01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (11468)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil undirstrika það hjá hv. 3. þm. Reykv., að þegar er nú liðin hálf þriðja vika af þingtímanum, og ekki nema í 11/2 viku enn, sem þm. er heimilt að bera fram mál sín hér í þinginu án afbrigða frá þingsköpum. Samt bólar enn ekki á neinum rástöfunum vegna kreppunnar af hálfu hæstv. stj., því að ég vil algerlega mótmæla því, að þau frv., sem hæstv. fjmrh. hefir lagt fyrir þingið, séu kreppufrv. þau miða þvert á móti öll að því að auka á kreppuna. Þau vandræði, sem kreppan bakar mönnum, eru aðallega þrennskonar, og er þetta þó allt skylt og hvert öðru nátengt. Er þar fyrst verðfall afurðanna, og kemur það fram í lækkuðum tekjum allra þeirra, sem tekjur sínar hafa af afurðasölu. Þar næst er hið stórkostlega atvinnuleysi með stórum minnkuðum tekjum þeirra allra, sem lifa á því að selja vinnuafl sitt. Og loks er svo hin aukna dýrtíð í landinu vegna gengisfallsins. Þær ráðstafanir, sem felast í þeim frv., sem hæstv. fjmrh. hefir borið fram, miða allar að því að auka á þessi vandræði manna; sumpart hníga þær að því að draga úr framkvæmdum ríkissjóðs og auka þannig á atvinnuleysið, sem fyrir er í landinu, en sumpart ganga þær út á að framlengja þá tolla, sem þegar eru lagðir á þjóðina, og auk þess að bæta við nýjum tollum og álögum og auka með því á dýrtíðina. En ekkert er gert til að bæta afurðasöluna. Á þinginu í sumar var samþ. þáltill. og það m. a. s. af flokksmönnum stj., þar sem stj. var falið að láta rannsaka, á hvern hátt heppilegast væri að vinna gegn dýrtíðinni í landinu og bæta úr atvinnuleysinu, og var ætlazt til, að stj. legði till. sínar um þetta fyrir þetta þing. En enn bólar ekki á neinu slíku frv. þegar ég um daginn innti hæstv. forsrh. eftir þessu, svaraði hann því einu til, að hér mundi bráðlega verða útbýtt meðal þm. mjög merkilegri skýrslu um verzlunarálagningu hér í Rvík. Þessi skýrsla er nú komin, og er hún að vísu allmerkileg, en þó að hún beri því órækt vitni, hversu verzlunarkostnaðurinn er mikill hér, leysir hún á engan hátt né bendir á lausn þessara vandræða, heldur verður að gera sérstakar ráðstafanir til að bæta úr þessu sleifarlagi og draga úr þessum óþarfa kostnaði við verzlunina. Mér er kunnugt um það, og ég þykist vita, að svo sé um þm. almennt, að ástandið víða í sveitum landsins er sízt betra en í kaupstöðunum. Ég hefði því haldið, að stj. mundi a. m. k. vilja sýnast gera einhverjar ráðstafanir til að létta bændum kreppuna. Mun svo víða vera, að þegar bændur eru búnir að greiða vexti og afborganir af skuldum sínum, eiga þeir ekkert eftir til nauðsynjakaupa, skattgreiðslna o. fl. Afurðirnar eru í svo lágu verði, að þetta stenzt á endum. Þó sé ég það mér til mikillar furðu, að hæstv. fjmrh. hefir tekið upp í fjárlagafrv. 540 þús. kr. fjárveitingu vegna jarðræktarlaganna, og svarar það til þess, að bændur létu vinna að sínu leyti fyrir 21/2 millj. kr., eftir því hlutfalli, sem jarðabæturnar kosta. Held ég, að bændur almennt séu með öllu útilokaðir frá að nota sér þennan styrk, enda ekki smáræðisupphæð, sem þeir þurfa að hafa handa á milli til að geta notfært sér styrkinn, fullar 21/2 millj. kr., eins og ég áður sagði. Þetta ber vitni um það, að hæstv. stj. gerir sér ekki ljóst, hversu illt ástandið er meðal bænda. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um það, að hægt væri að verja þessari fjárhæð svo, að bændum kæmi að miklu meira gagni. Þá hefir hæstv. fjmrh. og haldið styrknum til Búnaðarfélagsins óbreyttum og til styrks vegna áburðarkaupa áætlar hann 60 þús. kr. og gerir þannig ráð fyrir, að bændur eigi jafnauðvelt sem áður með að kaupa sér tilbúinn áburð. Með framlaginu til Búnaðarbankans verður þetta alls um 1200000 kr., sem veitt er til landbúnaðarins á þennan hátt á næsta ári, og fæ ég ekki séð, að slíkt geti verið á viti byggt, að því leyti, að bændur geti notað sér þetta framlag með því að leggja fram úr eigin vasa þær upphæðir, sem til er skilið á móti, sem nema a. m. k. 3–4 millj. kr.

Þetta eru nú kreppuráðstafanir hæstv. ráðh. vegna bænda. Vegna smábátaútvegs og verkalýðs eru hinsvegar engar ráðstafanir gerðar, heldur er kreppan þar aukin með tollum og öðrum álögum.

Ástæðan til þess, að við hreyfum þessu áli nú í fyrirspurnarformi, er sú, að á 2 síðustu þingum hafa till. okkar verið að vettugi virtar. Því höfum við nú. viljað bíða átekta og sjá, hvað stóru flokkarnir ætla sér að gera til að létta þjóðinni kreppuna. Það er sýnt, að tillögur okkar eiga ekki upp á pallborðið hjá þeim. Þær verða drepnar enn sem fyrr. Hvað ætla þeir að gera? nú höfum við beðið tillagna þeirra frá þingbyrjun. Hvenær koma þær?