01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (11470)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. fjmrh. sagði, að framleiðslukostnaður, þ. e. kaupgjald, þyrfti að lækka og vöruverð að hækka til þess að kreppunni letti af. Ég er hér alveg á gagnstæðri skoðun. Ástæðan til kreppunnar er sú, að kaupgetan er minni en framleiðslugetan, þ. e. a. s. kaupgjaldið er of lagt. þetta leiðir til þess, að vörurnar hrúgast upp (overproduktion). Lækningin er samræmi milli framleiðslumagns og kaupgetu. Annað verður að minnka, en hitt að aukast. Ég skal játa, að við Íslendingar ráðum litlu í þessu efni. En af þessu er augljóst, að heildarlækning hæstv. fjmrh. við kreppunni yrði aðeins til að gera illt verra.

Hæstv. ráðh. fór stundum óráðvandlegu með orð mín. Þannig kom mér aldrei til hugar að kenna stj. um verðfall á saltkjöti, saltfiski og síld. En ef nokkur manndómur væri í stjórn og þingi, ætti að vera hægt að tryggja betur sölu þessara afurða en gert er. Í öllum viðskiptalöndum okkar nema tveimur er viðskiptajöfnuður þeim hagstæður og með heildarsamningum ætti að vera hægt að auka að mun sölu á afurðum okkar í þeim löndum. Ef þing og stjórn treysta sér ekkert til að gera í þessum málum, verð ég að játa, að vald þeirra er ekki mikils virði. Þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið viðvíkjandi síldarsölunni í vetur, virðast næsta vafasöm kreppuráðstöfun. Og það eru einu afskiptin, sem þing og stjórn hefir haft af sölu afurðanna síðan kreppan byrjaði.

Ég fæ ekki sé, að verðlag á vínum á Spáni komi á nokkurn hátt við kreppuráðstöfunum okkar. Annars er þetta gömul grilla, að Spánverjar búi ekkert til nema vín. Það hefði eins mátt minnast á salt og appelsínur og fjölda af allskunar iðnaðar- og landbúnaðarvörum, sem þeir framleiða.

Hæstv. fjmrh. minntist eins og í skopi á 11 millj. frv., en gat hinsvegar ekkert um efni þess. En ég gæti trúað, að brosið færi af honum, þegar hann les það. Og ef það á fyrir honum að liggja að vera fjmrh. lengi, gæti ég trúað, að hann gripi til einhverra þeirra ráða um tekjuöflun, sem bent er á í frv. Ég hefi heyrt, að á leiðinni séu tekjuaukafrv. frá hæstv. ráðh. eða flokki hans, sem týnd eru upp úr 11 millj. frv.

Það, sem hæstv. ráðh. sagði um atvinnuleysisstyrkina, var mjög villandi. Hann vildi láta líta svo út sem þeim 300 þús. kr., sem ætlaðar voru í þessu skyni, hefði ekki verið eytt nema að mjög litlu leyti, af því að þeirra hefði ekki þurft með. Ef það er rétt, að litlu hafi enn verið eytt af þessu fé. Þá er það eingöngu fyrir brigðmæli stj., og dirfska býsna mikil eða öllu heldur ósvífni að vera að gera sig góðan af slíku.

Stjórnin lýsti yfir, að fé yrði til í haust gegn lögákveðnu framlagi sveitar- og bæjarfélaga. Munu bæjarfélögin hafa gert ráðstafanir til að útvega sér lán á móti styrknum. Flestöll kauptún og kaupstaðir munu hafa sótt um styrkinn, en aðeins 4 bæjarfélög og 2 kauptún fengið lítilsháttar styrk. Seyðisfjörður mun hafa fengið um 4500 kr. lán og styrk um manaðamótin nóv.–des. En um það leyti gerði forsjónin þar atvinnubætur, því að þá kom síldin, sem olli mikilli atvinnu í bili. Á meðan var féð, sem óeytt var, geymt í sparisjóði, svo það væri handbært, og býst ég við, að nú sé farið að ganga á það. Öðrum kaupstöðum hefir verið neitað, og gat þó t. d. Norðfjörður lagt fram 2/3 á móts við styrkinn. Á Eskifirði hefir verið unnið fyrir 5000 kr. af bæjarfé, en ekkert fengizt úr ríkissjóði. Fáskrúðsfj. hefir heldur ekkert fengið.

Mín reynsla er sú, að stj. hefir yfirleitt harðneitað um lán og styrk og borið því við, að reglugerð um atvinnuleysisstyrk væri ósamin. Hæstv. fjmrh. hefði því ekki átt að tala um atvinnuleysisstyrkina máli sínu til stuðnings.

Hæstv. fjmrh. gaf mér ekki tilefni til að segja fleira. Hann hefir aðeins gefið svar um þau frv., sem von er á frá hans hendi. En væntanlega getur hæstv. forsrh. upplýst meira.