12.03.1932
Neðri deild: 27. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (11472)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Héðinn Valdimarsson:

Eftir þingsköpum er erfitt að beina fyrirspurnum til stj. Hún þarf langan tíma til að hugsa sig um og svarar oft ekki fyrr en í þinglok. Ég vil því nota þá aðferð, sem var notuð á síðasta þingi af Alþýðuflokknum til þess að afla upplýsinga jafnóðum um fyrirætlanir hæstv. stj., með því að gera fyrirspurnir utan dagskrár.

Það, sem ég vil spyrja um, eru tvö mál, hvort frv. þeim viðvíkjandi muni á þessu þingi koma frá stj. Annað er síldarsalan. Það er öllum kunnugt, hverjar horfur eru með það mál nú. Það er nauðsynlegt fyrir þá, sem við þennan atvinnurekstur fast, að fá að vita, hvort nokkurt lögskipað fyrirkomulag eigi að verða á þessum atvinnuvegi í sumar, eða hvort allt eigi að vera „frjálst“ og skipulagslaust. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. stj., hvort hún hugsi sér að koma með frv. þessu viðvíkjandi.

Hitt er saltfiskssölumálið. Það er kunnugt, að mikil óánægja er meðal útgerðarmanna hér á landi út af fisksölunni, sem raunverulega hefir verið einkasala fyrir tvo fisksölufélög, Kveldúlf og Alliance, og kemur það bæði beint og óbeint niður á sjómönnum og verkalýð landsins.

Það hefir heyrzt, að hæstv. stj. hefði í hyggju að koma einhverju skipulagi á fisksöluna. Ég vil því beina þeirri fyrir spurn til hæstv. stj., hvort þetta sé rangt eða hvort von er á frv. viðvíkjandi þessu nú á þessu þingi.