23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2393 í B-deild Alþingistíðinda. (11456)

Afgreiðsla þingmála

Jónas Þorbergsson:

Nokkuð snemma á þingi bar ég, ásamt fleiri hér í hv. d., fram frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. um einkasölu á bifreiðum og mótorvélum.

Þessu máli var vísað til hv. fjhn. 31. marz, og eru því liðnar 6–7 vikur síðan n. fékk málið til meðferðar, en ekkert bolar á því enn. Við flm. töldum mikilsvert, að málið fengi afgreiðslu og lögðum allmikla vinnu í að afla nauðsynlegra gagna, unnum úr hagskýrslum til að koma með glöggar upplýsingar, svo að hv. n. veittist léttara að athuga málið. En því miður virðist svo, að okkar fyrirhöfn sé öll fyrir gýg unnin að þessu sinni, því að n. hefir enn ekki látið neitt frá sér heyra um málið.

Ég veit það vel, að yfirleitt eru mjög skiptar skoðanir um það, hvort aðhyllast skuli einkasölufyrirkomulag eða ekki, en það orkar þó ekki tvímælis, að margir þeirra, sem mestra hagsmuna eiga að gæta í þessum efnum, álíta, að mikil nauðsyn sé að bæta fyrirkomulag á sölu mótorvéla hér í landi.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál nú, en ég verð að telja, að það hafi fengið mjög slæma afgreiðslu hjá hv. fjhn. og vil leyfa mér að vita það harðlega, að þannig sé farið með svo merkilegt mál sem þetta.