23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (11462)

Afgreiðsla þingmála

Bjarni Ásgeirsson:

Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir það, að hann lofar að taka þetta mat á dagskrá nú bráðlega, en ég verð að segja, að mér finnst undarlegt, að slík mál sem þetta skuli aldrei hafa verið á dagskráa undanfarna daga, því að mér hefir virzt dagskráin bera þess vott, að forseti hafi nú upp á síðkastið verið í vandræðum með að fá mál á hana.

Um hitt málið, frv. um ölgerð og sölumeðferð öls var á hæstv. forseta að heyra, að ég ætti að vera honum þakklátur fyrir þá hugulsemi að hlífa okkur flm. þess við frekari árásum vegna þessa frv. Ég hélt nú, að það væri ekki eitt af verkefnum forseta að hlífa þm. við hörðum umr. um þau mál, er þeir bera fram. Mér skilst, að hann eigi fremur að hugsa um hitt, að reyna að láta þd. fá málin til meðferðar, svo að hvert mál geti fengið þá afgreiðslu, sem meiri hl. vill vera láta. Hann á að taka málin fyrir, svo að þau geti farið til n. og fengið þar athugun. Það getur vel verið, að hæstv. forseti hafi fallið allur ketill í eld við þau andmæli, sem frv. sætti við 1. umr. Við flm. fengum aldrei tækifæri til að svara þeim, en ég verð að segja það, að þessi rök voru ekki svo sterk, að þau svifu á mig, og ég býst við, að eins sé um hv. meðflm. mína. Við þurfum áreiðanlega til þess bæði sterkari og stærri skammt en þar var fram reiddur.