12.04.1932
Neðri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2382 í B-deild Alþingistíðinda. (11437)

Afgreiðsla þingmála

Héðinn Valdimarsson:

Við höfum drepið á það á fyrri þingum, jafnaðarmenn, hve lélega afgreiðslu þau mál fá, sem við berum fram, og teljum við okkur þó eiga sama rétt sem aðra þm. til þess, að mál okkar séu tekin fyrir, afgr. til n. og aftur frá n., svo að atkvgr. geti gengið í þeim og það komi í ljós, hvern hug þm. bera til þessara mála, sem öll varða heill almennings í þessu landi að meira eða minna leyti. Nú keyrir þó úr hófi um meðferð þeirra mála, sem við höfum borið fram, og eins og sýnt er af þeim lista, sem ég nú skal lesa upp, er þetta öllum þeim aðilum að kenna, sem hér koma til greina, jafnt hæstv. forseta sem n. þingsins. Ég vil taka það fram um þennan lista, svo að hann verði ekki rengdur, að hann er saminn af skrifstofustjóra Alþingis, Jóni Sigurðssyni, eftir beiðni minni:

Frv. flutt í Nd. af Alþýðuflokknum:

1. Læknishéraðasjóðir (Flm.: VJ). Til allshn. 23/2.

2. Ríkisútg. skólabóka (Flm. VJ, HV, HG). Til menntmn. 24/2.

3. Lækningaleyfi (Flm. VJ). frá allshn. 12/3. Bíður 2. umr. Hefir komið á dagskra 8 sinnum (til 2. umr.), en verið tekið út.

4. Skipun læknishéraða o. s. frv. Til allshn. 26/2.

5. Skipun barnakennara og laun (Flm.: HV, HG, VJ). Til menntmn. 2/3.

6. Raforkuvirki (Flm.: JónasÞ og VJ). Til allshn. 9/3.

7. Verðhækkunarskattur (Flm.: HStef og HG). Til fjhn. 21/3.

8. Þjóðarjarðasala og kirkjugarða. (Flm.: HG og HStef). Útbýtt 12/3. 1. umr. frestað 6/4.

9. Hafnarlög Rvíkur. (Flm.: EA og HV). Til allshn. 19/3.

10. Hámark launa (Flm.: VJ). Til fjhn. 31/3

11. Mannafli á skipum (Flm.: HG, HV, VJ). Til sjútvn.19/3.

12. Sogsvirkjun (Flm.: HV, HG, VJ). Til allshn. 22/3.

13. Samvinnufélög (Flm.: HV, HG, VJ). Til allshn. 31/3.

14. Varðskip (Flm.: HG). Til sjútvn. 22/3.

15. Útflutningsgjald (Flm.: HG, JÓl, VJ). Útbýtt 19/3. Tekið 4 sinnum á dagskrá til 1. umr., en jafnan tekið af dagskrá.

16. Útflutningsgjald af síld (Sömu flm.). Útbýtt 19/3. Sama sem um næsta mál á undan.

17. Vigt á síld (Flm.: VJ). Útbýtt 22/3. Tekið tvisvar á dagskrá til 1. umr., en tekið út.

18. Dragnótaveiððar (Flm. HV). Útbýtt 30/3 Á dagskrá til 1. umr. 7/4, en tekið út.

19. Alþýðutryggingar (Flm. HG, HV, VJ). Útbýtt 31/3. Bíður 1. umr.

20. Siglingalagabreyt. (Flm.: HV, HG, HJ). Útbýtt 1/4. Bíður 1. umr.

21. Hafnarlög Rvíkur (Flm.: HV). Útbýtt 1/4. Bíður 1. umr.

22. Erfðalög og erfðafjárskattur (Flm.: HG, VJ). Útbýtt 1/4. Bíður 1. umr.

23. Útflutn. á nýjum fiski (Flm.: HG, SvÓ). Útbýtt 9/4. Bíður 1. umr. Frumvörp komin til Nd. frá Ed.,

flutt þar af JBald.

1. Lokunartími sölubúða. Til allshn. Nd. 12/3.

2. Forkaupsréttur hafnarmannvirkja o. fl. Bíður 2. umr. Hefir komið á dagskrá þrisvar (til 2. umr.), en verið tekið út.

Tillögur, fluttar í Nd.

1. Fækkun prestsembætta (Flm.: VJ). Útb. 10/3. Ein umr. ákveðin 14/3. Bíður umræðu.

2. Ábúð jarðeigna hins opinbera (Flm.: HG og HStef). Útb. 12/3. Ein umr. ákveðin 14/3. Bíður umræðu. Hefir komið á dagskrá 8 sinnum (til einnar umr.), en verið tekið út.

3. Björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum ( FLm.: VJ ) . Utb. 15/3. Tvær umr. ákveðnar 29/3. Bíður fyrri umr.

Vil ég í nafni okkar jafnaðarmanna mótmæla þessari meðferð hæstv. forseta og hinna flokkanna hér í þinginu á þeim málum, sem við berum fram, og að vísu bendir þetta ekki á góða samvizku hjá flokkunum, þar sem þeir ýmist þora ekki að taka málin fyrir eða þá skirrast við að gefa út nál. um þau.