17.03.1932
Neðri deild: 31. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2379 í B-deild Alþingistíðinda. (11427)

Afgreiðsla þingmála

Forseti (JörB):

Það er rétt, sem hv. þm. tók fram, að þingsköpin gera ráð fyrir, að ef þm. neitar að greiða atkv. án þess að færa fram ástæður, eða þá þannig lagaðar ástæður, sem forseti metur ekki gildar, þá sé heimilt að beita því refsiákvæði þeirra, að þm. missi af dagkaupi sínu. En til þess hefir mjög sjaldan komið, enda hefir það lengstum verið svo, að þm. hafa ekki neitað að greiða atkv., þó að stöku sinnum hafi borið við, að einn og einn þm. hafi skotið sér undan atkvgr. Mér hefir því ekki þótt ástæða til að beita þessu refsiákvæði. — Hvað viðvíkur afgreiðslu þessara mála, tekjuaukafrv., þá hefir því verið yfirlýst af hálfu sjálfstæðismanna, að þeir mundu ekki að svo komnu máli, þar til þeir sæju um afgreiðslu stjórnarskrármálsins, taka þátt í atkvgr. um tekjuaukamálin. Og ég hefi látið það íhlutunarlaust. En jafnaðarmenn hafa ekki gert grein fyrir því, hvers vegna þeir greiði ekki atkv. Mér hefir þó ekki fundizt nein ástæða til að gera rekistefnu út af því. Hinsvegar vil ég taka það fram, að ef það sýnir sig, að hv. þm. almennt eða alloft ætla að bregðast þeim skyldum á þingi að taka þátt í afgreiðslu mála, þá sé ég mig knúðan til að beita refsiákvæði þingskapanna. En ég vona, að til þess muni ekki koma.