af þeirri ástæðu, að ég veit ekki, hvort þær verða fleiri umr. um þetta mál, og ég taldi því rétt að hafa vaðið fyrir neðan mig og segja þetta strax.